2260 - Caledos

Vel er hægt að hugsa sér að fésbókarlæk hafi einhver áhrif. Þau eru samt varla mikil. Til þess eru þau alltof tilviljanakennd. Engin leið er að vita hver meining lækanda er og hve margir hafa séð viðkonandi innlegg. Eru þá allir ólækendur mótfallnir efni innleggsins, eða hvað?

Merkilegt hvað þessi fésbók er mér hugleikin. Sennilega er ég bara svona hræddur um að ég hafi veðjað á rangan hest með því að halda blogginu til streitu, án þess að hafa nokkuð sérstakt til málanna að leggja. Hugleiðingar um hitt og þetta held ég að vel væri hægt að kalla þessi blogg mín. En ég er orðinn háður þessu og get ekki án þess verið. Verst ef þetta taut í mér verður svo sjálfmiðað að enginn nennir að lesa það.

Bæði á fésbók, bloggi og sjálfsagt víðar hættir mönnum mikið til að fara offari. Á margan hátt er það aðalgalli fésbókarinnar. Sömuleiðis finnst mér að við Íslendingar eða réttara sagt fésbókarar lifum fyrir að éta. Matarblogg og uppskriftir allskonar (fyrir nú utan allar auglýsingarnar) eru út um allt. Ekki var þetta svona í mínu ungdæmi. Þá var matur ekki svona mikið aðalatriði eins og mér finnst hann vera núna. Kannski fitnum við óhóflega af því að hugsa svona stöðugt um mat.

Sumir eru sífellt að láta ljós sitt skína á fésbókinni eða annarsstaðar og sumir ekki. Mér finnst ég vera í ekki-hópnum, en kannski finnst ekki öllum það. Fyrir besservissera er ágætt að vera rómsterkur, því þá er alltaf hægt að yfirgnæfa aðra. Mér finnst ég vera hættur að haga mér eins og besservisser.

Vonandi getum við kallað árið 2014 ebóluárið mikla. Mér finnst að fréttir af þeim faraldri hafi tröllriðið heimsbyggðinni. Hvarf MH370 er líka mjög minnisstætt. Vonandi verður ebólufjandinn á hröðu undanhaldi árið 2015. Kannski Holuhraunsgosið og Bárðarbunga haldi áfram að vera í fréttum á næsta ári, en vonandi verður það ekkert alvarlegt. Spámaður er ég enginn, en gerum ráð fyrir að fréttir næsta árs verði jákvæðari fyrir okkur auma Íslendinga en fréttir þess sem er að líða. Að læknadeilan leysist farsællega og hvaðeina.

Maður er sífellt að verða háðari rafhlöðum hverskonar. Mér finnst ég vera alltaf að hlaða farsímann minn og Kyndilinn. Tala nú ekki um önnur og minna notuð raftæki. Eða rafurmagnið sjálft. Einu sinni þótti manni ekkert merkilegt þó rafmagnslaust væri í vikutíma. Nú held ég að maður færi alveg yfirum við slíkar náttúruhamfarir.

Lenti í hálfgerðum vandræðum með Caledosinn (appið sem mælir tíma og vegalengdir) í gær, en núna er hann alveg eðlilegur. Hefur sennilega ekki náð sambandi við gervitunglið. Kvenmaðurinn talar samt sífellt um jarda og mílur núna, en það stafar sennilega af mínu eigin fikti. Mínúturnar eru sem betur fer alveg eins þó annað sé breytt.

WP 20141121 21 29 31 ProKomið við á vinnustofu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband