2468 - Er líf eftir forsetakosningarnar?

Er líf eftir forsetakosningarnar? Kannski er bara hægt að fara að undirbúa sig undir þingkosningar næsta haust og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum strax og búið er að ljúka því af að kjósa forseta hér. Satt að segja álít ég að mjótt verði á mununum á milli þeirra þriggja efstu. Eflaust verða það þeir sem hæst ber núna en hætt er við að bilið milli þeirra mjókki stöðugt. Held að það verði Guðni Th., Davíð og Andri Snær sem berjist um sigurinn. Í annarri deild komi síðan Sturla og Halla en aðrir komist varla á blað, nema þá helst Ástþór sem er eiginlega bara í þessu af gömlum vana.

Sumarþingið sem hér á að halda í ágúst og september skilst mér, getur orðið skrítið og afkastalítið í meira lagi. Allt mun það snúast um væntanlegar kosningar og engin leið er að giska á upp á hverju þingmennirnir kunna að taka. Stjónarskrármál munu venju fremur flækjast fyrir þingmönnum og kjósendur að mestu leyti hætta að skilja þá. Hætt er við að múslimahræðsla og þjóðrembingur grasseri sem aldrei fyrr og óvandaðir pólitíkusar notfæri sér það eftir mætti.

Um margt eru þeir Donald Trump og Davíð Oddsson líkir. Báðir kalla þeir á öfgakennd viðbrögð, eru kjaftaskar miklir, þjóðernissinnaðir, lifa og hrærast í fjömiðlum. Þeir sjálfir eða a.m.k. stuðningsmenn þeirra eru mikilvirkir á samfélagsmiðlum og svifast einskis fremur en andstæðingar þeirra. Báðir sækja þeir einkum stuðning sinn til þeirra sem lítt eru menntaðir og vinna fyrir sér með höndunum. Davíð er frægur hér á landi fyrir að hafa verið borgarstjóri, forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Í öllum þessum embættum hefur hann látið mikið fyrir sér fara. Donald Trump er þekktur í Bandaríkjunum fyrir að hafa fyrr gælt við framboð til forseta, verið í aðalhlutverki í vinsælum raunveruleikaþætti í sjónvarpi, og auk þess fyrir sjálfshól og ríkidæmi. Um fyrirferðina geta Bandaríkjamenn sjálfir betur dæmt en ég.    

Ástæðan fyrir því að Sigmundur brenndi út að Bessastöðum á sínum tíma gæti ég trúað að hafi verið sú að hann hafi talið sig einan hafa þingrofsvaldið. Kannski hafa Bjarni og hann ekkert rætt það sín á milli hver hefði það. Hingað til held ég að samið hafi verið um það í samsteypustjórnum hvar þingrofsvaldið væri. Áður en ÓRG kom til sögunnar hafa áreiðanlega fáir gert ráð fyrir að forsetinn færi að skipta sér af slíku. Í aðstæðum eins og þeim sem upp komu í kjölfar Panamaskjalanna er augljóst að þetta atriði skipti máli. Sigmundur hefur jafnvel verið búinn að ákveða hvenær kosningar ættu að fara fram. Kosningadagsetningin virðist standa eitthvað í Bjarna og Co.

Mínar pólitísku spekúlasjónir er að gera mig gráhærðan. Jafnvel búnar að því. Sennilega mega þessir örfáu lesendur mínir fara að vara sig. Kannski þarf ég að létta á mér daglega. Eða oft á dag. Ekki má ég láta ritræpuna úr mér verða svo mikla að allir gefist upp á því að lesa bloggin mín.

WP 20150621 09 33 42 ProEinhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband