1890 - Tvær vísur

Einu sinni gerði ég tvær ágætar vísur. Þær voru svona:

Jörmungandur japlar mélin
járnin bryður ótt og títt.
Innst í brjósti urgar vélin,
Ólmast faxið mjúkt og sítt.

Gneistar fljúga úr spyrntu spori,
splundrast jörð og rignir mold.
Endi heims á atómvori.
Eldar brenna og sekkur fold.

Þetta má útskýra á ýmsa vegu og það hef ég reynt. Ég hef líka birt þessar vísur áður á blogginu mínu. (Jafnvel tvisvar) Þori eiginlega ekki að spyrja Gúgla að því.

Verst var að ég skildi þessar vísur afar illa. Þær hafa því sennilega verið ortar í gegnum mig. En ég trúi bara alls ekki á miðla. Sér í lagi ekki þá sem miðla skoðunum og fréttum milli ólíkra heima og ýmissa tíma. Þar að auki er það skoðun fræðimanna að Jörmungandur sé alls ekki hestur heldur miðgarðsormur. En það er nú aukaatriði.

Mestu máli skiptir að vísurnar lýsa hugsanlega kjarnorkustríði og gætu sem hægast haft heilmikið spádómsgildi. Allavega eru margir áratugir síðan ég gerði þessar vísur og þær hafa verið mér minnisstæðar allar götur síðan. Og nú óttast fólk jafnvel meira mengun en kjartorkustríð. Kannski þessi draugur hafi farið tímavillt.

Lækka skatta, auka alla þjónustu og minnka útgjöld ríkisins. Þetta er í stuttu máli sagt það sem sjálfstæðismenn segjast ætla að gera auk þess að reyna að losna við illfyglisdrauginn ESB frá ströndum landsins. Hverju lofa aðrir? Það á eftir að koma í ljós. Auðvitað er ekki mikið að marka þetta og allir vita það. Líka þeir sem samþykkja. Samþykktir landsfunda eru bara samþykktir sem gerðar eru á landsfundi. Nema ef svo skyldi vilja til að einhver flokkur fengi hreinan meirihluta. Það væri meirháttar áfall, því þá þyrfti að framkvæma a.m.k. eitthvað af landsfundarsamþykktum.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna svo að láta líta svo út að allir sem samþykkja ósköpin séu með gullfiskaminni og óttalega lítið á milli eyrnanna. Það er ímynd flokkanna og reynslan af þeim sem skiptir mestu máli í kosningum. Kosningaáróðurinn skiptir afar litlu. Reynslan af þeim sem stjórnað hafa undanfarið og þeim sem gerðu það á undan þeim er ekki góð. Þessvegna er betra tækifæri núna en oftast áður til verulegra breytinga.

Tvö mál ber hæst um þessar mundir: ESB og nýja stjórnarskrá. Þó sú stjórn sem nú situr hafi ætlað sér að koma þeim málum (ásamt mörgum öðrum) í gegn á kjörtímabilinu hefur það alls ekki tekist. Verulegur meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu í ESB svo nokkuð öruggt er að ekki verður af því í bili. Aftur á móti bendir margt til að verulegar breytingar á stjórnarskránni njóti talsverðs fylgis. Hvernig alþingi afgreiðir það mál kann að hafa verulega þýðingu fyrir smáflokka þá sem risið hafa upp að undanförnu. Þessvegna má gera ráð fyrir að það verði fyrst eftir þinglok sem sjáist sæmilega í skoðanakönnunum hvernig atkvæðin skiptast á milli þeirra. Engar líkur eru til að óánægja ýmissa hópa í þjóðfélaginu nái lengra en til kosninganna í apríl.

Þetta er yfirdrifinn skammtur af stjórnmálum í bili. Þeir sem þurfa meira verða bara að leita að því annarsstaðar.

IMG 2587Lúkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Já þetta eru fínar vísur. Mikill kraftur í þeim.  En hvaða lúkar er þetta sem myndin er tekin í? Er þetta í skútu?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.2.2013 kl. 03:48

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sennilega er þetta lúkar á togara. Myndin er tekin á sjóminjasafninu í Víkinni á Grandagarði.

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2013 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband