2470 - Hneykslismál, kartöflur o.fl.

Já já. Ég blogga alveg óheyrilega mikið. Eitt er það samt sem ég hef alls ekki getað ráðið í (þó ég vilji nú ráða sem flestu). Moggabloggsguðirnir setja stundum mynd af mér með tilkynningu um bloggið mitt og stundum myndina sem ég set með blogginu. Mér hefur alls ekki tekist að ráða í hvað það er sem stjórnar þessu. Kannski er næstum daglega verið að fikta eitthvað í kóðanum sem stjórnar útliti Moggablogganna.

Held að það sé rangt hjá mönnum sem lenda í hneykslismálum að þegja þunnu hljóði. Það reyndi Sigmundur Davíð og ekki fór það vel. Sömu aðferð ætlaði Ólafur Ragnar að nota þegar deilt var á konuna hans. Nú virðist sem Júlíus Vífill Ingvarsson ætli að nota þessa sömu aðferð. Auðvitað er erfitt að standa í þessu ef afsakanir eru engar. Svo virðist sem Júlíus Vífill eigi þær fáar.

Ég hef eiginlega engu við það bæta sem ég hef áður skrifað um forsetakosningarnar hérna. Held að Guðni sigri, Davíð verði annar og Andri Snær þriðji. Auðvitað eru það fjölmiðlarnir sem hafa búið þessa frambjóðendur til. Við því er ekkert að gera. Eitt af því sem allir þurfa að kunna sem í framboð fara, er að láta fjölmiðlana éta úr lófa sínum. Sjónvarpið er áhrifamest og útvarpið svo. T.d. getur enginn orðið frægur á Íslandi nema fyrir tilstuðlan RUV. Jafnvel Stöð 2, svo ég tali nú ekki um Útvarp Sögu, verða bara að sætta sig við það.

Mest virðast þeir skrifa um forsetakosningarnar sem styðja ákveðna frambjóðendur. Mér er engin launung á því að ég styð einkum Guðna. Þó þessar kosningar verði eflaust talsvert spennandi að því leyti að litlu má gera ráð fyrir að muni í atkvæðafjölda hjá þeim efstu þá er því ekki að leyna að þetta eru afskaplega þýðingarlitlar kosningar. Þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi um útgönguna úr ESB sem verður víst um svipað leyti og forsetakosningarnar hér er til dæmis miklu þýðingarmeiri. Og gera má ráð fyrir að úrslitin þar verði mun afdrifaríkari. Spái því reyndar að Bretar verði um kyrrt í ESB. Sú fyrirlitning sem almenningur víða um lönd hefur á aflandseyjastarfsemi hvers konar kann samt sem áður að verða mun afdrifaríkari fyrir Breska fjármálakerfið en úrslitin í ESB-kosningunum. Einkum vegna þess að hlutverki London í peningamálum heimsins er um það bil að ljúka.

Á margan hátt hefur íslensk tunga breyst eftir hrun. Nú þýðir t.d. útrásarvíkingur nánast það sama og þjófur. Aflandsreikningur þýðir skattsvik eða tilraun til slíkra afbrota. Góða fólkið þýðir vinstri sinnað pakk. Hælisleitandi þýðir leynilegur afbrotamaður. Múslimi þýðir maður með sprengjubelti o.s.frv.. Auðvitað er ekki sama hverjir nota sum þessara orða og vara verður sig merkingu margra þeirra. Hún getur verið mismunandi eftir því hvaða hópar sjá þau og hverjir nota þau.

Ásamt með Hafdísi og Jóa erum við hjónakornin búin að taka á leigu 50 fermetra af ræktarlandi sem Akraneskaupstaður úthlutar kartöflusjúku fólki hér á Skaganum og nú um stundir erum við einkum að bollaleggja um aðrar tegundir en kartöflur til ræktunar.

Guðni forsetaframbjóðandi verður víst hérna á Akranesi á morgun (í dag 21. maí) og kannski maður komi við þar á leiðinni út í vita. En þar verður víst opnuð málverkasýning á svipuðum tíma.

IMG 1831Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband