1861 - Einhenti kennarinn

Rosalega er ég iðinn við að blogga. Set upp á Moggabloggið eitthvað skrifelsi svotil á hverjum degi og hef gert það heillengi. Merkilegt að ég skuli ekki vera hættur þessu fyrir löngu. Fór áðan út að ganga og hitti m.a. Litháa einn sem endilega vildi tala við mig. Ekki fatta ég af hverju. Hann sagðist vera listamaður og eiga heima að Lundi 3 og vildi endilega æfa sig í að tala íslensku. Gat samt alveg bjargað sér á ensku. Furðugóður samt í íslensku líka. Skil ekki af hverju útlendingar vilja leggja það á sig að læra íslensku. Ekki langar mig að læra grænlensku.

Einu sinni stundaði ég það að heimsækja fornbókasalana í bænum. Þeir voru á þeim tíma a.m.k. svona fjórir til sex. Bestir voru samt þeir í Kolasundinu og á Laufásveginum. Í Kolasundinu keypti ég gjarnan klámblöð sem þar fengust daginn eftir að Gullfoss kom til Reykjavíkur. Á Laufásveginum keypti ég oft úrvalsbókmenntir í vasabroti. Þar sá ég líka eitt sinn Jónas Svafár. Hann var að selja fáeinar bækur þar. Bóksalinn tók honum vel og var greinilega hlýtt til hans. Ég hef alltaf álitið Jónas eitt af okkar allra fremstu og frumlegustu ljóðskáldum (hinir væru þá Steinn Steinarr og Dagur Sigurðarson)

Mikið er nú rætt um einhenta kennarann á Ísafirði. Einu sinni mátti það ekki. Man vel eftir því máli. Vorkenndi Jónasi Kristjánssyni að þurfa að segja af sér sem ritstjóri vegna þess. Þá var til siðs að tala illa (helst mjög illa) um DV og ritstjóraræflana þar. Minnir að það hafi verið Mikael Torfason (Geirmundssonar) sem þurfti að segja af sér sem ritstjóri ásamt Jónasi. Meðferðin sem þeir og blaðið fengu var hræðileg. Samt treysti ég mér ekki til að mæla þeim bót þá. Mundi kannski gera það núna.

Í því sambandi dettur mér í hug Ögmundur með Internetlásinn, sem Steingrímur hengdi á hann. Það ber vott um mikla heimsku að láta sér detta í hug að stjórna því hvað skrifað er á netið. Sennilega eru VG-liðar búnir að vera. Steingrímur Jóhann talaði að mig minnir um netlöggu fyrir síðustu kosningar. Ömmi vill ekki vera minni maður en hann.

Þó ég hafi í mörg ár verið trúr Moggablogginu mundi ég færa mig ef ég gæti sett allar þær reglur sem mér sýnist og fengið fullkomna þjónustu varðandi bloggið mitt. Ég er frekar óhress með það hve litla áherslu mbl.is leggur á bloggið núorðið. Virðist jafnvel reyna að fela það sem mest. Það getur vel verið að ég grípi til þess ráðs að linka í fréttir um leið og ég set upp blogg. Þetta virðast sumir gera. Auðvitað er ekki ætlast til þess, en er eftirlitið svo öruggt að ekki megi prófa?

IMG 2413Stólar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband