1745 - Eðlisávísun dýra

Það er hefðbundin vanahugsun hjá okkur tvífætlingunum sem teljum okkur vera hátind sköpunarinnar að dýrin séu heimsk og skilningslaus. Að á bak við greindarlegt augnaráðið leynist hreint ekki neitt. Að allt sem bendir til skynsemi sé bara eðlisávísun eins og tíðkast að kalla það. Öll kunnum við samt sögur af lygilegri greind hunda, katta og ýmissa annarra dýra. Apar koma okkur oft á óvart fyrir ótrúlega skynsemi sína.

Jú, jú það er líklegt að við mennirnir séum toppurinn á landdýrunum. Kannski hvalirnir séu á sama hátt toppurinn á sjávardýrunum. Við vitum fjarskalega lítið um það.

Sú áhersla sem víða er lögð á skynsemi sjávarspendýra er ekki á neinn hátt einkennileg. Skynsemi margra þeirra dýra sem við drepum til átu er heldur ekki hægt að draga í efa. Kannski eru kjúklingar frekar vitlausir, en það er þá mest vegna þess að við gefum þeim ekki tækifæri til neins annars. Vissulega étum við hér á Vesturlöndum hvorki hunda né ketti en engin ástæða er til að ætla að ekkert vit sé hjá ýmsum öðrum dýrategundum sem við þó étum. Þegar útlendir ferðamenn panta sér hvalkjöt hér á veitingastöðum getur vel verið að það sé gert með svipuðu hugarfari og okkar mundi vera ef við pöntuðum okkur hundakjöt á veitingastað í Austurlöndum.

Las nýlega frásögn manns sem fylgst hafði með hópi af fjallagórillum í Rúanda í Afríku. Það sem kom honum mest á óvart var að þeir virtust hvorki hræðast mennina né hafa á þeim sérstakan áhuga. Óhugnanlega sterkir eru aparnir einnig. Japanskur ferðamaður vildi gæla við apabarn sem kom til hans, en fullorðinn api kom og tók barnið af honum og henti ferðamanninum upp í tré og fótbraut hann. Górillur þessar eru sagðar í útrýmingarhættu og kannski er það rétt. Mannkynið þolir illa samkeppni.

Harpa Hreinsdóttir heldur áfram umfjöllun sinni um rafbækur. Rétt er að ítreka linkinn á blogg hennar: http://harpa.blogg.is/ Lokaorð hennar í pistli dagsins eru:

 við óbreyttar aðstæður munu stórlesendur sem eiga lesbretti eða lesa í símum og spjaldtölvum lesa æ meir á erlendum málum og æ minna á íslensku. Og þessi þróun er mjög hröð.

Þessi  orð hennar vil ég gjarnan gera að mínum og leggja þunga áherslu á þau.

Haustmyrkrið yfir oss. Þessi klausa kom óforvarendis yfir mig og mér fannst þetta vera nafn á bók eða eitthvað þess háttar. Ekki vill Gúgli samþykkja það, en orðið hauströkkur notað á svipaðan hátt virðist mér vera nafn á ljóðabók eftir Snorra Hjartarson. Sel það samt ekki dýrara en ég keypti það. Mér finnst vera munur á myrkri og rökkri. Næturnar eru ótrúlega dimmar um þessar mundir eftir alla birtuna og sólskinið í sumar. Kannski er of snemmt að vera að tala um haust því gróður allur er enn á fullri ferð. Það er ekki fyrr en haustlitir koma á lauf trjánna sem mér finnst hægt að tala um raunverulegt haust.

Hrunið (með stórum staf) er í þann veginn að verða hluti af hinu daglega pólitíska þvargi. Auðvitað er það ekki með öllu sanngjarnt, en líklega óhjákvæmilegt. Sumir bloggarar blogga bara um hruntengd eða pólitísk fréttamálefni og það er heldur ekki sanngjarnt að álasa þeim fyrir það. Eflaust hafa þeir ýmis önnur áhugamál en finnst samt rétt að láta til sín taka um slík málefni. Það eru líka mjög margir sem áhuga hafa á að fylgjast sem best með þvíumlíku.

Nú virðist þurfa 83 vikuinnlit til að komast á 400 listann hjá Moggablogginu. Það virðist semsagt vera eitthvað að hressast. Ekki held ég að það sé pólitíkin hjá Sjálfstæðisflokknum sem veldur þessum auknu vinsældum heldur hljóti það að vera eitthvað annað. En hvað? Óvinsældir ríkisstjórnarinnar? Auknar óvinsældir fésbókarinnar? (Eru þær annars að aukast?) Engar breytingar hef ég orðið var við hjá Moggablogginu sjálfu. Hef ekki fylgst með vinsældum mbl.is eða hvernig link á Moggabloggið er fyrirkomið þar. Allt getur haft áhrif.

Um daginn var ég byrjaður á mikilli frásögn af Tintronferð en hætti við hana vegna þess að ég hafði skrifað um hana áður. Þessi frásögn er sífellt að flækjast fyrir mér í blogg-skjalinu mínu svo ég er að hugsa um að senda hana núna á bloggið. Þeir sem ekki hafa áhuga eru hér með varaðir við. Ekkert er aftan við þessa frásögn.

Förinni var heitið í hellinn Tintron sem mun vera í námunda við Laugarvatn. Líklega á Lyngdalsheiðinni. Við fórum á allstórum og myndarlegum bíl sem svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurlandi átti. En þar var Bjössi meðal innstu koppa í búri.

Þegar við vorum komnir í námunda við Selfoss hringir síminn hjá Bjössa. Farsímar voru afar sjaldgæfir á þessum tíma og gott ef síminn tilheyrði ekki bílnum. Verið var að biðja björgunarsveitir á Suðurlandi um að hjálpa lögreglunni að svipast um eftir veiðimanni sem fallið hafði í Sogið og óttast var að farið hefði sér að voða þar. Boðin voru látin ganga áfram til björgunarsveitarinnar á Selfossi því þetta var á hennar svæði. En þar sem þetta var alveg í leiðinni hjá okkur var ákveðið að við mundum a.m.k. ræða við lögregluna.

Þegar við nálguðumst Sogsbrúna sáum við litla flugvél sem flaug yfir Sogið. Vafalaust hefur hún verið að svipast um eftir týnda veiðimanninum. Þegar við fórum uppeftir Þingvallaafleggjaranum komum við auga á lögregluþjóna og bíl við ána. Við ákváðum að fara til þeirra en fórum fyrst á rangan sumarbústaðaafleggjara en leiðréttum það í snatri.

Lögregluþjónarnir voru búnir að koma auga á þúst úti á grynningum í ánni sem vel gæti verið líkið af veiðimanninum. Nokkrir af björgunarsveitarmönnunum ákváðu að ösla útað þessari þúst og tóku þeir líkpoka með sér. Sennilega er lögreglan alltaf með slíkt í bílunum hjá sér. Þessir pokar eru úr þykku plasti og nauðalíkir gamaldags svefnpokum.

Öslunin útað þústinni gekk vel enda var áin mjög grunn við landið þarna megin. Þetta reyndist vera líkið af veiðimanninum og var það sett í pokann og skutlað í lögreglubílinn. Man að ég var svolítið ósáttur við þessar aðfarir, því ég hef alltaf borið vissa virðingu fyrir dauðanum.

Þegar verið var að sækja líkið sást til björgunarsveitarinnar frá Selfossi þar sem hún kom upp eftir ánni í bát. Þeir höfðu semsagt brugðist mjög fljótt við en við Hvergerðingarnir höfðum samt verið á undan. Þeir Hvergersku voru nokkuð ánægðir með það. Auðvitað höfðu þeir haft talsvert forskot.

Síðan var haldið áfram áleiðis að Tintron. Á leiðinni þangað skriðum við eftir helli einum sem ég man ekki nafnið á. Sá lá þó undir veginn sem við fórum eftir. Ætli það hafi ekki verið gamli Lyngdalsheiðarvegurinn. Svo var haldið áfram að Tintron. Okkur gekk vel að finna hann þó enginn okkar hefði farið í hann áður.

Nafnið Tintron er sérkennilegt og ekki veit ég með neinni vissu hvað það þýðir. Björgunarsveit þeirra Grímsnesinga heitir einnig Tintron, að ég held. Hellir þessi er um margt líkur hellinum fræga við Þríhnjúka en bara miklu minni. Hann hefur líklega orðið til með svipuðum hætti. Efst er semsagt lítið gat en síðan vikkar hann mjög og endar í grjóthrúgu. Tintron er ekki nema um 10 metra djúpur en Þríhnjúkahellirinn miklu dýpri.

IMG 1361Veit ekki hvaða jurt þetta er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er mannkynið ekki á góðri leið með að útrýma sjálfu sér... rétt eins og krabbameins frumur/sníkjudýr/bakteríur og vírusar sem eyða hýsli..

DoctorE 23.8.2012 kl. 15:25

2 identicon

Alltaf er DoctorE jafn fallega bjartsýnn. Jurtin sýnist mér geta verið blóðkollur.

Ellismellur 23.8.2012 kl. 16:13

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason


Bjartsýnin er bölvun hans.
Blimskakkar nú augum.
Allt fer brátt til andskotans
og Elli- - fer á taugum.

SB

Sæmundur Bjarnason, 23.8.2012 kl. 16:50

4 identicon

Hugsa að það hafi verið Stelpuhellir sem þið skriðuð eftir ...

Harpa Hreinsdóttir 23.8.2012 kl. 18:24

5 identicon

Man eftir sögunni um hundana tvo sem voru að tala um hvað þeir væru búnir að þjálfa eigendur sína vel.

"Ef ég kem með spýtu til hans" sagði annar hundurinn "Þá hendir hann henni alltaf í burtu"

"Já minn gerir þetta líkr" sagði hinn "Ég held samt að hann sé nú frekar heimskur greyið. Alltaf þegar ég er búinn að skíta, kemur hann og stelur skítnum"

Benni 23.8.2012 kl. 18:40

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Harpa, þetta gæti vel verið rétt og líka verið skýring á því hversvegna ég hef gleymt nafninu!!

Benni, þetta er ágæt saga og sýnir vel að það getur skipt mestu máli úr hvaða átt er horft á málin.

Sæmundur Bjarnason, 23.8.2012 kl. 19:34

7 identicon

Enga óþarfa bjartsýni Ellismellur :)


DoctorE 24.8.2012 kl. 07:50

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Tilgangslausar veiðar eru morð. Umgengni okkar við dýrin sýnir mennsku okkar.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2012 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband