2089 - Ásgautsstaðir II

Blogg mitt frá því um daginn um Ásgautsstaðamálið hefur vakið talsverða athygli. Held þó að mál af því tagi séu alls ekki sjaldgæf. Þöggunin í þjóðfélaginu er yfirþyrmandi. Spillingin grasserar á hverri þúfu og þó fólk sé ekki beinlínis svift lífi og limum þá eru því allar bjargir bannaðar. Yfirvöld og allir þeir sem betur mega sín hafa alla tíð reynt eftir megni að þagga niður alla gagnrýni á kerfið. Mun fylgja þessu máli eftir ef nýjar upplýsingar koma fram. Vel getur verið að komið verði á fót vefsetri þar sem hægt verður að fá allar upplýsingar um þetta mál. Jafnvel líka hægt að setja inn upplýsingar um það eða önnur. Bíðið bara.

Það er þetta með hann Borislav Ivanov og táfýluna. Þegar ég var á Bifröst í fyrndinni þýddum við þýska textann: „Der Tau viel stark“, hiklaust sem „táfýlan er sterk“. Ég er samt ekki alveg viss um að sú þýðing sé rétt. Einhverjir antiskákmenn fatta kannski ekki hvað Borislav Ivanov kemur þessu máli við. Þeir sem með skák fylgjast kannast þó eflaust við Búlgarann Borislav Ivanov. Hann nær öðru hvoru (ef hann er í réttum skóm) afburða árangri á skákmótum.

Lyfja- og vopnaeftirlit er víst orðin almenn regla á skákmótum víða um heim. Jafnvel hefur verið talað um það að skákmenn svindli á skákmótum hérlendis og á ég þá ekki við Vodafon-gambítinn svonefnda. Hann felst í því að prófað er að hringja í farsíma viðkomandi skákmanns, því ef farsími í vasa skákmanns hringir meðan mótsskák stendur yfir, er skákin samstundis töpuð.

Nú nú, ég var víst að tala um hann Borislav. Þegar honum gengur sem best á skákmótum (vinnur jafnvel hátt skrifaða stórmeistara unnvörpum) er hann jafnan beðinn um að fara úr skónum. Þetta hefur gerst a.m.k. tvisvar og hann móðgaðist svo í millitíðinni að hann steinhætti að keppa. Nú er hann semsagt kominn af stað aftur og enn eru það skórnir sem eru að þvælast fyrir honum. Hann þverneitar jafnan að fara úr þeim og ber við táfýlu. Jafnvel þó hann verði að hætta þáttöku í skákmótum gefur hann sig ekki hvað skóna varðar.

Það er jafnvel hald einhverra að hann kunni að vera með farsíma í skónum og geti spilað á hann með tánum. Síðan sitji einhver með síma og mati skákforrit á leikjunum í skákinni sem hann er að tefla hverju sinni. Skákforrit eru mörg orðin svakalega góð í að tefla.

Frá mínu sjónarmiði séð er stóri gallinn við stjórnmálavafstur hér á landi sá að of stór hluti þjóðarinnar lítur á sig sem fremur vel stæða millistétt. Íslendingar eru þó fremur fátækir miðað við nágrannaþjóðirnar.  Á mesta niðurlægingartímabili þjóðarinnar urðu þeir þó aldrei fátækari í anda (þ.e.a.s. vitlausari) en nágrannarnir. Guðstrúin hélt fólki mikið í skefjum áður fyrr, en nú er hún þverrandi og falsspámenn vaða uppi. Fólk trúir jafnvel á álfa, drauga og afturgöngur. Ég er heldur ekki frá því að sumir trúi því að smáskammtalækningar (homopatia) og allskyns kukl séu alvörulækningar. Snákaolía virðist annarri olíu betri.

Í bloggheimum saka hverjir aðra um fávitahátt þessa dagana. Jens Guð birti ágæta umfjöllun um Moggabloggið um daginn. Eiginlega ætlaði hann að vera hættur þessu stauti þar, en vinsældir hans eru slíkar að hann gat það ekki.

Eiginlega er allt við það sama á alþingi og verið hefur. Ef orðið málþóf er nefnt rísa menn upp á afturfæturna. Auðvitað hefur ekkert breyst þar frekar en búast mátti við. Það er bara breytt stjórnarmynstur. Þingmenn (og kannski fleiri) virðast samt halda að einhverjar breytingar verði við það að nýir menn taki til við málþóf og dónaskap. Málþófssöngurinn hefst jafnan rétt fyrir jól og svo aftur á vorin. Skyldu menn aldrei fá leið á þessu?

IMG 5224Á einhverjum tindi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Málþóf, já. Mikið er þetta gott kerfi að hafa þessi þing og ríkisstjórnir handa fólkinu til að skamma og rífast í og svo til að þau geti rifist hvert við annað. Svo eru það náttúrulega frekari embættismenn og svo stóru og ríku fyrirtækin og einstaklingarnir sem ráða í raun. Merkilegt hvað margir halda að ráðherrar ráði einhverju!

Ellismellur 13.12.2013 kl. 08:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ellismellur. Þeir ráða kannski einhverju og margir taka mark á orðum þeirra. Verða þó að hlýða flokksforingjum. Í pólitík er það lítil klíka sem flestu ræður og yfir henni er viðskiptaklíka eða peningaklíka sem ræður yfir henni. Mestu máli skiptir að finna út hvað það er sem hefur áhrif á klíkurnar.

Sæmundur Bjarnason, 13.12.2013 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband