2313 - Vitlaus Óli

Eftir því sem dóttir Kristjáns á Miðhrauni og eiginkona Ólafs Ólafssonar segir er það vitlaus Óli sem dæmdur var til fangelsisvistar af hæstarétti í Al Thani-málinu svokallaða. (Sá Ólafur Ólafsson sem nú situr ((að því er mér skilst)) á Kvíabryggju er sonur Ólafs þess Sverrissonar sem eitt sinn var kaupfélagsstjóri í Borgarnesi.) Sé þetta rétt, er um eitt allsherjarklúður að ræða. Ég trúi því ekki að allir sem komið hafa að þessu stóra máli séu þeir vitleysingar að hafa ekki kannað slíka grundvallarspurningu til hlítar. Það vill svo til að ég var eitt sinn undirmaður Ólafs þessa Sverrissonar og átti meira að segja heima á Snæfellsnesi og kannast því lítilsháttar við suma aðalleikendur í þessu mikla drama.

Einhver vissi það ekki að Sverrir Ólafsson, sem var meðdómandi í einu hrunmálinu væri bróðir Ólafs Ólafssonar svo kannski er þetta ekki alveg útilokað. Ættfræðin getur greinilega stundum komið að haldi.

Á fésbókinni eru menn misörlátir á lækin sín. Að sumu leyti er það til þess fallið að verðfella þau. Svolítið öðru máli finnst mér gegna um deilingarnar. Þær taka upp pláss og ef einhver villist inná tímalínuna gefur það e.t.v. ranga mynd af hugsanagangi eigandans. Sjálfur reyni ég að vera eins spar á hvorttveggja og mér er unnt. Auðvitað er það samt svo að varasamt er að dæma menn eftir lækum og séringum. Jafnvel skrif á vegginn er ekki alltaf að marka. Þar er það augnablikið sem ræður. Í blogginu er oft rýmri tími til umhugsunar.

Gerði smávísu áðan og setti hana á Boðnarmjöðinn á fésbók. Hann er vel til þess fallinn að setja allskyns vísur þangað. Þessi vísa er svona:

Ömulegir Ólar tveir
eru á sumra valdi.
Eiginlega allir þeir
ættu að vera í haldi.

Mér finnst það frekar kostur á vísum en ókostur ef hægt er að skilja þær á ýmsan veg. Þessi finnst mér vera þannig. Kannski er það tómur misskilningur.

Sá rétt áðan risafyrisögn í DV.IS og hún var á þessa leið: Manuela Ósk opnar sig: Grétar Rafn sleit sambandinu með tölvupósti. Ég verð að játa að ég er eiginlega engu nær. Nenni samt ekki að lesa þessa stríðsfrétt, sem mér skilst af einhverjum ástæðum að sé í rauninni eldgömul. Fyrir ævalöngu var sýnd í einu af kvikmyndahúsum bæjarins mynd sem á íslensku var kölluð: Ungfrúin opnar sig. Hún var svolítið djörf eins og kallað var á þeim tíma. Datt sú mynd fyrst í hug þegar ég sá þessi ósköp, en sennilega er þetta ekkert líkt.

WP 20150320 10 26 48 ProNauthóll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband