2415 - Forkosningar í Bandaríkjunum

Í mjög vaxandi mæli er ég farinn að merkja tilkynningar á fésbókinni sem lesnar, þó ég lesi þær alls ekki. Einfaldlega er það vegna þess að þeir sem ég hef ákveðið að fylgjast með eru sífellt að „séra“ allan fjárann, sem ég hef lítinn eða engan áhuga á. Mjög fáir læka það sem ég skrifa þar eða auglýsi. Á ég þó svo marga fésbókarvini að ég kemst aldrei yfir að skoða allt sem þeir deila eða skrifa.

Annars fer því fjarri að fésbókarskriflið sé upphaf og endir alls þó sumir virðist álíta það.

Á þann hluta fésbókarinnar sem ég sé er afskaplega lítið skrifað um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Sumir standa í þeirri meiningu að íslensku forsetakosningarnar skipti einhverju máli. Svo er ekki. A.m.k. ekki í heimssögulegu samhengi þó vel sé hægt að hugsa sér að úrslit þeirra hafa einhver áhrif á þróun mála hér á landi.

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram í nóvember næsta haust. Fyrsta þriðjudag eftir fyrsta mánudag í þeim mánuði. Á morgun (mánudaginn 1. febrúar nk.) fara samt fram fyrstu forkosningarnar fyrir þær kosningar. Þó RUV hafi tekist að láta líta svo út sem demókratar komi þar ekkert við sögu er allsekki svo. Forkosningarnar í Iowa á morgun eru bæði á vegum repúblikana og demókrata. Og munið að repúblikanar eru almennt mun íhaldssamari en demókratar. Og þó Bandaríkjamenn séu í ýmsu aðdáunarverðir eru þeir almennt íhaldssamari en Evrópubúar í stjórnmálum.

Á repúblikanahliðina er einkum búist við að annaðhvort Ted Cruz eða Donald Trump vinni sigur. Báðir eru þeir últrahægrisinnaðir og stjórnvöld og stjórn repúblikanaflokksins er þeim nokkuð andsnúin. Gott ef það er ekki hagstæðara þeim eins og almenningsálitinu er háttað.

Hjá demókrötum eru það hinsvegar einkum Hillary Clinton og Bernie Sanders sem berjast um sigurinn. Clinton sem fyrrverandi utanríkisráðherra og að mörgu leyti fulltrúi valdastéttarinnar í Bandaríkjunum, en Sanders er hinsvegar dálítið til vinstri við hana. Kallar sig sósíalista en efast má um það. Er samt á móti ríkjandi valdastétt. Hugsanlegt er að úrslitin í Iowa skipti máli varðandi almenningsálit, en flokksþingin sem útnefna frambjóðendur stóru flokkanna verða haldin í júní næstkomandi.

Ef Trump og Sanders verða frambjóðendur stóru flokkanna má hiklaust búast við að Trump sigri. Slíkt gæti orðið afdrifaríkt fyrir heimsmálin. Bandaríkin gætu einangrast og viðsjár allar og stríðsátök í heiminum aukist mjög. Þessvegna er það sem ég óska þess fremur að frú Clinton vinni sigur á flokksþingi demókrata í júní n.k.

Horfði áðan á úrslitaleikinn á Evrópumótinu í handbolta og á margan hátt er sigur Þjóðverja þar okkur Íslendingum hagstæður. Ekki bara vegna Dags Sigurðssonar heldur hafa Þýsk stjórnvöld ævinlega metið okkur Íslendinga meir en við eigum skilið. Þó Íslendingar hafi unnið Norðmenn á þessu móti er það ekki nóg. Tapið fyrir Hvít-Rússum (Belarus) er ófyrirgefanlegt.

WP 20160129 10 30 51 ProLangisandur.  (munið að smella á myndina ef þið viljið fá hana skýrari)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Góður! Ég er sammála með handboltann,að sjá þá gegn ,Belarus,ég beið eftir að þeir liðu út af,annað var ekki séð,en þakka þó fyrir að það gekk ekki eftir.

Helga Kristjánsdóttir, 1.2.2016 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband