2289 - Stundarfriður

Mikið er rætt um skattaskjól þessa dagana. Eitt er það þó sem jafnan er lítið rætt um. Það er sú tilhneiging til stofnunar lítilla þjóðríkja sem notið hefur mikillar velvildar til þessa. Mjög lítil ríki og fámenn hafa gjarnan fáar leiðir til tekjuöflunar. Stofnun skattaskjóls hlýtur ávalt að vera ein þeirra. Ef meðlíðan með öðrum og þar með siðferðið nær síðan bara til þeirra sem eru af sama þjóðerni er ekki von á að vel fari. Til stóð, að mínu áliti, að gera Ísland að skattaskjóli og ekki get ég sagt að mér hafi hugnast það. Mér fannst það alltaf vera einn aðalókostur þeirrar fjárhagslegu geðveiki sem tröllreið íslenskri þjóð fyrir Hrun. Að gera ríki viljandi að skattaskjóli er að mínum skilningi afbrot. Auðvitað er ekki hægt að setja þjóðríki í fangelsi frekar en fyrirtæki, en allir ættu samt að forðast samskipti við slíkt ríki.

Að ætla sér að stofna dagblað úr engu er auðvitað geðveiki. Hætt er við að Stundin verði ekki langlíf. Minnstur vandinn er að skrifa fréttir, jafnvel góðar fréttir. Að koma á laggirnar dreifikerfi og öllu öðru sem dagblað þarf á að halda er allt annar handleggur. Að selja á 990 krónur aðgang að daglegri vefútgáfu er ekkert annað en fjárplógsstarfsemi. Að selja á 990 krónur eitt vesælt dagblað er hreinasta okur, jafnvel þó það næsta komi ekki fyrr en eftir mánuð. Ill eru þín fyrstu spor „stundar-gróði“. Meira að segja stuðningur Reynis Traustasonar er hálfvolgur. Prentað fréttatímarit sem kemur út einu sinni í mánuði hefur verið prófað áður. Gekk ekki þá, en hvort kominn sé tími til að reyna aftur veit ég ekki. Öll prentun skilst mér að sé á undanhaldi. Myndir og talað mál er það sem blívur.

Megrun snýst fyrst og fremst um það að borða svolítið minna. Töfrabrögð á því sviði eru fundin upp á hverjum degi. Óþarfi er að trúa slíkri vitleysu. Líkamshreysti er ekki því betri sem hún kostar meira. Ókeypis æfingar er allt sem þarf. Auðvitað er betra að láta annan hugsa fyrir sig. Eigin hugsun sakar þó ekki. Heilasellurnar þurfa ekki síður æfingu en aðrar frumur líkamans. Snjór og kuldi eru bara hressandi. Engin ástæða til að láta slíkt aftra sér frá líkamsæfingum. Myrkrið er þreytandi til lengdar. Vorið kemur samt að lokum. Við eigum ekki lengur allt okkar undir veðurguðunum komið.

EES er ekki eitur í mínum beinum. Helst vildi ég að það samstarf yrði aukið verulega. Hættulegasta eitrið í mínum beinum er japlið í framsóknarmönnum um að nauðsynlegt sé að hætta formlega viðræðunum við ESB. Það er aðallega gert til að ergja sjálfstæðismenn því Bjarni vill helst ekki hlusta á slíkt. Hann hefur samt látið líklega í orði en á borði veit ég að hann hugsar sig tvisvar um áður en hann samþykkir slíka vitleysu.

Já, já ég er að verða búinn. Þegar pólitíkin er svona seint í blogginu er bara svo erfitt að hætta. Alþingi er að ljúka. Sennilega verða engin stórmál þar til lykta leidd. Snjórinn kemur og fer. Þannig mætti sem best snúa þessu öllu uppí veðurumræður og binda þannig enda á pólitíkina.

WP 20150120 13 22 18 ProJólatré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þér með japlið í framsóknarviðundrunum. Keyrði þó um þverbak hin fólskulega árás umhverfisráðherrans á faglega þýðendur nú í vikubyrjun.Svei mér, ég held að konan hafi ekki gert sér grein fyrir hvað hún var að segja með þessum fáránlegu fullyrðingum sínum. Að mínu mati er þetta ekki síðri ástæða til þess að krefjast afsagnar ráðherra en eitthvað annað.

Ellismellur 17.2.2015 kl. 08:02

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já. Satt er það. Þetta er skelfing vanhugsað.

Sæmundur Bjarnason, 22.2.2015 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband