2011 - Um framsóknarkomma o.fl.

Þetta með framsóknarkommana er svolítið sniðugt. Sennilega er ÓRG í þeim hópi því hann byrjaði sem framsóknarmaður og endaði (hvenær skyldi hann annars hætta) sem alþýðubandalagsmaður. Bjarni frændi minn Harðarson segist vera framsóknarkommi eða eitthvað þessháttar. Kannski er það samheiti yfir þá sem eru á móti ESB, kusu VG og héldu að eitthvað væri að marka þá. Þó ég sé krati og hlynntur inngöngu í ESB held ég að önnur mál séu brýnni en að ganga frá inngöngu þangað núna.

Þó í tísku sé af öllum sem ekki kusu Sigmund Davíð og framsóknarflokkinn til forystu í síðustu kosningum að níða hann sem mest, get ég ekki neitað því að hann talar dágóða ensku. Auk þess er auðvelt að færa rök fyrir því að hagstæðara sé að þrasa við ESB útaf makrílnum utan sambandsins en innan þess. Gallinn er bara sá að makrílveiðarnar eru ekki einu samskipti okkar við ESB og þar að auki er sagt að Norðmenn séu harðari í samningum um hann en bandalagið.

Of margir leita í pólitík að einhverju til að vera ósammála um. Yfirleitt er það auðvelt. Hugsanlega getur það valdið erfiðleikum seinna meir að ganga ekki formlega frá aðildarumsókninni að ESB og láta bara nægja að segja að allir hljóti að vita að ríkisstjórnin sé á móti aðild. Landann langar nefnilega svo mikið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Oftast borgar sig að þykjast vita heldur minna en maður þó veit. Að þykjast vita meira getur hvenær sem er komið í bakið á manni. Erfiðast var alltaf að samræma þetta besservisserahættinum, en nú þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því, vegna þess að Gúgli er tekinn við hlutverki beturvitans. Oft er auðvelt að láta sannleikann líta út sem lygi og þannig er hægt að styrkja trú fólks á að maður viti eitthvað.

Ég er kattamaður þó ég eigi heima í Kópavogi. Þar var nýlega flutt tillaga í bæjarstjórn um bann við lausagöngu katta. Ætli það sé ekki svipuð tillaga og samþykkt var á Selfossi fyrir nokkru. Held að hún hafi verið afturkölluð eða sé a.m.k. ekki framfylgt. Mér finnst eðlilegt að bann sé við lausagöngu hunda og til rökstuðnings við það finnst mér nóg að vita að stundum ráðast hundar á fólk og sumt fólk er hrætt við þá. Um ketti gegnir alltöðru máli. Þeir ráðast ekki á fólk nema þeir séu alvarlega innikróaðir og fáir eða engir eru hræddir við þá. Þetta finnst mér nægja til að vera á móti banni við lausagöngu þeirra. Öll dýr geta valdið óþægindum og ergelsi en slík allsherjarbönn þurfa góðan rökstuðning.

Talsvert er rætt um lífeyrismál og oft af lítilli þekkingu. Þegar ákveðið var að koma lífeyrissjóðunum á fót fyrir mörgum áratugum lá það ljóst fyrir að með tímanum yrðu sjóðirnir gríðarlega öflugir. Stjórn þeirra skiptir því miklu máli núna þó hún hafi ekki gert það í fyrstu. Það eru þó einkum hinir opinberu sjóðir sem valda vanda. Þar hefur mönnum liðist að velta vandanum á framtíðina og ekki er langt þangað til það vandamál verður að stærð til eins og eitt stykki Hrun eða svo.

Las í DV um norska konu sem kærði nauðgun, en var í kjölfarið sjálf dæmd fyrir rangar sakargiftir. Vissulega er margt einkennilegt í réttarfari Saudi Arabíu og þjóðlífi öllu séð með okkar vestrænu augum. Óþarfi er þó að heimfæra allt sem miður fer þar á allar þjóðir þar sem Múhameðstrú er ríkjandi.

Í þessari stuttu DV-grein var sagt lítils háttar frá málinu og alfarið horft á það frá sjónarhóli norsku konunnar. Auðvitað er eðlilegt að eyða ekki dýrmætu plássi í álnarlangar úskýringar. Norsk blöð fjalla líka talsvert um þetta mál skilst mér og eyða meira plássi í það.

Þó mér finnist sumt sem birtist í DV ekki vera neinar fréttir voru það fremur athugasemdirnar við greinina sem vöktu athygli mína og ég ætlaði að fjalla svolítið um.

Það vefst greinilega lítið fyrir mönnum þar að dæma í málinu án þess að sjáanlegt sé að þeir viti nokkuð meira um það en stendur í greininni. Sumir vilja færa þetta atvik, eftir að hafa dæmt í málinu, fram sem rök gegn byggingu mosku í Reykjavík, en það finnst mér alveg út í hött.

Ég hef hingað til haldið því fram að fólk væri ekki fífl. Sumir þeirra sem hafa athugasemdir fram að færa við DV-greinina virðast þó vera það. Þó ég hafi haldið því fram að fólk sé ekki fífl, svona almennt séð, þá er greinilegt að þau eru til. Því hef ég heldur aldrei neitað. Í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslun eru þau að mínum dómi samt svo fá að þau skipta engu máli.

IMG 3499Tréspýta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband