2159 - Kalda stríðið endurvakið

Bloggskrif þar sem vaðið er úr einu í annað virðast henta mér nokkuð vel. Að sumu leyti finnst mér ég vera að skrifa fyrir lesendur mína og það sem þeir vilja helst sjá. Samt meina ég alveg það sem ég skrifa. Hef bara enga þolinmæði til að skrifa langt mál um eitt og sama efnið. Yfirleitt er ég búinn að skrifa það sem ég vil segja áður en varir. Orðhengilsháttur á þó vel við mig og auðvitað gæti ég skrifað langt mál um lítið efni. Með æfingunni hefur það orðið mér auðvelt að láta móðann mása skriflega. Minningabrotum reyni ég í seinni tíð að sáldra samanvið heimspeki, pólitík og fréttagraut. Hugsun mín er sú að fæla sem fæsta frá og þessvegna vil ég ekki einbeita mér að neinu.

Það er svolítið hastarlegt fyrir óbreytta borgara í Úkraínu að þurfa að sæta því að seinni hálfleikur kalda stríðsins skuli hefjast þar. Þegar Sovétríkin féllu um 1990 sællar minningar var það ekki endilega sigur fyrir Kapítalismann þó margir hafi túlkað það þannig. Næstu áratugina verða það einkum USA, ESB og Kína sem geta gælt við stórveldisdrauma. Pútín vill koma Rússum í þann hóp og honum er alveg sama þó einhverjir tapi á því. Hingað til hefur þráteflið í Palestínu og Ísrael nægt mönnum, en svo er víst ekki lengur.

Sá eina feita og loðna býflugu á sumardaginn fyrsta í sumarbústaðahverfinu við Úthlíð í Biskupstungum. Þetta er sú fyrsta sem ég sé þetta vorið. Þær eiga víst ekki að geta flogið en gera það samt. Kannski koma fleiri í ljós fljótlega ef hlýindin haldast. Sumardagurinn fyrsti stendur kannski undir nafni í þetta sinn.

Því hefur verið haldið fram (Jón Björnsson) að greindarvísitala fólks lækki um 10 til 15 stig við það að verða ríkt. Þetta finnst mér trúlegt, eða hittó. Auðvitað er gott fyrir okkur sem ekki erum rík að hugga okkur við eitthvað. Allar vísitölur eru húmbúkk. Greindarvísitölur ekki síst. Það er engin leið að smíða svo gott greindarpróf að það mæli rétt allskonar greind hjá öllum. Suma greind hjá sumum væri nær lagi.

Nú man ég allt í einu eftir því að ég ætlaði að skrifa eitthvað um rafbækur. Þær eru á margan hátt áhugamál mitt númer eitt. Ég ætti eiginlega að vera sæmilega kvalifíseraður til þess eftir að hafa staðið að mestu leyti fyrir stofnun Netútgáfunnar á sínum tíma. Einnig hef ég að líkindum verið fyrsti ritstjóri raf-tímarits á landinu. Sjá Rafritið. Þetta er víst urlið: http://snerpa.is/net/rafrit/raf.htm . Nei, eiginlega var Rafritið ekki fyrsta raftímaritið heldur fréttabréf PC-tölvuklúbbsins, en það var heldur ómerkilegur samsetningum og líklega hvergi að finna á Internetinu. Jæja, þetta er víst nóg af sjálfhælni í bili. Skrifa kannski meira um rafbækur við tækifæri. Svo á ég víst eftir að fella fleiri palladóma um Moggabloggara. Þeir eru sumir ágætir. Of pólitískir samt fyrir minn smekk.

Og síðan er það Ásgautsstaðamálið, ekki má gleyma því. Kannski verður það á endanum bara betra að ég minnist ekkert á það hér í blogginu mínu. Það er alltaf verið að reyna að beina því á nýjar brautir.

IMG 0341Græni kallinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband