2236 - Kjaftæðið á Fésbókinni

Mér finnst ganga alltof mikið á í þjóðfélaginu útaf þessum byssum. Hvort sem þær eru 250 eða fleiri eða færri. Mér finnst aðalatriðið vera hvernig byssur eru notaðar og hvort þær eru notaðar. Ekki hve margar þær eru eða hver á þær. Því er þó ekki að neita að stjórnvöld hafa haldið áberandi illa á þessu máli og sú umræða sem orðið hefur gæti minnkað mjög þá velvild sem lögreglan hefur haft meðal almennings.

Svipað er að segja um margar nýlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þær eru áberandi lélegar. Mér finnst sú niðurstaða sem varðandi slíkt fæst í skoðanakönnunum mjög eðlileg. Allar líkur eru samt á að sú ríkisstjórn sem nú situr haldi völdum fram að næstu kosningum. Þær verða líklega árið 2017. Árinu fyrr verða þó forsetakosningar sem vel geta orðið sérlega athyglisverðar. Ólafur Ragnar mun varla bjóða sig fram einu sinni enn. Þó er það aldrei að vita. Einkum og sér í lagi ef hans helsti mótframbjóðandi verður Jón Gnarr.

Ég fer ekki ofan af því að mér finnst norski fáninn fallegri en sá íslenski. Kannski er það einkum vegna þess að mér finnst rauði liturinnn miklu fallegri en sá blái. Samt sem áður er ég miklu meiri Íslendingur en Norðmaður og ég hef ekki í hyggju að flyta í þann sælureit á næstunni sem Noregur á víst að vera. Samt skil ég vel þá Íslendinga sem þangað hafa farið að undanförnu. Margt er neikvætt hér á skerinu og um margt hefur verið haldið mjög illa á málum hér. Íslendingur er ég þó og ekkert getur því breytt.

Fáninn sem tákn þykir mér einskis verður. Sama er að segja um skjaldarmerkið svokallaða og flest þau þjóðræknislegu tákn sem allir eiga að þekkja. Því skyldi maður fyllast einhvers konar lotninu frammi fyrir slíku?

Eiginlega ofbýður mér kjaftæðið og hringlandinn á fésbókinni. Lækin og séringarnar tröllríða þar öllu. Svo er í sífellu verið að breyta öllum fjandanum þar. Sumt er samt alls ekki vonlaust á fésbókinni. Til eru þeir sem reyna jafnvel að halda upp gáfulegum samræðum þar. En er bloggið nokkuð betra? Eftir að svona margir þurftu að tjá sig varð eitthvað undan að láta. Sennilega er það um það bil að verða úrelt að tjá sig í rituðu máli. Ljósmyndir og þó einkum það sem einu sinni var kallað „lifandi myndir“ en er nú bara kallað „videó“ uppá útlensku er um það bil að taka yfir. Talaða málið er bara notað manna á milli og sem hjálparmiðill fyrir videóið. Einstaka maður hlustar þó enn á útvarp.

Sá nýlega í Kjarnanum að árið 1950 hafi íbúar á Reykjavíkursvæðinu verið um 120 á hvern hektara. Árið 2005 var sambærileg tala komin niður í 36. Auðvitað er skiljanlegt að með bættum efnahag hafi fólk viljað hafa rýmra um sig en áður. Fátt sýnir þó betur en þessar tölur sturlunina sem ríkt hefur í byggingamálum á svæðinu. Einkum þó síðustu árin fyrir Hrun.

Annars held ég að ég fari bara að hætta þessu enda er helgin að verða búin. Sem betur fer lesa þetta fáir og þeir fáu sem það gera hafa varla mörgu að sinna. Þeir sem öðrum hnöppum hafa að hneppa mega ekki vera að því að lesa þessi ósköp.

Kannski fer ég bráðum að hætta að birta tvær ljósmyndir með hverju bloggi. Það er alveg nóg að hafa bara eina. Þar að auki eru þær ekkert séstaklega góðar og ég er næstum hættur að nenna að taka myndir. Sjáum samt til.

IMG 1821Hliðstólpi.

IMG 1764Ber við himinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband