2218 - Gos og DV

Vaknaði af einhverjum ástæðum um tvöleytið í nótt. Eftir að ég var búinn að sannfærast um hvað klukkan væri, kíkti ég á fésbókina. Þar sá ég að einhver slatti tilkynninga beið mín enda hafði ég farið að sofa talsvert fyrir miðnætti. Ein tilkynningin var langmerkilegust. Hún var frá Birgittu Berþórudóttur og um eldgos. Flýtti ég mér að kíkja á hana og fór síðan rakleiðis á vefmyndavélina hjá Mílu (þó þeir hafi brugðist mér svolítið um daginn, þegar þeir klikkuðu eftirminnilega á Vestfjörðum) til að horfa á gosið í beinni. Síðan á mbl.is og þangað var komin frétt um gosið sem ég séraði (eða reyndi það). Eftir að hafa skoðað nokkur vefsetur í viðbót sannfærðist ég um að þetta eldgos væri ekkert sérstaklega merkilegt og fór að sofa aftur. Ákvað að vekja Áslaugu ekki neitt þó hún hafi mikinn áhuga fyrir eldgosum og allri skjálftavirkni. Nú er klukkan að verða 10 og aukaútsending hjá RUV, sem maður lítur kannski á. Mílumyndin sem nú er einslags stillimynd hjá RUV (í miklum aðdrætti) er heldur ómerkileg og varla verður þetta eins túristvænt gos eins og það sem varð á Fimmvörðuhálsi um árið.

Mér finnst fréttastofa sannleikans ekki nærri eins fyndin og Baggalútur. Það nýjasta sem ég hef frétt frá þeim (fréttastofu sannleikans) er að Jóhanna Sigurðardóttir taki við ritstjórn á Fréttablaðinu á mánudaginn kemur. Það minnir mig á að ég hef ekki kíkt á Baggalút nýlega. Síðast þegar ég vissi voru þeir í sumarfríi og engar fyndnar fréttir að fá. Ekki get ég ætlast til að fólk lesi blogg í staðinn. Allrasíst mitt, því ég er aldrei fyndinn. Alltaf í fýlu er mér sagt. Sjálfum finnst mér ég vera í mesta lagi alvarlegur, en fyndnar frásagnir þarf maður samt ekki að forðast.

Ætlaði svosem ekkert að setja inn blogg núna, en gosið hefur kollvarpað þeim áætlunum eins og sjálfsagt mörgum öðrum. Aðalfundur DV sem sagt er að verði núna síðdegis getur vel orðið sögulegur. Í rauninni veit enginn hvað gerist þar. Vitanlega er DV ekki alveg eftir mínu höfði. (Og athugasemdakóngarnir þar ennþá síður.) Samt sem áður er blað á borð við DV nauðsynlegt. Óþarfi er að rökstyðja það sérstaklega, en nægilegt að benda á hve margir hata það innilega. Málaferlin sem í gangi eru draga að mínu viti ekkert úr nauðsyninni. Þetta get ég sagt því ég er næstum viss um að verða aldrei fyrir barðinu á þeim.

IMG 1580Ástríða í matargerð.

IMG 1581Dálítið illileg örk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband