2153 - Tvær pizzur

Og sú fyrri í desember næstkomandi. Hin kannski aldrei. Andstæðingar aumingja Sigmundar Davíðs halda því fram að skuldaleiðrétting hans sé ekki meira virði, þó hún sé heimsmet.

Þó Simmi sé slæmur þá held ég að hann sé ekki svo slæmur.

Ég trúi því semsagt að þetta séu ýkjur einar og því til sannindamerki er ég búinn að ákveða að fá mér ÞRJÁR pizzur. Jafnvel strax í janúar.

ESB-umsóknin var gölluð. Einkum voru svik VG í því sambandi áberandi, því margir sem kusu þá gerðu það einmitt vegna andstöðu þeirra við sambandið. Þó umsóknin hafi verið gölluð, að því leyti að ekki var neitt öruggt með stuðning þjóðarinnar við hana, er það ekki næg ástæða til að slíta viðræðunum fyrirvaralaust. Þetta er mál sem þjóðin öll á að fá að ráða. Asnalegt væri samt að kjósa núna um það hvort halda skuli viðræðunum áfram. Eðlilegast er einfaldlega að láta málið malla fram að næstu kosningum, eins og mér sýnist að ætli að verða ofaná. Um hvað á að kjósa að þeim loknum? Ekki verða þær kosningar eingöngu um ESB-aðildina. En koma tímar, koma ráð.

Geysis ævintýrið verður alltaf skemmtilegra og skemmtilegra. Ekki bregst Ástþór þó hann sé í einhverskonar banni hjá sjónvörpunum. Það var sniðugt hjá honum að taka bara skiltin hjá þeim að Geysi og fara með á Þingvöll þar sem hann tók uppá því að rukka saklausa túrista fyrir að vera að flækjast þar. Hugmyndaríkur er hann. Ekki verður það af honum skafið.

--------------------------------------------

Ímyndað leikrit, sem kannski hefur gerst hjá stóru símafyrirtæki á Íslandi dagsins í dag.

Forstjórinn: (heldur á excel-skjali sem hann hefur greinilega verið að stúdera.) hér stendur að áætlaðar tekjur okkar á næsta ári verði 942 milljónir.

Bókarablók sem greinilega er skíthrædd við náðugan forstjórann: Já.

F: En kostnaðurinn 300 milljónum meiri.

BB: Já. Það lítur þannig út.

F: Við verðum þá að hækka tekjurnar.

BB: Ja, það mætti náttúrlega reyna að minn.......... (Talið deyr út því F. er frekar ógnvekjandi.)

F: Mér sýnist að notendur okkar þjónustu séu um 30 þúsund og áskriftarleiðirnar 80.

BB: Já, það er alveg rétt.

F: Og gert sé ráð fyrir að eyða 150 milljónum í auglýsingar.

BB: Já.

F: Þá er verkefnið að finna út hvaða áskriftarleiðir er best að auglýsa, svo hala megi inn þessar 300 milljónir. Kannski þarf að hætta við einhverjar ódýrar leiðir. Allt verður að athuga.

BB: Já, herra. Ég skal vinda mér í það. Liggur ekki á þessu?

F: Jú.

--------------------------------------------

Íslendingar hafa nú loksins samið og flutt alvöru óperu. Ég á reyndar bágt með að skilja hvers vegna nauðsynlegt er að leikendur bresti í söng og finnst sálarlíf þeirra ekkert skiljanlegra fyrir vikið. Tónlistin skýrir eflaust margt fyrir sumum í því sambandi, en hún gerir lítið fyrir mig.

Jæja, hvað um það. Efnið er að vísu dálítið margþvælt en fjallar að sjálfsögðu um Ragnheiði biskupsdóttur sem Daði Halldórsson í Steinsholti fór uppá um árið (eða fór hún á hann?)

Daði Halldórsson átti dóttur sem Ingibjörg hét og sonur hennar hét að sjálfsögðu Daði. Sá Daði átti son sem Guðni hét. Guðni átti son sem Jón hét. Sá Jón átti dóttur sem Þorbjörg hét og var móðir Jórunnar ömmu minnar. Annars fer því fjarri að ég sé vel að mér í ættfræði, en Íslendingabók fullyrðir þetta og ekki efast ég um það guðspjall.

Nú var ég næstum búinn að gleyma Ásgautsstöðum, en það reddaðist á síðustu stundu.

IMG 0253Bekkirnir bíða vorsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband