1883 - Næsta hrun

Ekki réði Moggabloggið við arabiskuna (sem var bara örfáar línur hjá mér) heldur þýddi hana á eitthvað óskiljanleg og óralangt hrognamál, sem kannski er hægt að þýða á arabisku aftur, en sleppum því. Hinsvegar kom myndin af loftsteininum (þó stolin væri) fram á réttum stað.

Næsta hruni er spáð svona um 2016 eða 2017. Verði varlega farið verður það hrun kannski fyrst og fremst gengisfelling. (Líklega hrikaleg, en ekki almennt bankagjaldþrot.) A.m.k. reikna ég ekki með að reynt verði í alvöru að afnema gjaldeyrishöftin fyrr en þá eða seinna. Líklega verður verðtryggingunni líka breytt eitthvað um það leyti, en örugglega ekki afnumin. Lífeyrissjóðirnir gætu líka orðið að alvörufyrirtækjum um líkt leyti. 

Já, ég er strax farinn að gera ráð fyrir Sjálfstæðisflokknum í stjórn á næsta kjörtímabili. Allt þetta gæti svosem skeð í lok þess. Sérframboðin eru að verða of mörg og fjórflokkurinn fitnar á fjósbitanum. Samt held ég að hann fái ekki jafnmikið fylgi og hann er vanur.

Les orðið fátt annað en bækur sem eru í kyndlinum mínum. Er með afbrigðum seinlesinn. (Les semsagt hægt - hef aldrei getað tamið mér hraðlestur og öfunda þá sem það geta) Jónas Kristjánsson er þó alltaf læsilegur. Talar um skynsama afsögn. Það finnst mér rangt. Afsagnir eru hvorki skynsamar né vitlausar. Skynsamlegar geta þær samt verið. Á því er munur. Annars skrifar Jónas langmest um stjórnmál. Og svo auðvitað um veitingahús og hesta. Finnst að hann ætti að blogga um fleira.

Kemur ekki á óvart að um 2500 Íslendingar hafi lækað á fésbókinni á stuttum tíma einhverja bölvaða vitleysu eins og sagt var frá í vefmiðli. Að mínu áliti er það einn stærsti gallinn við fésbókina hve margir klikka þar á næstum allt sem hægt er að klikka á og hanga þar tímunum saman og lesa, skoða og áframsenda einhverja tóma þvælu. Þetta er þeim mun verra sem þessi miðill er mjög vel gerður og gæti verið flestum til mikils gagns. Kannski er þetta þó það sem auglýsendur treysta á og mesti styrkur hans í raun. Engum vafa er bundið að honum er vel sinnt og margir nota hann skynsamlega, mjög lítið eða jafnvel hreint ekki neitt.

Gaman væri að vita hve umfangsmikil stjórnun vefsins er, bæði hér heima og á alþjóðavisu. Pólitísk rétthugsun telur hann ræna notendur persónuleikanum og gera allt og alla að söluvöru. Þeim er sennilega flestum alveg sama um það. Sem tímaþjófur og ruslakista er hann þó verri og ber að varast mjög.

Bjarni Benediktsson vill fara eftir samþykktum landsfundar Sjálfstæðisflokksins jafnvel þó hann sé á móti þeim sjálfur. Það hafa formenn Sjálfstæðisflokksins ekki gert hingað til. T.d. vill Bjarni helst af öllu ganga í ESB, það vita allir. Nú er hann að reyna að búa svo um hnútana að samþykkt verði á landsfundinum að taka upp nýja mynt einhvertíma í framtíðinni. Sennilega til þess að hægt verði að túlka það þannig að hugsanlegt sé að ganga í ESB eins og allmargir sjálfstæðismenn vilja. Annars er lítið að marka stjórnmálalega spádóma hjá mér þó auðvelt sé að búa slíkt til.

IMG 2573Sjóræningi í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Varðandi arabískuna Sæmi, þá er ekki við Moggabloggið að sakast. Hvernig útlent letur birtist í vafranum þínum fer algerlega eftir hvaða stafagerð þú ert að nota. Character encoding heitir þetta á máli vefhönnuða.  Einnig er þetta mismunandi milli stýrikerfa. Í Windows þá notum við Íslendingar Western eða Unicode sem sjálfgefna stafagerð.  Þessu er hægt að breyta í öllum vöfrum og hefur ekkert með leturfontinn að gera.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.2.2013 kl. 15:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég vissi ýmislegt um stafatöflur og þess háttar í kringum 1990 en hef ekki nennt að uppdeita það undanfarið.(Og ekki þurft.)

Í Chrome vafranum mínum leit þetta út eins og arabiska en var aflagað af ritlinum sem Moggabloggið (eða Chrome - notaði áður Explorer og þar áður Netscape)notar. Hann er ekki WYSIWYG sýnist mér. Annars er þetta minnsta málið í blogginu hjá mér og ég hef ekki mikinn áhuga á þessu lengur.

Sæmundur Bjarnason, 18.2.2013 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband