2453 - Forsetakosningar o.fl.

Margt bendir til að Guðni Th. sé sá sem helst getur velgt ÓRG undir uggum í komandi forsetakosningum. Hver veit nema þær verði spennandi? Ef Guðni gefur kost á sér sýnist mér að svo geti vel orðið. Auðvitað kaus ég Ólaf 1996 (og Vigdísi þar áður.) Svo kaus ég Þóru árið 2012 einkum vegna þess að mér þótti ÓRG vera búinn að vera nógu lengi. Ekki hefur það álit breyst og ég sé ekki betur en Guðni Th. sé vel frambærilegur í embættið. Vissulega hefur Ólafur talsvert forskot en þessi þaulseta hans getur líka orðið honum fjötur um fót. Að aðrir frambjóðendur en Ólafur séu svo margir þarf ekki að draga úr áhuga Guðna á embættinu, því vel getur farið svo að þeir frambjóðendur fái allir mjög fá atkvæði.

Að einhverjir aðrir en Guðni séu að hugsa um að fara fram er heldur ólíklegt. Einkum eftir blaðamannafundinn sem Ólafur hélt. Kannski voru bæði Össur Skarphéðinsson og Davíð Oddsson á þeim buxunum en ég hygg að þeir séu hættir við núna. Annars er tímasetning allt í þessu sambandi og ef Guðni lýsir yfir framboði fljótlega er varla von á öðrum. Ef Guðni hættir hins vegar við gæti stjórnmálalegur frami samt blasað við honum.

Er litmus-testið aðallega það núna hvort menn eru nefndir í Panamaskjölunum eða ekki? Kannski dugar að vera giftur einum slíkum. Þingmenn og stjórnmálamenn virtust fremur fáir eiga Tortóla-eignir og búið er að taka flesta þeirra í gegn, svo nú er best að snúa sér að öðrum. Aðeins úrvals fjölmiðlar fá víst aðgang að þessum Panamaskjölum hvernig sem ritstjóri DV hamast og lætur. Eftir því sem einhverjir segja er Jón Ásgeir og eiginkona hans títtnefnd í þessum skjölum. Eigum við ekki bara að bíða og sjá hvað kemur útúr þessu öllu? En fjölmiðlarnir vilja auðvitað smjatta sem mest á því. Ekki það að ég sé einhver sérstakur aðdáandi Jóns Ásgeirs. Hann, ásamt skylduliði sínu öllu, virðist samt hafa sloppið í sloppinn rétt fyrir hrun. Og rík eru þau. Hvaðan er það ríkidæmi komið? Af hverju skyldi það vera sem allir taka fram að skattar hafi verið borgaðir af peningum í Tortólum heimsins? Hugsa þeir ekki um neitt nema skatta? Er sjálfsagt að fara með alla peninga einhvern andskotann og segja svo að skattar hafi verið borgaðir af þeim?

Eitt er það sem ég hef aldrei gert en Moggabloggið býður samt uppá. Það er að flokka bloggin mín. Enda held ég að það sé erfitt. Ég er nefnilega með þeim ósköpum gerður að skrifa um allan fjárann í bloggunum mínum. Að vísu er ég frekar örlátur á greinaskilin og vel væri hægt að hugsa sér flokkun sem byggðist á málsgreinunum. Þá er þetta líka farið að verða talsvert mikið verk (a.m.k. svona eftir á) og mitt helsta lífsmottó er letin. Því ég nenni þessu barasta allsekki.

Ósköp er þetta fréttatengt allt saman hjá mér. Það vil ég einmitt helst ekki. Vil endilega að bloggin mín séu sem fjölbreyttust. Sumt sé fréttatengt og annað ekki. Verst hvað þetta er alltsaman fyrirsjáanlegt og sjálfsagt. Þegar ég slysast til að láta frá mér fara einhverjar skoðanir eru þær oftast svo sjálfsagðar og margþvældar að lítið sem ekkert gagn er að þeim. Þetta finnst mér allavega, en kannski ekki Jóni Vali Jenssyni.

WP 20160410 12 19 21 ProTrampolín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband