2219 - "Það veit ég, að þetta endar með því að þeir drepa einhvern"

Holuhraunsgosið nýjasta verður sennilega til þess að halda áhuga fjölmiðlunga svolítið við. Líklegast finnst mér samt að skjálftavirkni í Vatnajökli og nágrenni hans haldi áfram í mánuði eða ár og áhuginn á þessu máli fari smám saman minnkandi.

Kannski er megrunarsaga mín alveg eins merkileg og þessi blessaða eldgosasaga sem engan enda virðist ætla að taka. Fyrir einhverju síðan (kannski mánuði eða svo) varð mér það á að stíga á baðvigtina. Hún hélt því fram að ég væri 127,5 kíló og mér blöskraði það alveg. Að vísu var ég í fötum en í framhaldinu gætti ég þess vel að vera án þeirra þegar ég spurði vigtina að einhverju. Ég steinhætti að éta brauð, kökur og þessháttar. Fór í einskonar megrunarkúr  og nærðist einna mest á allskyns grænmeti og þessháttar sem konan mín hélt að mér. Og kílóin hrundu í burtu. Afturkippurinn kom svo eftir að mér tókst á tiltölulega stuttum tíma að komast niður í 117,5 kíló. Í morgun hélt baðvogin því fram að ég væri 118 kíló svo ég verð víst að reyna að bæta mig.

Auðvitað eru umbrotin fyrir norðan Vatnjökul mjög merkilegt náttúrufyrirbrigði. Umfjöllun fjölmiðla um þetta mál finnst mér þó hafa verið afar óvönduð. Engu er líkara en fjölmiðlungar séu sífellt að bíða eftir því að gos hefjist og að það verði sem allra mest svo þeir fái nóg að gera og lokunarafsökunin verði sem allra sterkust. Kannski smitast lesendur og hlustendur (og annarskonar endur) af þessu sjónarmiði. Mér finnst a.m.k. með öllu óþarfi að byrja alla fréttatíma á nákvæmri útlistun á því hve margir jarðskjálftar hafi orðið á einhverju ákveðnu svæði á ákveðnum tíma. „Það veit ég að þetta endar með því að þeir drepa einhvern,“ var sagt í síðari heimsstrjöldinni af einhverjum sem hlutstaði mikið á fréttir í útvarpinu. Að falla getur nefnilega þýtt að detta og sennilega var því ruglað sama þarna.

Tvennt er það frá mínum allra fyrstu skólaárum sem er mér minnisstæðara en flest annað. Það fyrra er að lagt var fyrir okkur krakkana einskonar próf sem fólgið var í því að lesin voru upp talsvert mörg orð (kannski um þrjátíu) og við áttum að skrifa þau á blað eins og okkur þótti réttast. Ég veit ekki betur en ég hafi stafsett næstum öll orðin rétt, en mér varð það á að hafa stóran staf í þeim öllum, en það fannst kennaranum ekki eiga að vera. Í prófinu fékk ég semsagt núll því kennarinn sagði að öll orðin hjá mér væru vitlaust skrifuð. Þó ég hafi ekki haft uppburði í mér þá, til að mótmæla, hefur mér seinna meir fundist þetta bara vera ein villa (en ekki þrjátíu) og síðan hefur mér alltaf verið svolítið í nöp við kennara.

Hitt atvikið var á þá leið að Helgi Geirsson, sem þá var skólastjóri við Barna- og Miðskólann í Hveragerði, (sem ekki var orðinn grunnskóli þá) var að útskýra gang himintungla fyrir okkur. Sagði mér að standa úti á miðju gólfi og að ég væri sólin. Síðan tók hann hnattlíkan með réttum möndulhalla og gekk í kringum mig. Með þessu vildi hann útskýra árstíðirnar á jörðinni. Síðan hafa árstíðirnar og fyrirbrigði eins og sólmyrkvar, tunglmyrkvar, hálfmyrkrar, almyrkvar og þessháttar ekki vafist neitt fyrir mér.

Aðalfundi DV var frestað segir RUV. Svo nú geta menn haldið áfram að plotta. Þó Sigurður G. Guðjónsson sé útfarinn og reyslumikill plottari, þá getur vel verið að Reynir Traustason komist í tæri við einhvern enn snjallari. Allt snýst þetta um lagaflækjur og er þess vegna hundleiðinlegt, en úrslitin geta skipt máli. Ásakanir ganga á víxl milli hópa. Einu sinni var kveðið og ég hef enga hugmynd um hver gerði það:

Vondir menn með vélaþras
að vinum Drottins gera brigsl.
Kristur stóð fyrir Kaifas,
klögumálin ganga á vixl.

Af hverju geta bara ekki öll dýrin í skóginum verið vinir?

Þetta með áunna athyglisbrestinn er áhugvert. Þessvegna eru bloggin mín svona stutt. En mörg eru þau. Drottinn minn sæll og góður. Þetta fallaraus hjá honum Karli Th. á Herðubreið http://herdubreid.is/spadu-i-mer/ um sögnina að spá er ekkert merkilegt, Já, já. Marshallinn er víst úr Vestmanneyjum. Það vissu nú allir. Þegar ég kom fyrst á Bifröst fyrir tæpum sextíu árum, jæja rúmlega 50 a.m.k. var mér sagt að sögnin að spá væri notuð á alveg séstakan hátt á þessum stað. Semsagt yfir allt kynferðislegt. Þessvegna var svona vinsælt að spá í lófann. Sumir blönduðu öðrum ekkert í það heldur spáðu í einrúmi. Eftir Bifröst hefur sögnin að spá alltaf haft sérstaka merkingu í mínum huga. Hvort hún stýrir þolfalli eða þágufalli finnst mér skipta minna máli.

IMG 1588Hálfsokkið hús.

IMG 1591Auglýsingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bjarni Thorarensen:

Vondir menn með vélaþras

að vinum drottins gerir brigzl.

Bólu-Hjálmar:

Krist stóð fyrir Kaífas.

klögumálin ganga á víxl.

Bjarni var hrokafullur embættismaður og stórbokki. Bólu-Hjálmar var mun betra skáld.

Haukur Kristinsson 31.8.2014 kl. 13:03

2 identicon

Edit:

Vondir menn með véla þras

að vinum drottins gera brigzl.

Kristur stóð fyrir Kaífas,

klögumálin ganga á víxl.

Haukur Kristinsson 31.8.2014 kl. 13:13

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, einmitt Haukur. Mér fannst þessi vísa bara passa ágætlega þarna og auk þess er endarímið nokkuð gott.

Sæmundur Bjarnason, 31.8.2014 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband