2234 - Feminismi

Jú, ég er greinilega farinn að blogga miklu sjaldnar en áður. T.d. er ég alveg andvígur því að fjölyrða um byssueign lögreglunnar, þó margir hafi fengið krampa í gikkfingurinn undanfarna daga. Ekki dugir samt alveg að hætta. Sífellt fjölgar þeim sem „blogga“ á fésbókinni en það hef ég ekki lært nógu vel. Er líka orðið nokk sama hvort einhverjir eða engir lesa þessi ósköp hjá mér og held áfram að blogga hér á Moggablogginu. Ætli ég sé ekki búinn að vera hvað lengst allra hér.

Orð skipta máli. Því hefur verið haldið fram að „feminismi“ sé það sama og kynbundið jafnrétti. En feminismi er misheppnað orð. Það gekk miklu betur að innprenta þjóðinni að orðið samkynhneigð sé jákvætt og vel heppnað orð. Jafnvel útlensku orðin hommi og lesbía hafa fengið fremur jákvæða merkingu og árangur þeirra sem barist hafa fyrir réttri orðanotkum þar, má sjá í „gleðigöngunni“ svonefndu. Kynvilla heyrist varla nefnd á nafn núorðið. En að halda því fram að „feminismi“ sé það sama og kynbundið jafnrétti er vonlaust og brýtur í bága við viðurkenndar íslenskureglur. Andstæðingar hans hafa haldið því fram að ekki sé hægt að nota orð sem dregur svo augljóslega taum annars kynsins sem samheiti fyrir „kynbundið jafnrétti“ sem auðvitað er vandræðalegt orðalag og fram að þessu hefur það verið misnotað af stjórnmálaflokkum.

Andstæðingar „feminisma“ hafa á margan hátt rétt fyrir sér og hafa tínt til dæmi um að á karlmenn halli á ákveðnum sviðum. Jafnvel er það til að þeir haldi því fram að ekki sé hægt að snúa sér að kvenfólki fyrr en það hefur verið leiðrétt. Þeir sem vilja „kynbundið jafnrétti“ þurfa þó að forgangsraða. Yfirgangur karla gagnvart kvenfólki á næstum öllum sviðum stingur þó auðvitað mest í augun og ekkert er því til fyrirstöðu að byrja þar. Orðið „feminismi“ hefur þó ekki fengið þann jákvæða hljóm sem það ætti að hafa og kvenréttindi ekki heldur, hvernig sem á því stendur.

Auðvitað gengur raunverulegt jafnrétti til launa og yfirráða yfir eigin líkama grátlega seint hjá konum. Ég er þó svo gamall að ég man vel eftir því að verkalýðsfélög sömdu um sérstök laun fyrir kvenfólk, en hærri fyrir karlmenn. Til voru þeir sem héldu að fullum jöfnuði á því sviði og öðrum hefði verið náð þegar lagalegt jafnrétti náðist. Svo var þó alls ekki. Misréttið grasseraði áfram og gerir enn. Gott ef það versnar ekki, sem er hræðilegt. Sjálft orðið „feminismi“ stendur e.t.v. í vegi fyrir þeirri hugarfarsbreytingu sem nausynlegt er að verði. Auk þess gera sumir yfirlýstir feministar sér leik að því að egna andstæðinga sína til óhappaverka. Það er þó lítilvægt og mundi að mestu hverfa ef tækist að snúa hug þjóðarinnar til jákvæðs feminisma með réttu orðalagi og koma fyrir kattarnef hinum pólitíska stimpli sem „feminismi“ hefur óneitanlega fengið á sig.

Óskaplega eru þau mörg matarbloggin og uppskrifabækurnar sem skrifaðar eru og auglýstar. Lifir fólk bara fyrir mat? Sem betur fer er þetta næstum allt tómt bull og vel hægt að vera án þess. Sennilega er besta megrunarráðið einfaldlega að borða bara svolítið minna.

Bílafljótið brýst áfram, óstöðvandi með öllu.IMG 1777

IMG 1789Fossvogur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Góður pistill Sæmundur.  Og ekki hætta að blogga hér.  Það eru ekki allir á fésbókinni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.10.2014 kl. 13:57

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Jóhannes.

Sæmundur Bjarnason, 22.10.2014 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband