2096 - Share if you agree

Í mannkynssögutímunum hjá séra Helga Sveinssyni lærðum við í gamla daga að Cato hinn gamli (sem líklega var annaðhvort Rómverji eða Forn-Grikki) hafi jafnan endað allar sínar ræður á setningunni: „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði“. Þetta er eitt af því fáa sem ég man úr mannkynssögutímunum í fornöld. Ekki veit ég hvort honum varð að þessari ósk sinni.

Stefán Pálsson, sem útnefndi sig sjálfur ofurbloggara númer eitt á sínum tíma, var mikill andstæðingur Moggabloggsins, þegar það reis upp í öllu sínu veldi, og ákvað af bloggarayfirburðum sínum að hallmæla því í hverjum einasta bloggpistli. Þessu hélt hann áfram lengi vel og að lokum lýsti hann því yfir að Moggabloggið væri dautt og þessvegna gæti hann hætt þessu. Ef sýslumannsnefnan á Selfossi færi allt í einu að svara bréfum sem til hans eru send þá mundi sennilega fara líkt fyrir mér og Stefáni Pálssyni.

Þó ég sé hvorki að líkja mér við Cato eða Stefán þá er ég nefnilega í rauninni dottinn í sama pyttinn. Ég get illa bloggað nema minnast á Ásgautsstaðamálið og því geri ég það hérmeð. Hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps og seinna meir Bæjarstjórn Árborgar hafa nýtt og selt sem byggingarland hluta af jörðinni Ásgautsstaðir án þess að hafa til þess nokkurt leyfi. Þetta hefur gerst með vilja og aðstoð allra yfirvalda á svæðinu. Þannig er reyndar alltaf reynt að hafa þá undir sem ekki vilja þýðast með góðu embættismenn á Íslandi. Læt ég svo lokið þessum kafla bloggsins.

Share if you agree. Ef maður sérar semsagt ekki hvaða vitleysu sem er þá er maður ekki sammála ruglinu. Mér finnst öruggara að haga sér þannig. Þá getur maður jafnvel sleppt því að lesa þessi skilti (aðallega á ensku) sem eru vaðandi um allt. Á maður líka að séra nítugasta og fjórða skiltið sem maður fær og er alveg eins og hin 93? Þetta var fésbókarspakmæli dagsins. Og hvar enda öll þessi sér?

Ég ætla mér ekkert að fjalla um kjör íþróttamanns ársins, en get þó ekki látið hjá líða að benda á að þessi árlegi atburður lýsir íþróttafréttamönnum fjölmiðlanna, sem standa fyrir þessum atburði, betur en íþróttamönnunum sjálfum. Þessvegna er því haldið áfram.

Ef bornar eru saman núverandi ríkisstjórn og sú síðasta verður samanburðurinn þeirri núverandi hagstæður að því leyti að betur er stjórnað og stjórnarandstaðan er ekki eins ófyrirleitin og deilurnar milli ríkisstjórnarflokkanna eins hatrammar og áður. Þetta kann þó allt að breytast. Stuðningur almennings við þá núverandi er alls ekki eins mikill og sumir vilja vera láta. Stjórarandstaðan er bara ekki nærri eins skipulögð og svæsin og sú fyrrverandi var.

T.d. fer stuðningur við Evrópusambandið vaxandi og á áreiðanlega eftir að valda núverandi ríkisstjórn vandræðum, einkum vegna þess að hún treysti sér ekki til að taka það mál föstum tökum frá upphafi. Sambandið við nágrannaþjóðirnar skiptir okkur Íslendinga miklu máli. Það á núverandi ríkisstjórn eftir að finna áþreifanlega. Samvinna og allskyns blokkamyndun er einfaldlega krafa dagsins í utanríkismálum. Að láta utanríkisráðherra, sem margir vantreysta, ráða því hvernig rætt er um svo mikilvægt mál sem ESB-aðild er ekki við hæfi. Þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál er þjóðarnauðsyn. En um hvað á að spyrja? Ef bara er spurt um hvort halda skuli viðræðunum áfram er kannski verið að segja, ef það verður samþykkt,  að hvað sem er verði samþykkt að lokum. Ekki er það nógu gott. Ef framsókn hefur einhver áhrif haft í ESB-málinu þá hefur hún gert það mun flóknara en það þó var.

Stjórnarskrármálið sem fyrrverandi ríkisstjórn virtist hafa talsverðan áhuga fyrir er sennilega dautt og grafið. Áfram verður samt haldið við ýmsar þæfingar þar og reynt að láta líta svo út að hugur fylgi máli. Ekki er annað að sjá en gamla stjórnarskráin haldi þó áfram gildi sínu. E.t.v. með smálagfæringum.

Jólasnjórinn mætti alveg fara að missa sig. Veðurfarslega eru mestar líkur á asahláku á næstunni þó vissulega sé veðrið hið mesta ólíkindatól. Frost og fannkoma er samt orðin alveg nóg hér á Reykjavíkursvæðinu þó aðrir landsmenn megi mín vegna hafa snjó svolítið lengur.

Ekkert stendur óhaggað að eilífu. Ekki einu sinni eilífðin sjálf. Gott ef hún er ekki sífellt að styttast. Hvað gerðist t.d. fyrir Miklahvell? Bara hugmynd sem vel mætti velta fyrir sér innanum allar ármótasprengingarnar.

Í dag er Þorláksmessa gamlársdags. Þ.e.a.s. aðfangadagur hans. Hann er svo aftur á móti aðfangadagur nýjársdags. Flókið? Ekki finnst mér það, en svona verða krakkar að læra þetta. Svo er ekki einu sinni hægt að halda því fram að þetta sé fróðleikur sem er einhvers virði. Sennilega á ekki að ryksuga þá þó ég hafi neyðst til þess vegna eindreginna óska þar um. Ryksugan lætur nefnilega eins og það sé brjálaður geitungur þar innanborðs. Jæja, látum það vera.

IMG 5435Sýning í ráðhúsinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Billi bilaði

Sæll, og gleðilegt ár.

Sýslumaðurinn á Selfossi gerði það af skömmum sínum sem sýslumaður á Ísafirði, að þinglýsa hluta af jörð fyrir vestan sem einkaeign eins aðila án vitneskju annarra eigenda jarðarinnar. Þegar málið svo komst upp hafði jörðin flutzt úr umdæmi hans yfir til sýslumannsins á Hólmavík. Stórmennið á Ísafirði notaði sér það til þess að vísa málinu frá sér, yfir til Hólmavíkur; og eftir að báðir sýslumennirnir voru búnir að vísa því hvor á annan þurfti að ráða lögfræðing til þess að leysa úr málinu og fá þinglýsinguna afmáða. Maðurinn er skaðvaldur.

Billi bilaði, 31.12.2013 kl. 14:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þekki sýslumanninn ekki neitt. Held að hann sé ekkert meiri skaðvaldur en aðrir embættismenn. Það getur þó verið tóm vitleysa hjá mér.

Sæmundur Bjarnason, 1.1.2014 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband