2143 - Þetta blogg er ekki um skuldaniðurfellinguna

Einu sinni ákvað ég að þegar ég kæmist á eftirlaun og hætti að vinna þá mundi ég spila VGA-planets alveg svikalaust. Ekki man ég hvaða útgáfa af leiknum var þá í gangi en þetta var áreiðanlega löngu fyrir daga vafranna. Ekki nenni ég því núna. Og ég nenni ekki heldur að lýsa leiknum fyrir lesendum þessa bloggs. Mér þótti hann skemmtilegur þó flókinn væri og sérhæfði mig í að spila með reisið Colonies of Man. M.a. vegna þess að þeir gátu búið til bensín „on the fly“.

Þetta var semsagt „turn-based“ stjörnustríðsleikur og reisin, sem voru ellefu talsins, höfðu mjög mismunandi eiginleika og mismunandi geimskip. Pláneturnar voru alls 500 minnir mig og á þeim gátu verið þjóðflokkar sem hægt var að skattleggja, assimilata eða gera eitthvað annað við. Einhver þurfti að hósta leikinn og senda svo leikina í tölvupósti. Svo voru þeir afkóðaðir og þegar búið var að ákveða hvað átti að gera var nýr leikur kóðaður og sendir til hóstsins. Þar var veröld leiksins staðsett. Venjulega voru leiknir svona 2 til 3 leikir á viku. Margir klukkutímar gátu farið í hvern leik. Einn skemmtilegasti leikurinn var við Pekka hinn finnska og fleiri af þeim slóðum og héðan af Íslandi.

Þessi leikur er enn til nema talsvert fullkomnari núna, en samt nenni ég ómögulega að sökkva mér niður í hann. Bréfskákin (sem er bráðskemmtileg) dugar mér alveg.  

Margir halda því fram að krónan sé bjargvættur okkar. Ég vil miklu heldur segja að hún sé bölvaldur okkar. Sveigjanleiki íslensku krónunnar hefur aldrei verið launþegum til góða. Oftast hefur sá sveigjanleiki gagnast útgerðaraðilum eða - aðlinum - fyrst og fremst og stundum hafa smámolar af þeim gróða hrokkið til óverðugra. Stöðugleiki í fjármálum er það sem landsmenn þyrstir í. Úrslit síðustu þingkosninga benda til þess að margir hafi haldið að sá stöðugleiki fyndist hjá núverandi stjórnarflokkum. Svo er greinilega ekki. Hvar ætli hann sé þá? Allmargir landsmenn virðast vera á því að hugsanlega sé hann hjá Evrópusambandinu. Og ef hann er ekki þar þá sé hann sennilega í sjónum. Hugsanlega í makrílnum. Eða á Grænlandi. Eigum við ekki bara að leggja það undir okkur. Nafni minn Dúason taldi okkur eiga augljóst tilkall til þess landsvæðis. A.m.k. jafnmikið tilkall og Rússar til Krímskaga. Hvað eru annars margir Íslendingar á Grænlandi? Ha, eru þeir aðallega í Kanada?

Einu sinni byrjaði ég að grafa holu til Kína. Hún varð aldrei nema svona rúmlega hálfs meters djúp. En stór var hún. Sennilega þrír eða fjórir fermetrar, enda fékk ég hjálp við þennan gröft. Eða hjálpaði bara öðrum. Man það ekki greinilega. Skóflurnar sem við notuðum voru líka stórar. Ég man vel hvar þessi hola var. Hún var við endann á skúrnum þar sem eitt sinn voru hafðar hænur. Man líka vel eftir hænunum. Þeim þótti gott að fá njólablöð eða gras í svanginn.

Þetta með Óðinn fréttastjóra var svosem alveg fyrirséð. Hefði hann ekki hætt við að sækja um hefði nýi útvarpsstjórinn bara orðið ómarktækur. Sjáum bara til með hver verður ráðinn og hvernig hann reynist. Hvernig honum eða henni semur við hina fréttamennina o.s.frv. Eiríkur segir að það verði kona og það sé fyrir löngu búið að ákveða það. Hver gerði það er eiginlega stóra spurningin. Verð að fara að muna hvað nýi útvarpsstjórinn heitir.

Lengi undanfarið hefur sú kynslóð sem verið hefur að hverfa á braut alltaf getað huggað sig við að allt benti til að sú kynslóð sem á eftir kæmi hefði það a.m.k. betra fjárhagslega séð. Nú er búið að kippa fótunum undan þeirri huggun. Kannski er það stærsta breytingin sem orðið hefur með Hruninu. Að svifta gamla fólkið þeirri trú er e.t.v. stærsti glæpurinn sem  gullgrafarakynslóðin sem landinu réði í upphafi þessarar aldar gat unnið.

Og svo er það Ásgautsstaðamálið sem ég var eiginlega búinn að lofa sjálfum mér að minnast á í hverju bloggi. Verst er að erfingjarnir virðast búnir að missa áhugann á því máli einnig. Enginn sýnir því hinn minnsta áhuga og þó mér sé það þvert um geð er ég að hugsa um að hætta að minnast á það. Ekki er annað að sjá en það sé vitatilgagnslaust. Áhugi annarra er enginn. Helstu atriði þessa máls rakti ég í bloggfærslu 10. desember s.l. og allar þær upplýsingar til viðbótar sem hugsanlega gæti þurft er auðvelt að fá hjá opinberum aðilum. Það er orðið mér augljóst að lögfræðingurinn sem fer með þetta mál gerir það sem hann getur til að draga það sem mest á langinn. Kannski er það hans hagur.

IMG 0131Hættulegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband