2359 - Fyrrverandi starfsmenn

Nú er ég búinn að vera tölvulaus í u.þ.b. viku og búinn að fá nýja tölvu og Windows 10. Ekki er þó að fullu komið netsamband ennþá, en væntanlega stendur það til bóta. Afar lítið hef ég séð af fésbók og þessháttar dóti þá daga sem ég hef tölvulaus verið. Varla hef ég þó misst af miklu því ég sakna einskis. Gúrkan er svo sannarlega mikil þessa dagana. Eitthvað hefur þó verið minnst á flóttamenn að mér skilst, en það er ekki mitt aðaláhugamál svo varla er það merkilegt.

Stundum líður langur tími á milli þess að ég bloggi. Stundum er skammt á milli. Ekki veit ég hversvegna, ég er bara svona gerður. Stundum er ég í stuði til þess að blogga og stundum ekki. Yfileitt er best að þegja um fréttatengd efni. Nóg er samt til. Blaða og fréttamenn fjalla oftast nær eingöngu um málin frá sínu sjónarmiði. Í mesta lagi að sjónarmið fréttastjórans komist að. Stundum reyndar ritstjórans einnig og þó oftast óbeint í gengnum sjálfsritskoðun. Oft skiptir meira máli hvaða fréttir eru sagðar heldur en hvernig það er gert. Þögnin og þöggunin eru mikilvirkustu tækin til skoðanamyndunar. Sú breyting sem orðin er og er að verða á miðlun frétta með samfélagsmiðlunum er gagntækari en marga grunar. Síminn ásamt útvarpi og sjónvarpi hefur ekki reynst vera sá brimbrjótur sem margir ætluðu. E.t.v. er Internetið það samt.

Hef verið að velta því fyrir mér að uppá síðkastið hvernig verslair fari að því að auglýsa á mjög áberandi hátt að þær veiti 75 prósenta afslátt. Hver hefur álagningarprósentan upphaflega verið ef það er hægt? Varla undir 200 %. Annars nenni ég ekki að fjölyrða um þetta, en það eru verslanir að mínu skapi sem aldrei veita neinn afslátt. Held að þær séu til.

Undanfarið hef ég átt í svolitlum vandræðum með að ná viðmiðunarhraða í gönguferðum morgnanna. Svo hef ég gleymt að vigta mig (Alveg satt.) Held samt að þó ég sé vitlausu megin við 105 kílóin, sé ég enn innan við 106 kg.

Ansi eru þeir hættlegir þessir fyrrum starfsmenn í Bandaríkjunum Drepa bara mann og annan. Og svo sjálfa sig í lokin. Sem betur fer eru íslenskir fyrrum starfsmenn flestir óvopnaðir. Annars værum við líklega í vondum málum. Landar okkar eiga það nefnilega til að reiðast heiftarlega. Bandaríkjamenn hafa engan einkarétt á því.

Í bókinni „Atomic Times“, sem ég las nýlega var frá því sagt að til þess að lokka hermenn til að verða mannleg tilraunadýr var meðal annars beitt því ráði að segja mönnum að á bak við hvert einsta tré á Kyrrahafseyjunum sem þeim var sagt að velja (tilraunastöðvunum) væri hjólgröð stelpa sem biði eftir þeim. Vitanlega var búið að fella hvert einasta tré á þessum stöðum, en vesalings hermennirnir vissu það ekki.

WP 20150727 23 16 48 ProKvöldroði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband