2348 - Skáld eða ekki skáld

Getur verið að kleinuhringir geti að einhverju leyti komið í staðinn fyrir kísilflögur. Varla getur verið að menn séu að fjölyrða um kleinuhringjaverksmiðjur bara að gamni sínu. Dettur þetta í hug því það var svolítið skrítið hvernig kísilflögurnar komust á koppinn hjá fjölmiðlum landsins. Um kleinuhringina veit ég ekkert og hef engan áhuga á þeim. Hélt satt að segja að kleinuhringjaverksmiðjur væru til í öllum bæjarfélögum á landinu. Að vísu var Gunni víst aldrei með marga menn í vinnu í gamla daga en átti að ég held einhverja vél sem setti súkkulaðihúð á kleinuhringi og steikti þá jafnvel líka.

Sko, ég er búinn að komast að því að það er engin von til þess að ég komist nokkurntíma yfir að gera allt sem ég ætti að gera og þyrfti að gera. Þessvegna er það einna skást að gera ekki neitt. Tvennt er það þó sem ég geri alveg óbeðinn. Það eru morgungöngurnar og lesturinn í Kyndlinum. Af hverju ætli ég lesi svona mikið í Kyndlinum mínum? Ekki eru þær svo merkilegar þessar ókeypis bækur sem ég fæ þar. Auðvitað eru þær mismunandi enda næstum 65 þúsund talsins. Það er eiginlega mest gaman að skoða bókaúrvalið hjá Amazon eftir ýmsum skilyrðum. Svo get ég líka fengið að blaða svolítið í öllum þeim milljónum bóka sem þar eru til sölu. Kannski ég fari annars við tækifæri og skoði aðeins bókasafnið hérna á Akranesi.

Ég er alveg hissa á því hvað fólk endist til að skoða mikið þessa blessaða fésbók. Annars hef ég ekki úr háum söðli að detta því vafalaust eiga einhverjir erfitt með að skilja hvernig ég endist til að blogga þetta sí og æ.Sennilega hef ég bara svona mikla þörf fyrir að láta ljós mitt skína. Fyrir einhverja tilviljun er ég nokkuð góður í stafsetningu og þessvegna er það líklega sem ég hef svona mikla skrifþörf. Þess utan lærði ég hjá þeim Gunnari Grímssyni og Hildigunni vélritunarkennara fingrasetningu á ritvélar í fyrndinni. Það var semsagt á Bifrastarárum mínum.

Alvöruskáld skrifa lítið. Þeir sem þykjast og vilja vera skáld skrifa aftur á móti mikið. Ekki veit ég af hverju þetta er svona. Ég er haldinn svolitlum skáldagrillum og skrifa þessvegna frekar mikið. Hef a.m.k. gert það hingað til. Kannski ég hætti því og þykist vera alvöruskáld. En því miður eru ekki allir sem skrifa lítið alvöruskáld. Enda væri þá ekki þverfótað fyrir þeim. Kannski er bara best að halda áfram að skrifa frekar mikið.

Í morgun náði ég 5 kílómetra hraða. Þ.e.a.s. ég náði að fara nákvæmlega 5,02 km (eftir því sem appið sagði) á einni klukkustund. Svo var ég ekki nema 104,9 kg að þyngd (eftir því sem vigtin sagði.) Skelfing er eitthvað vandlifað án þess að hafa öll þessi tæki í kringum sig!!

WP 20150624 20 21 48 ProJá, það er hægt að ganga á þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband