2472 - Um þyrlur og drauma

Auðvitað er það svo að við sem öldruð erum, erum orðið svo vön því að lífið sé eins og það er að okkur finnst allt mögulegt vera eðlilegt. Samt eru kjör okkar ekkert eðlileg. Ríkið tekur til sín meginhluta þess sem við höfum verið skikkuð til að nurla saman á langri ævi. Þegar ég var í skóla skömmu eftir seinni heimsstyrjöld var reynt að koma því inn hjá okkur að græddur væri geymdur eyrir. Vitanlega var það alls ekki svo. Verðbólgan sem í þann tíma var kölluð dýrtíð grasseraði eins og venjulega og þó atvinna væri næg græddu þeir mest sem ófyrirleitnastir voru.

Tortólaeignir voru þó engar á þeim tíma en þeir sem ríkastir voru fóru með Gullfossi til Evrópu einu sinni eða tvisvar á ári eða flugu með Flugfélagi Íslands eða Loftleiðum ef þeir þorðu. Ríkidæmi þeirra var samt alls ekki eins yfirþyrmandi og útrásarvíkinganna seinna meir. Launamunur var ekki mjög mikill. Kvennakaup var þó við lýði.

Margir halda þrátt fyrir allt trúnaði við gróðapungana og kjósa þá villivekk. Annars vegar vegna þess að þeir halda að þeir (pungarnir) kunni með peninga að fara. Hin ástæðan er sú að þeir halda að þeir sjálfir séu a.m.k. ríkari en sumir aðrir og þessvegna geri þeir rétt í að styðja ríka fólkið.

Hugsanlegt er að Sigurður forsætis snúist í kosningamálinu mikla, úr því að andlegur leiðtogi hans er á annarri skoðun. Erfitt getur samt reynst að bakka útúr þessu með kosningarnar. Held samt að það verði reynt. Bjarni Ben. mundi eflaust feginn vilja losna undan þessari kvöð núna. En ekkert liggur á. Kannski er hægt að fresta ákvörðun um þetta þó stjórnarandstaðan láti illa. Ákvörðun verður ekki tekin fyrr en í síðustu lög.

Einhverntíma var sýndur framhaldsþáttur í sjónvarpi sem hét á ensku „Sex in the City“. Þarna er greinilega um stuðlun að ræða og sá sem þýddi þetta (sem hugsanlega var ekki sá sami og þýddi þættina) vildi greinilega viðhalda stuðluninni og kallaði þættina „Beðmál í borginni“ og ég man að einhver varð til þess að hrósa þessari þýðingu. Hún er satt að segja ekkert afleit, þó orðið beðmál sé fáum tamt og þýði hreint ekki það sama og sex. Battlað í borginni er ný þáttaröð í sjónvarpi og nafnið greinilega samið undir áhrifum beðmálanna. Battle er vel þekkt í ensku og í götumáli getur það haft ýmsar merkingar. Ég hef ekki séð þessa þætti, en held endilega að sú merking sem þarna er átt við sé komin úr götudansi. (e - Street dance) Annars hef ég ekkert sérstakt á móti slettum af þessu tagi og vel getur þetta orðið íslenska með tímanum.

Nútíminn er gamaldags. Hvenær hættir það frumlega að fara í hringi? Er nokkur ástæða til þess að gamalmenni drepist í hrönnum? Er til orð yfir paradoxa á íslensku? Er ekki alltaf hægt að setja fram allskonar svona vitleysu? Um hvað snýst lífið? Peninga og völd eða kannski eitthvað annað? En hvað er þetta eitthvað annað? Er það kannski hamingja og lífsfylling? Er þá Tortóla bara eftirsókn eftir vindi? Einu sinni dreymdi mig að ég ætti þyrlu. Pantaði hana bara eftir einhverjum verðlista. Kunni samt lítið í flugmennsku. Er ekki ágætt að eiga þyrlu, jafnvel þó það sé í draumi?

IMG 1634Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir góðan pistil, að vanda, Sæmundur. Þú ert orðinn minn uppáhaldsfjölmiðill.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.5.2016 kl. 21:08

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Þorsteinn.

Sæmundur Bjarnason, 26.5.2016 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband