2070 - Malbik

Einn af þeim fáu sem stundum minnist á mig með nafni í blogginu sínu er Jóhannes Laxdal Baldvinsson. Þessvegna hika ég lítið við að nefna hann með nafni. Ég fann uppá því um daginn að leita með aðstoð Gúgla sjálfs að nafninu mínu í blogginu hans og það bar ótrúlega mikinn árangur. Hann er að vísu alltof snjall til þess að vera að baktala mig eitthvað á þeim vettvangi. Hef reyndar séð margt af þessu áður en var alveg búinn að gleyma því. Þarf að skoða þetta betur við tækifæri en hann virðist aðallega minnast á mig í sambandi við vísnagerð og Steina Briem.

Eins og ég man eftir Steina Briem-málinu þá var það Gísli Ásgeirsson, bróðir Páls Ásgeirs sem fældi Steina Briem frá því að birta rímæfingar sínar, sem oft voru ansi sniðugar, í athugasemdum á blogginu mínu. Þar hafði hann hreiðrað um sig og þó ég kallaði hann stundum sníkjubloggara, (það lærði ég hjá Hörpu Hreins.) þá kippti hann sér lítið upp við það.

Nú, en áfram með smjörið. Ég var víst að tala um Jóhannes Laxdal. Hann er alveg úrvals hagyrðingur og „opinion-ated“ í þokkabót. Það minnir mig á að ég er svo gamall að ég man vel eftir strákunum í „Þokkabót“, en það er nú önnur Saga eins og þar stendur, eða alltönnur Ella ef því er að skipta. Það er alvarlegt með mig hvað ég leiðist fljótt út í aðra sálma, en hvað um það. Ég var semsagt að tala um Jóhannes Laxdal þegar önnur orð urðu til þess að afvegaleiða mig og nú man ég ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um hann. Meira seinna. Þá verð ég vonandi búinn að lesa meira af þessu. Einn af göllunum við að eldast er nefnilega að þá verður maður svo „painfully“ seinlesinn.

Árangur minn eða árangursleysi í bréfskákum á netinu er að miklu leyti eiturlyfjum að þakka eða kenna. Sagan er nefnilega sú að ég verð stundum andvaka á nóttinni og tek þá gjarnan inn svefnlyf. Meðan ég bíð eftir að þau fari að virka er ég ævinlega mjög virkur í bréfskákunum mínum. Þó ég segi frá þessu hérna er ég næstum viss um engir andstæðinga minna gera sér grein fyrir þessu og lesa eða skilja íslenskuna áreiðanlega alls ekki. Annars minnir þetta mig á söguna um..... Jæja, nú er farinn að sofa.

Ekki skil ég þá sem geta sýnkt og heilagt fjargviðrast um stjórnmál á blogginu sínu. Vissulega geri ég það stundum líka, en ég reyni alltaf að hafa eitthvað annað auðmeltara með. Þau verða svo leiðinleg með engu. Altsvo stjórnmálin. Annars þótti okkur krökkunum mikið „trít“ í gamla daga að fá tómt skyr. Vaninn var að hræra afganginum af hafragrautnum frá morgninum saman við það og þá kallaðist það hræringur og var ekki nærri eins gott. Bráðum verð ég líklega svo gamall að fólk frá Þjóðminjasafninu kemur í heimsókn til mín með allskyns græjur í farteskinu til að bjarga ómetanlegum menningarverðmætum frá glötun.

Athyglisverð er sú kenning Ómars Ragnarssonar og fleiri að léleg umferðarmenning og raunar flest sem aflaga fer í þjóðfélaginu sé lélegu malbiki að kenna. Þetta mál er miklu flóknara en svo. Vissulega er malbikið lélegt samanborið við útlönd, en það er alltof mikil einföldun að kenna því um allt. Í rauninni þjónar þessi gagnrýni því eina markmiði að kasta rýrð á yfivöld samgöngumála í landinu.

Auðvitað eru þeim mislagðar hendur. Vegirnir eru ekki nærri því eins góðir og þeir ættu að vera. Sjóflutningarnir voru fluttir uppá land um árið og margt fleira hefur verið gert sem setja má spurningarmerki við. Samt sem áður hafa vegaframkvæmdir um allt land staðið undir svo miklum framförum að engin leið er að meta það til fullnustu. Veit ekki betur en a.m.k. Grælendingar sáröfundi okkur af hinu frábæra vegakerfi. Þó ekki sé annað nær það þó allavega á milli staða.

Sá áðan einhverja kökuuppskrift og þar stóð „kakað í 20 mínútur.“ Ekki er reyndar víst að þetta dugi eitt og sér til að baka köku, en reyna má það. Minnir mig á bók sem ég fékk í hendurnar á Vegamótum þegar ég tók þar við útdeilingu á dýralyfjum. Þar stóð að blanda ætti eitthvað meðal eftir kúnstarinnar reglum og „hella í hund“. Þetta var handskrifað og átti líklega að vera „hella í hana“. Ekki hvaða hana sem er heldur „hana beljuna“. Einnig var sagt ítarlega frá gömlu þjóðráði við súrdoða í kúm. Það átti semsagt að henda á þær ketti. Þetta hefur kannski reynst vel þvi mér skilst að aðalgaldurinn sé að fá þær til að standa upp.

IMG 4375Trjáhús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þegar Sæmi er syfjaður
og sofið ekki getur
Hann leikur skákir lyfjaður
það lætur honum betur

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2013 kl. 12:13

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Er rakstu burtu Steina Bríem
sem breytti reglum Braga
Á Ómars bloggi eins og lím
er hann alla daga

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2013 kl. 13:12

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Laxdalinn lætur mikinn

lofið mér gefur hann.

Sæmi er ekki svikinn

af seggnum sem yrkja kann.

:)

Sæmundur Bjarnason, 7.11.2013 kl. 19:58

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Athugasemdin hér á undan var skrifuð í Chrome (eins og þessi) og þessvegna fer línuskipingin út í móa.

Sæmundur Bjarnason, 7.11.2013 kl. 20:00

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Að ýmsu leyti brauztu blað
því bloggið tekur tíma
Alla daga ertu að
afrita og líma

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.11.2013 kl. 22:58

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Laxdal límir mikið
lætur flakka allt.
Spursmálslaust er spikið
spaklegt mjög og valt.

eða

Pólitískt er prikið
og pínulítið kalt.

Sæmundur Bjarnason, 7.11.2013 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband