47. blogg

Auðvitað er ríkisstjórnarmyndun mál málanna hjá flestum þessa dagana,  en ég nenni ekki að skrifa mikið um það, þó ýmislegt megi um það segja. Vitaskuld er langlíklegast að fyrrverandi stjórn reyni að lafa eitthvað áfram og þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem gefið hafa annað í skyn að undanförnu hafa sjálfsagt verið skammaðir og brýnt fyrir þeim að nú gildi liðsheildin og að rugga ekki bátnum að óþörfu.

 

Ég varð snemma nokkuð bókhneigður. Áður en ég átti að fara í skóla var ákveðið af foreldrum mínum að ég þyrfti að læra að lesa. Var ég því sendur í tíma til Sveinu í Grasgarðinum. Þar lærði ég síðan að lesa og man ég ekki betur en það hafi gengið sæmilega.

Þegar ég var orðinn læs ákvað pabbi að tími væri til kominn að gefa mér bók og ég man vel hvaða bók það var. Hún hét Gusi grísakóngur og fjallaði um frægar Disney-persónur og þar á meðal var sá skúrkur sem í Andrésar andarblöðunum sem ég komst seinna upp á lag með að lesa á dönsku var kallaður Store stygge ulv. Frásögnin í bókinni fjallaði um tilraunir hans til að blása hús grísanna um koll og býst ég við að margir kannist við þá sögu.

Þegar kom í fyrsta bekk í skóla var ég semsagt orðinn læs og þessvegna fljótlega sendur í næsta bekk fyrir ofan ásamt nokkrum öðrum sem svipað var ástatt um.

Ég man ekki mikið eftir fyrstu bókunum sem ég las, en meðal þeirra var efalaust bókin um Dísu ljósálf og líklega einnig bókin um Alfinn álfakóng. Mér þóttu þessar bækur þó fremur barnalegar og miklu meira koma til bókarinnar um Ívar hlújárn eftir Walter Scott. Allar þessar bækur las ég mörgum sinnum og þær áttu það sameiginlegt að mynd var á efri hluta hverrar blaðsíðu. Söguþráður bókarinnar um Ívar hlújárn er mér enn minnisstæður.

Ég man líka vel eftir því að einhvern tíma á þessum árum var ég í heimsókn hjá Sigga í Fagrahvammi og sá þar nokkrar bækur í bókahillu sem hann átti og þar á meðal einhverja bók sem ég hafði áhuga á. Spurði því Sigga hvernig þessi bók væri. Svar hans er greypt í huga mér: „Það veit ég ekki, ég hef ekki lesið hana."

Þetta fannst mér svo ótrúlegt að engu tali tók. Að einhver maður gæti átt bók án þess að hafa lesið hana var hugsun sem aldrei hafði hvarflað að mér. Á mínu heimili voru allar bækur marglesnar og lesnar aftur og aftur meðan þær voru í heilu lagi.

Þarna hefur ef til vill opnast fyrir mér munurinn milli fátækra og ríkra. Þetta hafði samt engin áhrif á vinskap okkar Sigga hvorki fyrr né síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband