1892 - Útvarp Saga

Kannski finnst sumum (mörgum) að það sem ég skrifa um stjórnmál sé tóm vitleysa. Við því vil ég bara segja það, að mér finnst ég megi alveg halda fram tómri vitleysu eins og aðrir. Hversvegna ekki? Ekki fæ ég styrk til þess frá ríkinu. Og ekki á ég útvarpstöð eða ræð yfir einni slíkri.

Ef þjóðin kýs yfir sig áframhaldandi spillingu og gróðabrall er fátt annað að gera en sætta sig við það. Vinstri stjórnin sem hér hefur setið í bráðum fjögur ár má eiga það að hafa að mestu komið okkur út úr erfiðleikunum sem Hrunið olli. Hún á þó allsekki að sitja áfram finnst mér. Ekki er heldur kominn tími til þess að sjálfstæðismenn stjórni hér öllu. Framsóknarflokkurinn var einu sinni sagður opinn í báða enda. Líklega er hann það ennþá. Raunar er eðlilegast að fjórflokkurinn allur fái frí. Á skoðanakönnunum er ekki að sjá að slíkt gerist. Ég vona þó að nýju flokkarnir nái nokkrum þingmönnum inn og hafi áhrif á næstu stjórnarmyndun.

Þetta sem sjálfstæðismenn eru að boða núna, að lækkaðir skattar auki skatttekjur getur vel staðist í ákveðnum tilfellum. Þó getur slík tilraunastarfsemi verið alltof dýru verði keypt. Það getur líka verið alltof dýrt að hækka skatta svo mikið að skatttekjur minnki. Það er bara svo flókið og mikið mál að gera tilraunir af þessu tagi. Mun heppilegra er að herma eftir nágrannaþjóðum sem hafa svipaða menningu eða einfaldlega stækka markaðssvæðið. (ESB).

Að sumu leyti er útvarp Saga orðið (orðin) afl sem reikna þarf með. Mér finnst merkilegt hvað Pétur Gunnlaugsson hefur náð langt. Ef hann getur verið í framboði með Þorvaldi Gylfasyni og Lýði Árnasyni þá er honum ekki alls varnað. Ég hélt alltaf að hann væri mikill hægrimaður, fyrrverandi framsóknarmaður og allt mögulegt.

Það þarf ekki lykilorð eða neitt slíkt til að skrifa athugasemd við bloggið mitt, enda nota óprúttnir andskotar sér það til þess að setja ómerkilega auglýsingalinka í kerfið. Athugasemdir hjá mér eru samt fremur fáar um þessar mundir. Stundum hafa þær þó verið alltof margar. Það er vandlifað í henni veröld.

Nú er Reykjavíkurskákmótinu lokið. Fór ekkert þangað að horfa á, en man að ég fylgdist vel með fyrsta Reykjavíkurskákmótinu sem var haldið í Lídó. Bjarni keppti á þessu móti og stóð sig ágætlega. Fékk 5 vinninga og vann m.a. Sævar Bjarnason með svörtu. Auðvitað segir það þeim sem ekki eru skákáhugamenn fremur lítið, en slíkum mönnum talsvert. Oft langar mig að skrifa um skák því það er sennilega það sem ég hef einna mest vit á. Sennilega er það samt fullsérhæft.

Fór á bókasafnið í dag og fékk meðal annars lánaða þar bókina „Bobby Fischer comes home“, sem er eftir Helga Ólafsson. Ekki tími ég að kaupa hana en las samt um daginn á kyndlinum mínum ævisögu Robert James Fischers eftir Frank Brady. Og fannst hún ágæt, þó hún væri allsekki gallalaus.

Sennilega er það of mikið fyrir mig að ætla mér að blogga næstum því á hverjum degi. Þó hefur mér gengið það furðanlega að undanförnu. Alveg er ég hættur að spara blogghugmyndir sem ég fæ. Í því efni læt ég hverjum degi nægja sína þjáningu. Ef mér dettur eitthvað sæmilegt í hug til að skrifa um þá læt ég það frekar flakka strax en að geyma mér það. Kannski er það þessvegna sem bloggið hjá mér er svona sundurlaust. Svo reyni ég að forðast að blammera aðra og kannski tekst mér það (stundum). Skyldi þessi markvissa og hnitmiðaða notkun á svigum vera orðinn partur af mínum stíl? (Ásamt spurningarmerkjunum sem ég gleymi oft ????) 

IMG 2639Súlur á glámbekk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Láttu hugmyndirnar endilega vaða. Hvað Útvarp Sögu varðar, þá er ég þér algjörlega sammála. Þar fyrir utan þá eru það að mínu mati einungis tveir raunhæfir kostir að velja um í komandi kosningum, en þar á ég auðvitað við Hægri græna eða Lýðræðis vagtina, einfaldlega af því að spilltu valda pakkinu sem ríður húsum niðri við Austurvöll verður að koma frá með öllum tiltækum ráðum, áður en það verður um seinan.

Jónatan Karlsson, 28.2.2013 kl. 20:50

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Held að lýðræðisvaktin (fólkið úr stjórnarskrár-ráðinu) sé ekki búið að birta neinn framboðslista. Þar hef ég heyrt nefnda Þorvald Gylfason, Lýð Árnason og Pétur Gunnlaugsson. Bíð eftir nánari fréttum. Koma áreiðanlega eftir helgina. Nú fer að draga til tíðinda.

Sæmundur Bjarnason, 28.2.2013 kl. 21:35

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Pétur Gunnlaugsson ætla því miður ekki í framboð fyrir Lýðræðisvaktina.  það hefði verið fengur að hafa hann á Alþingi. Ekki veit ég samt hvort hann eigi mikla samleið með Þorvaldi Gylfasyni. Held þeir hafi gert kosningasáttmála um þetta eina mál sem er stjórnarskrá stjórnlagaráðs.   Að öðru leyti eiga þeir fátt sameiginlegt. Þorvaldur er hægrikrati sem vill ekki neinar stjórnkerfisbreytingar meðan Pétur talar oft eins og stækur anarkisti.  En ef hér væru persónukosningar þá myndi ég kjósa þá báða eins og ég gerði í kosningunum til stjórnlagaþings.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.2.2013 kl. 23:09

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvaðan hefurðu þessa frétt þína hér af Pétri, Jóhannes?

Er flótti brostinn í liðið?

Endilega láttu engan fæla þig frá því að blogga, Sæmundur. Þú gerir það ekki í stuttum upphrópunarsetningum né án rökræðu. Fáirðu aðkast, er það óverðskuldað.

Jón Valur Jensson, 28.2.2013 kl. 23:24

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Pétur fær mörg tækifæri á Sögu til að láta ljós sitt skína. Held að hlustunin sé talsverð. Er ekki farinn að spekúlera mikið í komandi kosningum en sýnist Lýðræðisvaktin og Píratapartíið eiga möguleika, þó bæði nöfnin séu hálfmisheppnuð. Vil þó sjá hvernig framboðslistarnir líta út og hvernig málum reiðir af á alþingi áður en ég ákveð nokkuð.

Sæmundur Bjarnason, 28.2.2013 kl. 23:27

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Pétur sagði þetta sjálfur Jón Valur.  Hann sagðist vera í þessum flokki en ekki í framboði.  Ætli hann og Arnþrúður, meti það ekki sem svo, að hann verði að meira gagni sem þáttagerðamaður á Sögu heldur en málaliði út í bæ án raddar Útvarps Sögu.  Ef það er raunin þá er erfitt að vera ósammála því.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.2.2013 kl. 23:46

7 identicon

Ekki kann maður við hvað framsóknarmenn eru þegjandalegir um nýliðna fortíð og hvort við eigum nokkuð von á sömu sjóðasukkurunum í lykilstöður og áður.

Þetta er þó hálfu verra hjá Sjálfstæðisflokki  sem ekki aðeins hefur forsómað algerlega að viðurkenna ábyrgð á hruninu heldur hitt að hann boðar um margt sömu aðferðir og fram að hruni.   Hannes Hólmsteinn gengur td. enn þá laus og er meira að segja kominn með nokkur klón í umræðunni.

Annars fara þeir nú að senda Hannes í frí að venju svona fyrir kosningarnar á meðan Bjarni reynir að faðma kosningaloforð Framsóknar og hugmyndir þær sem Lilja Mósesdóttir hefur barist fyrir.

Þetta með að taka ekki ábyrgð á hruninu og að telja að það hafi komið að utan. Þar mættu menn hugsa um vísuna hanns Páls Vídalíns.

Forlög koma ofan að,
örlög kringum sveima.
Álög koma úr ýmsum stað,
en ólög fæðast heima.

ps. því verður sleppt að þessu sinni að úttala sig um meint gæði fráfarandi stjórnar ;-)

Bjarni Gunnlaugu 1.3.2013 kl. 08:00

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er að langmestu leyti sammála þér og finnst það vel að orði komist hjá þér að Hannes gangi t.d. enn laus. Veit ekki hvaðan þessu Sjálfstæðisflokksfobía er komin í mig en svona er ég bara.

Sæmundur Bjarnason, 1.3.2013 kl. 08:27

9 identicon

Þetta var svo gáfulegt innlegg hjá mér (svo ég tali nú í þínum stíl) að ég ætti að sjá sóma minn í að bæta ekki við, en geri það nú samt!

Tel mig ekki haldinn sjálfstæðisfóbíu og þekki gott fólk sem vill kenna sig við þann flokk. Það er samt furðu mikið hópeðli og foringjadýrkun hjá þeim mörgum, svona miðað við að þeir vilja telja sig flokk sjálfstæðra manna. Lengst af voru þetta íhaldssamir klíkukapítalistar til mótvægis við prinsiplausan framsóknarflokk sem samanstóð af fyrirtækjum í eigu bænda sem áttu bændurna.

Um margt ágætt fyrirkomulag þrátt fyrir algert prinsippleysi þá voru öryggisventlarnir víða móti kollsteypum af hálfu ismanna sem kölluðu allt spillingu sem ekki féll nákvæmlega að þeirra hugmyndum. 

Hef grun um að þetta kerfi hafi verið svolítið eins og stjórnkerfið í Japan. Ógagnsætt og flókið en virkaði.

Má líka líkja þessu við fjölgyðistrú umburðarlyndra þjóða í fyrndinni sem máttu þola árásir annara sem höfðu einn guð og þann sín meginn.

Svo ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn að losa svolítið um og nýta sér meinta kosti frjálshyggjunnar en það fór út í veldisfall andskotans. Byrjaði rólega í fyrstu en versnaði æ meir og hraðar þar til allt hrundi.

Nú er þetta orðið svo gáfulegt hjá mér að ég er á mörkunum að skilja þetta sjálfur og reyni ekki að loka þessu á neinn hátt en hætti að spreða stafsetningarvillum og læt staðar numið!

Bjarni Gunnlaugur 1.3.2013 kl. 14:50

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Bjarni. Ég er sammála þér yfirleitt.

En ég er hissa á Moggabloggsguðunum að telja ekki athugasemdirnar rétt. Setur yfirleitt núll þar. Kannski er þetta bara svona hjá mér. Oft eru athugasemdirnar fáar. Bagalegt að segja samt ekki frá þeim.

Sæmundur Bjarnason, 1.3.2013 kl. 15:39

11 Smámynd: Jens Guð

  Það hefur verið ólag á athugasemdateljara þessa bloggkerfis í nokkrar vikur.  Fyrst plataði það mig að sjá bara 0 í athugasemdakerfinu.  Síðan uppgötvaði ég að þetta var marklaust.  Það eru stundum komnar margar athugasemdir án þess að teljarinn gefi það upp.

Jens Guð, 1.3.2013 kl. 23:19

12 identicon

Af því að þú tekur svona vel undir það Sæmundur þegar ég er að skíta út sjálfstæðismenn þá læt ég hér fljóta ljóta vísu sem datt í hug mér í einu umhverfishóstapestarkastinu sem heldur fyrir mér vöku:

Horfum við upp á tvö Hannesar klón

háskóla-Birgi og Skafta

Eru sem frummyndin endemis flón

sem aldrei þó hætta að kjafta.

Ég er augljóslega með óráði og það er ljótt af þér að taka svona jákvætt undir óráðshjalið og örfa mig þannig í því ;-)

ps. þegar sóttin elnar þá fer ég örugglega að yrkja níð um krata!

Bjarni Gunnlaugur 2.3.2013 kl. 01:58

13 identicon

"Þegar mér elnar sóttin......." átti þetta nú að vera

Bjarni Gunnlaugur 2.3.2013 kl. 02:00

14 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hef einmitt tekið eftir þessu sama Jens. Á stjórnborðinu er samt hægt að sjá hvort nýjar athugsemdir hafa borist. Vonandi kemst þetta í lag.

Vísan er ágæt Bjarni Gunnlaugur. Lærði það af Jens Guð að svara athugsemdum. Ekkert er eins frústrerandi og svarleysi.

Sæmundur Bjarnason, 2.3.2013 kl. 10:17

15 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Crome-ritillinn gerir það að verkum að lítið er að marka greinaskil og þess háttar. Sennilega er best að svara hverjum fyrir sig eins og Jens gerir. "Ekki gera eins og hún mamma þín segir, Jens". Þetta er eftirminnilega setning.

Sæmundur Bjarnason, 2.3.2013 kl. 10:20

16 Smámynd: Jens Guð

  Þegar ég byrjaði að blogga svaraði ég einungis athugasemdum með spurningum til mín.  Mér fannst eins og aðrar athugasemdir væru einskonar viðbótarblogg; framhald á minni bloggfærslu.  Fljótlega varð ég var við að fólk sem skrifaði athugasemd og fékk ekki viðbrögð frá mér hreinlega móðgaðist. 

  Ein vinkona mín var vön að hringja í mig á nokkurra daga fresti til að spjalla.  Svo hætti hún því skyndilega.  Ég saknaði símtala frá henni og hringdi í hana.  Þá sagðist hún vera móðguð út í mig.  Sakaði mig um að svara athugasemdum frá flestum öðrum en henni.  Ég upplýsti hana um að ég svaraði aðeins athugasemdum með spurningum til mín.  Það þótti henni léglegt.

  Um svipað leyti fór ég að fá sms frá kunningja mínum nokkru eftir að hann skrifaði athugasemdir.  Í sms-unum spurði hann:  "Ertu ekki búinn að sjá kommentið frá mér?"  Jú, ég sagðist hafa séð það.  Þá spurði hann hvort að ég ætlaði ekki að kommenta til baka.

  Þetta eru tvö dæmi af fleirum.  Mér lærðist að athugasemdir við bloggfærslu eru í huga margra ekki aðeins innlegg í umræðuna heldur einnig innlitskvittun.  Þetta er innlitskveðja sem jafngildir:  "Hæ,  ég las bloggfærsluna þína."

  Eftir að ég tók upp á því að svara hverri einustu athugasemd fyrir sig hefur enginn kvartað og enginn móðgast.  Jafnframt upplifi ég sjálfur nánari samskipti við þá sem skrifa athugasemdir.  

Jens Guð, 3.3.2013 kl. 00:35

17 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Jens. Mér finnst einmitt talsverð fremd í því að þú skulir lesa bloggið mitt. Ég er alveg sammála þér í sambandi við svörin við athugasemdunum.

Sæmundur Bjarnason, 3.3.2013 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband