2312 - Píratar og ýmislegt fleira

Mér líkar við (elska segja krakkarnir) afdankaða og sannfærða íhaldskurfa (og kurfur – eða hvað) sem væru til í að styðja Sveinu í múslimahræðslu sinni, en hafa bara lofað (bæði sjálfum sér og öðrum) að lána hinum algjörlega ópólitíska Sjálfstæðisflokki atkvæði sitt í næstu kosningum. Hin pólitíska rétthugsun (og ESB-aðdáun) sem einkennir vinstra liðið hugnast mér heldur ekki. Þessvegna er ég svolítið einangraður (vonandi þó án þess að vera öfgafullur) í stjórnmálaskoðunum mínum.

Þetta er ekki nýtilkomið. Í síðustu kosningum lenti ég í þessu sama og endirinn varð sá að ég kaus Píratana. Það var semsagt ekki vegna þess að ég sæi fyrir núverandi „himinskautasiglingu“ þeirra, sem ég gerði það. Ekki var ég heldur svo gjörkunnugur stefnumálum þeirra eða áherslum. Þekki þau svolítið betur núna.

Af því menn vilja helst ekki vera kallaðir hægri- eða vinstri-sinnar eru margir sem afneita þeim hugtökum. Mér finnst þetta samt hafa dálitla merkingu ennþá. Og að ég sé talsvert vinstri sinnaður. Of mikil ríkisafskipti eru samt eitur í mínum beinum.

Get illa án þess verið að fjölyrða um fésbókina. Get þó ekki án hennar verið frekar en aðrir á mínum aldri. Einu sinni var mér sagt að ég gæti átölulaust (frá viðkomandi) ákveðið hvort ég fengi tilkynningar um innlegg á vegginn eða ekki. Les aldrei fésbókarleiðbeiningar.

Fésbókarvinir mínir eru nærri 600 að ég held. Ég safnaði nefnilega slíkum í eina tíð en man ekki lengur hvernig ég fór að því. Gæti samt eflaust rifjað það upp ef í hart færi.

Meðal fésbókarvina minna eru a.m.k. tveir Sigurðar. Sigurður Þór Guðjónsson rithöfundur. (Frægastur er hann sennilega fyrir bókina Truntusól – sem hann skrifaði fyrir margt löngu.) Hinn Sigurðurinn heitir Sigurður Hreiðar og er fyrrverandi ritstjóri Vikunnar. Báðir þessir Sigurðar eru mikið gefnir fyrir það (eins og ég) að láta ljós sitt skína og ég merkti við að fá ætíð tilkynningar þegar þeir gera það á fésbókinni.

Um þetta gerði ég vísu rétt áðan og vegna þess að ég held að blammeringar séu í lagi ef þær eru í bundnu máli læt ég hana flakka hér:

Sitja á lista Siggar tveir,
sem að skrifa mikið.
Óviljandi eru þeir
alveg hreint við strikið.

Þetta strik er nú bara hjá mér og er til komið af því að ég vil hafa hæfilega margar tilkynningar hjá mér þegar ég fer á fésbókina. Auðvitað gerist það oft á dag þó eg reyni að vera spar á hana.

Nú er allt að verða hvítt hér í Kópavoginum einn ganginn til. Þetta blessaða vor kemur og fer oft á dag sýnist mér. Veðurfræðingur er ég samt ekki heldur. (Frekar en fésbókarfræðingur meina ég.) Eflaust skemmta þeir sér samt núna.

Á sama hátt og einu sinni var sagt: (Andrés Björnsson)

Ferskeytlan er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.

Mætti líklega í dag setja „Fésbókin“ í staðinn fyrir „Ferskeytlan“ án þess að merkingin breyttist mikið. Í dag kunna nefnilega fáir skil á ferskeytlum, en enginn er maður með mönnum nema hann kunni sem mest fyrir sér í „fésbókarfræðum“. Reyndar skilst mér að fésbókin sé um það bil að verða úrelt. Ég er samt ekki kominn lengra en það að ég er fastur í blogginu. Twitter, Snapchat og hvað þetta heitir alltsaman er mér algjörlega framandi.

WP 20150315 11 00 02 ProEftir rokið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband