2475 - Bingi

Öfgahægrið og fjölmenningarþjóðfélagið eru jarðsprengjusvæði þegar rætt er um þjóðfélagsmál. Kommúnismi og ómengaður kapítalismi eru það líka. Yfirleitt má helst ekki tala um svona lagað. Sanntrúaðir gera það helst ekki. Ef rætt er um grundvallaratriði er oft stutt í umræður um trúarbrögð, múslima og jafnvel Hitler og Gyðinga.

Þegar öfgaflokkar, sem vinstri menn kalla svo, eru um það bil að ná umtalsverðum völdum í þjóðríkjum á borð við Austurríki og Frakkland, er varla rétt að tala um öfgaflokka. Eru það öfgafullar skoðanir sem hugsanlegur meirihluti hefur? Hver á eiginlega að úrskurða um slíkt?

Sumum finnst allt öfgafullt sem frá Bandaríkjunum kemur. Er hægt að segja að Tromparinn sé öfgafullur eftir að hann er kominn í framboð? Hitler náði völdum í Þýskalandi. Hvernig fór hann að því? Vinsælasta skýringin á því nútildags er að kollegar hans hafi vanmetið hann. Eru ekki allir í raun sammála því að ríki heims eigi að vera mismunandi? Á sá mismunur ekki að ná til auðæfa? Eru ekki allir á móti stríðum? Hvers vegna eru þau þá svona algeng?

Ekki vill Björn Ingi Hrafnsson, sem stundum er kallaður Bingi, gefa upp hvernig hann eignaðist nógu mikla peninga til að kaupa næstum alla fjölmiðla sem til sölu eru. Geri samt ekki ráð fyrir að hann verði nokkurntíma nógu ríkur til að kaupa RUV eða 365. Ekki vill Donald Trump heldur sýna skattframtal sitt þó hann gumi mjög af ríkidæmi sínu.

Mikið er óskapast útaf því að Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson fái sér að borða á dýrum veitingahúsum og fljúgi um á þyrlum. Auðvitað viðurkenni ég að dómarnir yfir þeim hafi verið réttlátir og sanngjarnir, en samt hljóta þeir að eiga sinn rétt. Úr því það þjóðskipulag ríkir hér að menn geta verið mismundandi auðugir og mega stofna allskyns félög og klíkur (innan ramma laganna þó) finnst mér ekki hægt að krefjast þess að þeir sem misboðið hafa siðferðisskilningi margra (en þó ekki allra) eigi minni rétt en aðrir. Ekki truflar það mig neitt sérstaklega þó þessir menn flaggi ríkidæmi sínu. Ef þeir gerðu það ekki yrðu sennilega bara einhverjir aðrir til þess. Öfund er af hinu illa.

Það getur vel verið að Panamaskjölin og hasarinn í kringum þau hafi haft talsverð áhrif á stjórnmálin. Þó á ég von á að næstu kosningar leiði það í ljós að flokkavaldið dvíni afar hægt. Stökkbreytingar á því eiga sér varla stað. Þó hygg ég að almenningur (það óljósa hugtak) hafi siðvæðst að undanförnu og meðvirkni hverskonar með spillingu allri hafi talsvert minnkað.

Ný stjórnarskrá held ég að verði ekki að veruleika á næstunni. Ef Píratar ætla að gera það að úrslitaatriði varðandi nýja stjórnarskrá að valdið til að hafna henni eða samþykkja verði tekið af alþingi með illu, held ég að fylgi þeirra verði fljótt að minnka. Hinsvegar er það fásinna að ætla sér að ætíð náist fullkomin samstaða á alþingi um allar stjórnarskrárbreytingar.

IMG 1556Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband