2301 - ESB

Ef ríkisstjórnin ætlar í raun og veru að ganga framhjá alþingi í ESB-málinu er hún skyni skroppnari en gera mátti ráð fyrir. Með því að gera það, er ESB-veldinu í sjálfsvald sett hvort það líti svo á að stjórnin sé marktæk. Annað hvort er hér þingbundin stjórn eða ekki. Að ríkisstjórnin stjórni bara með tilskipunum er ekki í boði. Ekki hér á Íslandi á tuttugustu og fyrstu öldinni. Getur ríkisstjórnin ógilt ákvörðum alþingis? Er þá ekki næst að afturkalla lýðveldisstofnunina og færa okkur aftur undir Dani? Er ríkisstjórnin kannski á móti því?

Sé ekki betur en ráðherrarnir sem opnað hafa á sér þverrifuna að undanförnu keppist um að gera allt sem snertir ESB-umsóknina sem flóknast og illskiljanlegast. Einna verst er að þeir skilja málið alls ekki sjálfir. Kannski er það ekki von því fræðimenn virðast eiga í vandræðum með það líka. Síðasta ríkisstjórn gerði sömuleiðis sitt til að flækja þetta alltsaman. Nú er svo komið að tiltölulega einfalt mál er orðið rammflókið. Þessu eru stjórnmálamenn góðir í.

Stjórnmál gærdagsins eru gengin sér til húðar. Stjórnmálaflokkarnir hafa reynt að skipta um nöfn (nema Sjálfstæðisflokkurinn – sem þó er ósjálfstæðastur allra) en það virðist hafa lítil áhrif. Enda er ekki við því að búast að umbúðir, skammstafanir og nöfn breyti miklu. Fólk vill þjóðaratkvæðagreiðslur um hin ólíklegustu mál. Jafnvel um aðildina að ESB, sem auðvitað er smámál eins og formaður utaríkismálanefndar alþingis heldur fram.

Ef lítið snjóar næstu daga eru allar líkur á þessi vetur verði óvenju snjóléttur. Tíðarfarið hefur samt verið hálfleiðinlegt síðan í byrjun desember. Þó kuldinn hafi ekki verið mikill þá hafa umhleypingarnir verið með meira móti. Blessunarlega (fyrir mig a.m.k.) hafa morgnarnir þó oftast verið skaplegir.

Með vorinu má kannski búast við víðtækum verkföllum. Þó efast ég um það. Þótt verkalýðsrekendur tali digurbarkalega, gæti ég trúað að verulega sljákki í þeim þegar til samninganna kemur.

Kannski er betra að hafa bloggin mörg (einsog sést á fyrirsögninni) en að hafa þau sem lengst. Þau gætu farið að líkjast Reykjavíkurbréfum þá og ekki var það ætlunin. Ekki ætlar Gnarrinn í forsetann þó hann hefði líklega verið kosinn þar. Vel gæti ég samt hugsað mér hann sem forseta alþingis. Það veitir ekki af nýjum vendi þar, fremur en aflóga pólitíkusi.

Í skrautklæðum.WP 20150207 11 51 17 Pro


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður Sæmundur!

Haukur Kristinsson 15.3.2015 kl. 21:44

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Árið 2010 var lögð fram tillaga um þjóðaratkvæði um það hvort vilji væri með þjóðinni að ganga í evrópusambandið. Þáverandi stjórn hafnaði því.

í fyrra lagði stjórnarandstaðan fram tillögu um að kosið yrði í þjóðaratkvæðum um framhald viðræðna, sem þá voru þegar komnar í strand. Því var hafnað á þeim forsendum að ríkistjórn sem hefur ekki samninga við bandalagið á stefnuskránni, þvert á móti, geti ekki látið þvinga sig til viðræðna þvert á loforð þau sem hún var kjörin útá.

Í fyrra var lögð fram þingsályktunartillaga um Það hvort rifta ætti viðræðum formlega. Sú tillaga komst ekki að fyrir málþófi og skemmdarstarfsemi stjórnarandstöðu. Samt er ovartað yfir því nú að málið hafi ekki fengið þinglega meðferð.

Nú heyrast enn raddir frá stjórnarandstöðunni um að láta þingið kjósa um framhald en samt ekki því niðurstaða þess ætti að vera mönnum ljós. Því yrði hafnað.

Samhliða er uppi endurtekin krafa um þjóðaratkvæði um framhald. Verði hún samþykkt fer sú atkvæðagreiðsla á annan hvor veginn.

A. Að því verði hafnað og umsóknin þarmeð dregin formlega til baka.

B. Að framhald viðræðna verði samþykkt og núverandi eíkistjórn brjóti kosningaloforð sitt og gangi til samningaviðræðna að nýju, þvert á vilja og undir þvingun.

Þá er nokkuð ljóst að Evrópusinnar munu hafna þeirri leið við nánari skoðun því það er ljóst hverjir ásteytingarsteinarnir eru og samningsferlið myndi rofna jafnhratt og það er hafið. Viðræðum hætt og unsókn dregin til baka.

Af hverju?

Jú, evropusambandið hefur neitað qð sýna samningsmarkmið sín og rýniskýrslu um sjávarútveg og svo mun verða um landbúnað, orku og fjármál einnig og öll þau atriði sem ýtt var framfyrir vegna þess að þau fela í sér framsal valds sem stjórnarskráin leyfir ekki að óbreyttu.

Stjórnarskrármálið snerist meira leynt en ljóst um að hrinda þeirri hindrun úr vegi en varð erindisleysa eftir að ESA hafnaði drögunum m.a. vegna þess að of margir fyrirvarar voru í nýju drögunum um framsalsákvæðin.

um leið og stjórnarskrármálið datt uppfyrir, datt umsóknin uppfyrir. Látið var líta svo út að hlé væri gert vegna kosninga í stað hins augljosa að halda ferlinu opnu fyrir þá sem við tækju. Það var til þess að leyna Eirri óhjákvæmilegu staðreynd að ekki verður lengra komist og engin von á að ná saman um öll þau fjöregg sem menn höfðu komið sér hjá að ræða af augljosum ástæðum.

Svo tala menn um leynimakk og undirferli og skort á þægð við þingræðið. 

Fullyrðing þín um þingsályktanir hér í upphafi er röng. Um það ef fallinn úrskurður. Það var kannað og staðreynt áður en bréfið var sent.

Samfylkingin er ekki í stjórn og það er ekki hennar að fara með þetta mál. Þeir skipa ekki ríksstjórn landsins fyrir verkum. Þeir geta ekki átt kökuna og étið hana. Þannig virkar þing og þingræði.

ég er hálft í hvoru að vona að það verði þjóðaratkvæði sem fyrst svo Gunnar Bragi geti opnað málið á ný og lokað því endanlega í Brussel með augljósum og haldföstum rökum um að samningsmarkmið beggja eru og verða ósættanleg og að Að er raunar brot á núverandi stjórnarskrá að ganga frá þeim köflum sem eftir eru.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2015 kl. 07:14

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Álitsgerð um bindandi áhrif þingsályktana.

http://www.mbl.is/media/78/6678.pdf

Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2015 kl. 07:32

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

 Jón Steinar, mér finnst þetta fullmikill langhundur til að birta sem athugasemd við blogg, en takk samt.

Sæmundur Bjarnason, 17.3.2015 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband