2183 - ESB og USA

Vinsældir (jafnvel bloggara) geta verið varasamar. Vinsældir tákna yfirleitt áhrif, sem geta verið mikil eða lítil eftir atvikum og eðli máls. Stundum verða vinsældir að peningum og nær alltaf spilla þeir. Áhrif tákna oftast völd og öllum ætti að vera kunnugt að völd spilla  næstum alltaf. Algjör völd spilla algjörlega. Þannig er alls ekki útilokað að vinsældir spilli. T.d. er ég sannfærður um að vinsældir heimsmeistarakeppninnar í fótbolta spilla mörgu. Peningar þeir sem keppnin veltir koma sennilega sennilega einkum frá þeim sem síst mega við því að missa þá.

Er fólk sem talar við álfa haldið illum öndum? Ég veit það ekki, en mér finnst afsakanlegt þó álfarnir taki sér far til Vestmannaeyja fyrst verið er að flytja grjót þangað. Hinsvegar finnst mér taka útyfir allan þjófabálk þegar Stöð 2 (eða var það RUV) vill láta okkur trúa, að álfar séu að flækjast með flugvélum til Ameríku. Geta þeir bara ekki tekið sér far með ímynduninni eins og þeir eru vanir?

Ekki er mikill vafi á því að ESB-málið mun halda áfram að valda deilum. Fylgi við þá aðild mun eflaust sveiflast til og tímasetning getur því orðið mjög mikilvæg. Andstæðingar aðildar hafa undanfarið haft vinninginn. Margir álíta samt að þarna sé komið mál sem kemur til með að kljúfa þjóðina. Að andstæðingar aðildar hafi ekki látið kné fylgja kviði og knúið fram viðræðuslit strax og þeir komust til valda eftir umtalsverðan sigur í síðustu alþingiskosningum getur varla þýtt annað en innan raða þeirra sé málið mjög umdeilt og þýðing þess vanmetin. Ef ekki verður knúin fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið er líklegt að það flækist fyrir lengi enn. Ef takast mætti að ná samkomulagi um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu og tímasetningu hennar er hugsanlegt að mál þetta hætti í talsverðan tíma að hafa áhrif . Nóg er til að rífast um. Núverandi ríkisstjórn er búin að missa af lestinni varðandi þetta mál og alls ekki er víst að næsta stjórn taki það sömu tökum.

Jæja þá, ég skal skrifa smávegis um himstrakeppnina í fótbolta sem tröllríður öllu um þessar mundir. Auðvitað horfi ég stundum á þessi ósköp. Áhuginn er samt ekkert tiltakanlega mikill. Næst á eftir íslenska landsliðinu þykir mér mest gaman að sjá það enska. Ekki veit ég hvernig á því stendur, en mikill grundvallarmunur er á þessum áhuga. Þegar það íslenska leikur held ég að sjálfsögðu með því, en þegar það enska spilar, held ég ævinlega með andstæðingum þess. Ekki veit ég heldur hvernig á því stendur og grunur minn er sá, að íslenskir íþróttafréttamenn og fótboltaspekingar haldi ævinlega með því enska, nema auðvitað ef svo skyldi vilja til að þau léku hvort við annað, sem ég held að hafi ekki gerst.

Það þarf að virða Bandaríkjastjórn það til vorkunnar að þjóðir heims líta til hennar sem táknmyndar lýðræðis í heiminum. Völd hennar eru mikil og óhjákvæmilegt er að mistök,  jafnvel mjög afdrifarík, séu gerð. Smám saman er e.t.v. lýðræðið að breytast í einskonar auðræði og hin fjölþjóðlegu fyrirtæki á ýmsum sviðum eru farin að ráða of miklu. Þau hafa hugsanlega alltof mikil völd og áhrif á vissum sviðum og ekki er hægt að sjá að stefna þeirra sé önnur en sú að auka áhrif sín sem allra mest. Stefna ríkisstjórna getur verið allt önnur og þar kemur lýðræðið og mannréttindi við sögu. Svo virðist vera að Evrópusambandið, Bandaríkin og ýmis stórfyrirtæki séu að ná saman um ýmis viðskiptatengd málefni og það getur orðið mjög hættulegt. Nú þegar ráða hin fjölþjóðlegu fyrirtæki meiru á mörgum sviðum en nokkur ríkisstjórn og völd þeirra og áhrif víðs vegar um heiminn gætu verið varasöm í meira lagi. Fjölþjóðlegar nefndir og ráð allskonar munu þó e.t.v. hamla eitthvað á móti þessu.

Það getur vel verið að framsóknarmönnum finnist að sér vegið með þeirri umræðu um innflytjendamál sem nú á sér stað. Ég get þó ekkert gert að því, þó Eygló Harðardóttir sem hingað til hefur verið sá framsóknarráðherra sem ég hef borið hvað mest traust til, hafi fallið mjög í áliti hjá mér við það að styðja borgarfulltrúa framsóknar, jafnvel eftir kosningar.

Ég er svo gamaldags að ég skipti næstum öllum stjórnmálalegum skoðunum í hægri og vinstri. Ekki er það vegna þess að ég álíti þá skiptingu eitthvað betri en aðrar. Mjög margir skilja samt slíka skiptingu án verulegra útskýringa og svo er hún tiltölulega auðveld. Mér finnst vinstrisinnar vera miklu duglegri við skriftir bæði blogg, fésbók og netmiðla. Annað les ég ekki af stjórnmálalegu eða fréttatengdu efni. Þetta kann vel að vera vitleysa hjá mér. Enginn hefur líka hreinræktaðar vinstri eða hægri sinnaðar skoðanir. Mér finnst samt að þeir sem hafa að meirihluta vinstri sinnaðar skoðanir, vera betur máli farnir og skrifa betur en hinir. Líka hef ég þá trú að þeir séu fleiri. Allt kann þetta þó að stafa aðallega af því að ég er fremur vinstrisinnaður sjálfur og les sennilega miklu fremur efni eftir þá sem hafa svipaðar skoðanir og ég sjálfur.

Annars er ég eiginlega í einskonar sumarfríi, en get samt ekki látið alveg hjá líða að skrifa eitthvað.

IMG 0644Brú á skipi?

IMG 0647Geimför og tré?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi siður að kljúfa fólk í tvo andstæða hópa elur á deilum og úlfúð í samfélaginu og um leið felst í henni vanvirðing fyrir skoðunum náungans, sem eru oftast öllu flóknara en stimplar eins og hægrimaður eða vinstrimaður gefa til kynna. Í stríðum er mönnum skipt í tvo hópa, sem ef til vill eru samsettir úr fleiri hópum, og síðan er farið í stríð. Af sálfræðilegum ástæðum sem varða mannkynið er ekkert hægt að fara í stríð án þess að þetta fyrirkomulag sé þarna á. Við og þið. Já og Nei. Svart og hvítt. Þetta er andi stríðsins að allt skiptist í tvo flokka manna. Einföldun sem er óhjákvæm sannleikanum og andstæð menningu friðar.

Til umhugsunar. 27.6.2014 kl. 18:48

2 identicon

Ritvilla: ósamkvæm sannleikanum. "Við erum betri en þeir" bætir auðvitað um betur og elur ennþá meira á stríðsandanum. Því meiri hefð sem skapast fyrir menningu ófriðarins, þeim mun auðveldara lenda þeir sem af trúnaði við anda friðar og æðri hugsjónir neita að láta skipa sér svona á bekk og falla í hvorugan hópinn í því að verða fyrir tortryggni og misskilningi þeirra sem hugsa smærra og fellur ófriður vel í geð.

Til umhugsunar 27.6.2014 kl. 18:51

3 identicon

Málfræðivilla: Þeim mun auðveldlegar. Ég hef varið meirihluta æfinnar í öðru málumhverfi. Mínir líkar og útlendingar þora varla að tjá sig neitt lengur út af þessum flokkunum eftir málfræðikunnáttu. Einnig þetta skapar og styður við anda stríðsins.

Til umhugsunar 27.6.2014 kl. 18:54

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

"Til umhugsunar" minn. Mér finnst athugasemdir þínar athyglisverðar. Vildi samt gjarnan vita hvað þú heitir. Þau málefni sem þú minnist á eru vissulega áhugaverð og ég mundi gjarnan vilja ræða þau nánar en treysti mér varla til þess án þess að vita betur hvað þú átt við með upphafsorðunum í athugasemdum nr. 2 og 3.

Sæmundur Bjarnason, 27.6.2014 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband