1886 - Að ná árangri

Hvernig fer ég að því að passa að tölurnar yfir bloggin séu oftast réttar? Yfirleitt geri ég það svona: Þegar ég er búinn að setja upp mitt síðasta blogg séra (share) ég það svo tilkynning um það birtist á fésbókinni síðan loka ég vafranum og fer í Word-bloggskjalið mitt og bæti einum við töluna sem þar er og þurrka út það sem ég var að setja inn. Stundum byrja ég svo strax á næsta bloggi en ekki alltaf.

Með tilliti til vantrauststillögu Þórs Saaris sem sagt var frá í fréttum í kvöld (miðvikudag) má segja að líkur aukist á því að tíðinda sé að vænta frá alþingi og e.t.v. ríkisstjórninni um næstu helgi. Annars er stjórnmálaástandið svo skrýtið núna þessa dagana að ég er að hugsa um að tjá mig ekkert frekar um það.

Með einsýni er hægt að ná árangri, en hvað er árangur? Er það árangur að vera getið í fjölmiðlum? Er það árangur að skara framúr í einhverri íþróttagrein þó hún sé stunduð af fáum? Er það árangur að skara framúr í skóla þó manni þyki hann óhemju vitlaus? Er það árangur að eiga marga vini og hugsa meira um þeirra hag en sinn eigin? Er það árangur að verða gamall? Er það árangur að eignast börn og barnabörn? Er það árangur að missa ekki vitið? Og er það einsýni að vanrækja allt nema eitthvað ákveðið atriði og einblína á það? Þetta eru spurningar sem hver og einn verður að svara fyrir sig.

Flestir reyna að ná árangri á sem flestum sviðum og að skilgreina svo sviðin eftir þörfum. Síðasti árangur flestra er dauðinn sjálfur.

Er árangur stjórnvalda fólginn í því að sjá til þess að ekki verði gerð uppreinsn? Halda dauðhaldi í völd sín og reyna að auka þau? Er það árangur að láta stjórn hanga út kjörtímabil þó auðséð sé að hún valdi meiri skaða en gagni? Er það árangur hjá stjórnarandstöðu að tefja mál sem mest og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að mál, sem stjórnin leggur mikla áherslu á að koma í gegn, geri það?

Nú er ég loksins búinn að lesa Stephen King bókina „Under the Dome“ í kyndlinum mínum. Man að ég las fyrir löngu bók eftir hann sem heitir „The Stand“. Þessar bækur eru hnausþykkar og ekki auðvelt að pæla í gegnum þær því hann skrifar dálítið einkennilegan stíl og notar mikið af sjaldgæfum orðum. Hugsunin í þeim er frumleg og tæknilegar lýsingar hans á ýmsu sem fyrir kemur eru stundum örlítið vafasamar en samt alls ekki út í loftið. Hann er alltaf áhugverður þó hann sé oft óþægilega margorður um suma hluti. Bók þessa fékk ég á sérstöku kynningarverði sem mig minnir að hafi verið 1 eða 2 dollarar. Venjulegt verð á þessari bók er $ 14,56.

IMG 2592Inngangur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

(Athugasemd með auglýsingatengli fjarlægð af umsjónarmönnum.)

Ásgeir 21.2.2013 kl. 13:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ásgeir, það er ósiður að vera að drita ómerkilegum linkum svona útum allt án þess að hafa nokkuð að segja. Eiginlega á slík hegðun betur heima á fésbókinni, finnst mér.

Sæmundur Bjarnason, 22.2.2013 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband