1947 - Vorinu frestað

Ég sá einhversstaðar í blaði að litlar líkur séu á að Framsókn myndi stjórn til vinstri. Þessu er ég ekki sammála. Ég þekki innviði Framsóknarflokksins betur en flestra annarra flokka og veit að þar er margt gegnheilt vinstra fólk. Auvitað er SDG ekki neinn vinstri maður sjálfur en margir menn í flokknum eru það.

Í stjórnmálalegri umræðu er það mikið veikleikamerki að viðurkenna að andstæðingarnir geti haft rétt fyrir sér. Ég er alls ekki sá innsti koppur í búri Samfylkingar sem sumir halda og þess vegna get ég leyft mér þá ósvinnu að hæla Framsóknarmönnum. Sá flokkur er a. m. k. skárri en Sjáflstæðisflokkurinn og formaður þeirra a.m.k. hæfileikaríkari.

Fjórflokkurinn er í fíflasætinu núna því sagt er að fíflinu skuli á foraðið etja. Kannski geta tveir af fjórflokknum skilað Framsókn nægilega mörgum atkvæðum á þingi til að mynda stjórn. Sú er a.m.k. von mín. Framsóknarmenn hefur nefnilega langað í stjórn allt síðastliðið kjörtímabil.

Núna er ein vika til kosninga. Flest er komið fram sem barist verður um. Engar sérstakar rannsóknir held ég að hafi farið fram á því hvort flokkunum tekst betur eða verr að koma boðskap sínum til kjósenda síðustu daga kosningabarátturnnar. Þessvegna er nóg að taka meðaltalið úr síðustu könnunum og styðjast við það ef menn vilja kjósa taktískt. Það getur samt mistekist hrapallega.

Af hverju eru menn að þreyta sig á hallmæla Framsókn og Íhaldi. Nær væri að sætta sig við sigur Framsóknar og einbeita sér að því að LÍÚ-flokkurinn komi sem fæstum mönnum að. Vona bara að vinstri sinnarnir í Framsókn verði ofaná. Víst eru þeir spilltir og kunna ekki einu sinni að leyna því. Samt ætti að vera hægt að nota þá, þó ekki væri nema til annars en að gefa fölsk loforð. Þeir eru flinkir í því.

Engum er Ármann líkur. Hann er tvímælalaust á góðri leið með að verða minn uppáhaldsbloggari. Í nýjasta bloggi sínu fjargviðrast hann mikið útaf úlpunni Feminin sem hann tók til handargangs að móður sinni látinni. Ef hægt er að blogga langt mál um lítið efni þá er hann meistari í því. Á enn eftir að lesa bókina hans um tuddann. Hlakka til þess. Þarf að muna eftir að spyrja um hana á bókasafninu næst þegar ég fer þangað.

Þessi síðasta klausa er ekki nærri nógu pólitísk, enda er ég orðinn svo leiður á öllu slíku að ég get ekki á hálfum mér tekið. Ármann má þó helst ekki minnast á ef maður er á Moggablogginu. Gamla reglan er a.m.k. sú. Hann er nefnilega svo útsmoginn að hann bloggar á Smugunni og næstum því leynilega. Þetta er samt linkurinn á bloggin hans: http://smugan.is/raddir/fastir-pennar/armann-jakobsson/

Í einhverju blaði var verið að tala um alkapillu. Ég las það náttúrulega sem al-kapillu og hélt að þetta væru einhver nýmóðins hryðjuverkasamtök. Svo er víst allsekki, heldur er sagt að þetta sé nýmóðins antabus enda er antabusinn sem ég kynntist í bernsku löngu kominn úr tísku. Ég verð endilega að fara að fylgjast betur með. Man að ég misskildi hroðalega fyrirsögnina á baksíðu Moggans sem hljóðaði þannig: „Skreið til Nígeríu“. En ég skildi samt Danina um árið þegar þeir voru að tala um krydsild og hélt ekkert að það væri kryddsíld.

Alltaf er Veðurstofan eitthvað að díleia vorinu. Ég kann bara ekki við þetta. Svo er eftir að moka einhverjum snjó fyrir norðan. Mér finnst nú ástæðulaust að fresta vorinu þessvegna. Það má svosem mín vegna bíða fram yfir kosningar, en alls ekki lengur.

IMG 3013Byggðastefnan í framkvæmd.


mbl.is Sigmundur: Vinstristjórnaráróður sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tal að ef Framsókn verður falið að mynda næstu ríkisstjórn, þá verður gaman að fylgjast með hverjir láta af sínum loforðum, því SDG hefur gefið það skýrt út að þeir muni ekki gefa neitt eftir af aðstoð við heimilin og burt með verðtrygginguna.  Það er aðeins Dögun sem hefur þessar sömu áherslur þar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.4.2013 kl. 10:54

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég held að SDG komi til með að gefa eftir til að geta myndað stjórn. Þvermóðskan ein dugir ekki. Einhver sagði að Dögun og Lýðræðisvaktin væru með svipaðar áherslur. Hef ekki kynnt mér það til neinnar hlýtar en held að báðir þeir aðilar komki mönnum að, öfugt við spár. Það bætir samt varla úr fyrir SDG.

Sæmundur Bjarnason, 23.4.2013 kl. 17:15

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það er margt líkt með Lýðræðisvaktinni og Dögun, en áherslumunur varð til þess að lýðræðisvaktarmenn kusu að fara, m.a. vildu þeir ekki afnema verðtrygginguna, og svo fannst þeim skipta meira máli hverjir væru í framboði en að hafa góða stefnuskrá.  Sem sagt mennina frekar en málefnin.  Það gátum við ekki sætt okkur við. 

Já það væri gott ef bæði Lýðræðisvaktin og Dögun komi mönnum að, lýðræðisvaktin á þó lengra í land en Dögun, því í sumum skoðanakönnunum í dag er Dögun komin yfir 5% vegginn og það er ánægjulegt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.4.2013 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband