2265 - Jólin 2014

Þingmannsvæflurnar eru bara 63. Hinsvegar er her manna sem telur a.m.k. mörg hundruð manns önnum kafinn við það alla daga að finna glufur á löggjöf þessa fámenna hóps. (Er hann samt ekki óþarflega fjölmennur?) Ef glufurnar eru ekki nógu stórar til að koma öllu sem þarf þar í gegn, má alltaf reyna að nota þær sem skattaskjól. Auðvitað eru embættismenn sem ættu að aðstoða þingmennina en vegna fámennis þjóðarinnar eru þeir ekki nærri eins fjölmennir og hinn herinn.

En lögfræðingaherinn og embættismannaherinn hafa gengið í vanheilagt bandalag. Þess geldur almenningur grimmilega. Alþingismanna-aumingjarnir eru eins og milli steins og sleggju. Ástæðulaust er að efast um að margir þeirra vilja vel, en mega sín lítils. Þetta er auðvelt að heyra í hinum svokallaða hálftíma hálfvitanna. Þá mega þingmennirnir tala án þess að vera tjóðraðir á málefnabás sem þingforseti hefur sjálfdæmi um að setja. Langflestir þingmannanna eru þó annað hvort tjóðraðir á áðurnefndan bás eða þann flokkslega.

Ef þeir hlaupa útundan sér og ganga í berhögg við flokksagann geta þeir búist við hverju sem er. T.d. þeirri steinaldarlegu refsingu að félagar þeirra hætti að tala við þá og horfi bara í gegnum þá. Bitlingarnir fjarlægast líka verulega.

Sú íþrótt sem ég stunda aðallega er að hafa allt á hornum mér. Verst hvað hornin eru orðin slitin. Alltaf er þó hægt að finna eitthvað nýtt til að agnúast útí. Ef maður er alltaf að fjargviðrast útaf því sama verða allir hundleiðir á því. Hér er hinn gullni meðalvegur vandrataður. Pólitík dagsins er yfirleitt hundleiðinleg. Skiptir samt um andlit reglulega.

Fésbókin fjallar aðallega um krúttlega kettlinga, fjölnota brandara og allskyns hrekki. Auðvitað slæðist samt almennilegt efni með og einkum eru það ábendingar um athyglisverða hlekki. Skyldulesningu sinni ég samt aldrei. Í heild sinni er vel hægt að láta netið koma í stað allrar annarrar fjölmiðlunar. Nauðsynlegt er samt að kunna að gúgla.

Bloggið mitt er meira og minna útúr kú, en það gerir ekkert til því athugsemdirnar eru það líka. Satt að segja er ekki við því að búast að nokkur skilji þessar kryptísku pillur sem við hjónakornin sendum hvort öðru. Samt er ég á því að bloggið sé á margan hátt betra en fésbókin. Ég fer ekki ofan af því.

Aðfangadagskvöldinu eyddum við í Hafnarfirði að þessu sinni og Helena var eins og herforingi á bak við vaskinn og eldavélina og heyrði ekkert nema pantanir á matvælum. Afgreiddi hamborgara með hægelduðum ís eins og ekkert væri. Við jólaborðið var aðallega töluð rússneska og íslenska.

Hér sit ég, klukkarn rúmlega sjö að morgni annars jóladags með kaffibolla og hálft laufabrauð og hamast við að blogga. Nú ætti jólaátinu að mestu að vera lokið og þá taka sprengingarnar og gauragangurinn við ef að líkum lætur. Svo kemur enn ein veislan og svo er hægt að taka til við megrunaraðgerðirnar aftur. Þær hafa að sjálfsögðu fokið útí veður og vind í jólatilstandinu öllu.

WP 20141201 10 53 25 ProSkyldi þessi ófreskja vera að kvelja einhvern?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur!

Einar Gíslason, oftast kenndur við Betel, vildi
fækka þingmönnum um helming og að laun lækkuðu einnig um helming til þess að tryggja
að ekki sætu þar aðrir en af hugsjón þeirri
einni sem til farsældar gæti orðið
öllum landslýð.

Húsari. 26.12.2014 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband