1709 - Sólskinsdagur

Untitled Scanned 20Gamla myndin.
Fjallkonan á pallinum.

Jú jú, það er búið að henda hingað tveimur bláum ruslatunnum. Sögusagnir herma að í þær eigi bara að setja pappír. Ekki hefur tilvist þeirra verið útskýrð fyrir okkur á neinn hátt og við erum að eigin frumkvæði tekin til við að skola mjólkurfernur baki brotnu allan liðlangan daginn. Lærðum það nefnilega á Akranesi um daginn og það virðist vera allra meina bót. Hvernig annar pappír verður aðgengilegri til endurvinnslu við það er mér reyndar hulin ráðgáta, en það hlýtur samt að vera.

Nú eru forsetakosningarnar alveg að bresta á. Samkvæmt fréttum virðast allir gera ráð fyrir að ÓRG vinni sigur í þeim og mér er svosem sama. Ekki ætla ég samt að kjósa hann. Þó finnst mér leiðinlegt að þurfa á gamals aldri að hætta að kjósa sigurvegara. Reyni bara að telja sjálfum mér trú um mikilvægisleysi þessara kosninga og að Grímsson grís fái minna en  helming greiddra atkvæða.

Það getur vel verið að Ríkharður Vakur sé vakur. Mér finnst samt óþarfi hjá honum að vera sífellt að flækjast á fésbókarsíðunni minni. Reyndar er það kannski óvinurinn sjálfur sem stendur fyrir þessu. Ég á við að fésbókin geri þetta að eigin frumkvæði. Hún er eiginlega farin að taka á sig mynd undirheimakóngsins sjálfs í huga mínum og væri vís til að fara að halda fram allskyns vitleysu um mig. Öppin vilja gjarnan fá að senda póst út um víðan völl í mínu nafni. Hvað veit ég nema í þeim pósti sé tómur óhróður um mig.

Sennilega ímyndum við okkur öll að við eigum bók einhversstaðar inni í höfðinu á okkur. Ég er eiginlega búinn að gefast upp á að leita að henni. Verð líklega að láta bloggið duga. Það getur vel verið að það sé nóg. Byrjar a.m.k. á bé-i. Þó ég fyndi helvítið er ekki víst að mér ynnist tími til að koma henni á blað. Gott ef blöð eru líka ekki að verða úrelt í þessu sambandi.

Er að hugsa um að stofna „Kindle fire félagið“ en þori ekki að minnast á slíkt á fésbókinni. Þar gætu mín vegna verið 18 slík félög fyrir án þess að ég vissi. Áreiðanlega eru engin slík á Moggablogginu og ég hef ekki orðið var við að neinn af mínum bloggvinum þar skrifi um slíkt apparat. Ég geri það nú samt og skammast mín ekkert fyrir. Þessi litla og yfirlæsislausa vél hefur gjörbreytt lestrarvenjum mínum. Og þó það sé kannski ekki til batnaðar þá held ég að lestur allur sé óðum að breytast þessa mánuðina og árin og hugsanlega er Bókin með stóru bé-i (búin til úr dauðum trjám) um það bil að missa tök sín á Íslendingum.

IMG 0956Hani. – Mynd eftir Tinnu Alexöndru Sóleyju Bjarnadóttur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Yndislega laugin okkar, þar sem ég nánast aldist upp í!

Kalli 29.6.2012 kl. 18:55

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Kalli. Sundlaugin í Laugaskarði er engu lík.

Sæmundur Bjarnason, 29.6.2012 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband