2126 - Skrifaðu flugvöll

Eitt sinn var ráðherra á ferð úti á landi og heimamenn höfðu orð á því að samgöngur við héraðið væru ekki eins og best væri á kosið. Þá sagði ráðherrann þessa gullvægu setningu um flugvöllinn við ritara sinn. (Gott ef ritarinn var ekki bílstjóri líka.)

Orð skulu standa. Þetta er heiti á bók um Jóhann bera, sem var frægur umrenningur á sinni tíð. Hann vildi umfram allt standa við orð sín. Alltaf er samt álitamál hvenær orðheldni verður að þvergirðingi. Víst lofaði Sjálfstæðisflokkurinn þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og sennilega vill meirihluti þjóðarinnar segja sína meiningu um það mál. Þeir sem kusu vinstri græna í kosningunum árið 2009 gerðu það a.m.k. sumir vegna þess að þeir álitu að þeim væri best treystandi til andstöðu við ESB.

Ég er fremur en hitt hlynntur Evrópusambandsaðild, en þó ekki með hvaða skilmálum sem er. Fyrrverandi ríkisstjórn heyktist á því að láta sverfa til stáls um ESB-málið. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki ætla að taka hana til fyrirmyndar um það.

Mótmæli núna á Austurvelli breyta engu. Þau verða ekki það fjölmenn að ríkisstjórnin fari frá. Þau gætu svosem orðið upphafið að einhverju, en ég efast samt um það. Sigur stjórnarflokkanna s.l. vor er ekki bara tilkominn vegna blekkinga Framsóknar heldur ekki síður vegna andstöðu við ESB. Ef sú andstaða er tilkomin vegna rangra upplýsinga þá er ástæðulaust að ætlast ekki til að aðildarsinnar leiðrétti það.

Það er greinilegt að pólitískir flokkar á Íslandi (og ég undanskil alls ekki Samfylkinguna og Vinstri græna) vilja fyrir hvern mun komast hjá því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um ESB-aðild. Mér er nákvæmlega sama hvað þingmennirnir sjálfir segja, ég er sannfærður um þetta. Lofaði Sjálfstæðisflokkurinn þjóðaratkvæðagreiðslu bara til að hala inn fáein atkvæði? Fengu kjósendur þeirra þá ekki svikna vöru?

Þingmenn munu ávallt finna afsakanir fyrir því að halda ekki þjóðaratkvæðagreiðslur. Þessvegna er sú barátta  sem framundan er þýðingarlaus með öllu, nema takist eins og í búsáhaldabyltingunni að fá ríkisstjórnina til að segja af sér. Það er allsekki líklegt að svo verði.

Óþarfi er þó að afturkalla umsóknina í fljótræði. Vel getur verið að hagstæðara sér að draga málið sem mest á langinn. En hverjir eru hagsmunirnir? Skýrsla sú sem þingmenn þykjast vera að ræða, segir ekkert um það. Gjaldeyrishöftin hverfa ekki af sjálfu sér og samkvæmt EES samningum má ekki hafa þau. 

Þjóðaratkvæðagreiðslur verða aðeins haldnar á Íslandi fyrir tilverknað forseta landsins eða um gjörsamlega þýðingarlaus mál. Ný stjórnarskrá sem mundi leyfa þjóðaratkvæðagreiðslur eftir öðrum reglum en nú eru í gildi og draga úr valdi alþingis verður aldrei samþykkt af þinginu.

Í vaxandi mæli er sú áhersla sem margir hafa hingað til lagt á vinstri og hægri stefnu í stjórnmálum að hverfa. Austur og vestur er að taka við. Sú austræna stefna sem ríkisstjórn Íslands hefur tekið í mannréttindamálum að undanförnu hugnast mér ekki. Mannréttindastefna sú sem rekin er af Vesturveldunum er mun þróaðri en sú austræna sem virðist ráðandi í Rússlandi og Kína.

Allt er þetta sem ég hef nú skrifað pólitískt þvarg. Þó hefði ég helst viljað skrifa um eitthvað annað. Nú eru bara þeir tímar að það er ekki hægt. Vorið kemur samt einhverntíma.

Auk þess legg ég til að málefni Ásgautsstaða (og hugsanlega fleiri jarða) verði tekin á dagskrá hjá bæjarstjórn Árborgar og þessum sífellda feluleik hætt. Einnig mætti stofna sérstaka fésbókarsíðu um þetta mál. Þar væri hægt að setja myndir (skannanir) af þeim skjölum sem fyrir hendi eru þannig að allir gætu haft aðgang að þeim.

IMG 5933Skammdegið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband