1680 - Stillnoct

x11Gamla myndin.
Þetta sýnast mér vera þeir Jósef Skaftason, Jóhannes Finnur Skaftason og Jóhann Ragnarsson á Grund. Myndin er líklega tekin einhversstaðr nálægt Ingólfsfjalli.

Úr því ég er snarvaknaður þýðir víst ekkert annað en taka hálfa svefntöflu (stillnoct) til að sofna aftur. Auðvitað er ég bæði að venja sjálfan mig og líkamann á þennan ósið með þessu og þar auki að auka gróða samviskulauss og stórhættulegs alþjóðafyrirtækis en fram hjá því verður ekki horft að bévítans töflurnar hafa áhrif. Maður finnur alveg hvernig maður sekkur í meðvitundarleysið með hjálp þeirra og meðan maður gætir þess að stækka ekki skammtinn og venja sig á að nota þetta hverja einustu nótt ætti öllu að vera óhætt.

Ég er að mestu sammála Jónasi Kristjánssyni um að stjórnmálamenn þeir sem stóðu að Hruninu eigi allir að víkja. Allir sem einn. Hver einn og einasti. Það er lengi hægt að deila um sekt hvers og eins en ekki verður hjá því komist að viðurkenna að þetta gerðist á þeirra vakt. Best er að hreinsa alveg út og losa sig við þessi ósköp. Hægt var að fallast með semingi á að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann yrðu áfram til að tryggja lágmarkskunnáttu í stjórnarstörfum og starfsháttum alþingis. Nú er tími þeirra hins vegar á þrotum og engin ástæða til að þau eða aðrir sem tilheyra samskonar stjórnmálaheimspeki verði við völd áfram.

Svo sannarlega er Ólafur Ragnar Grímsson þar með talinn. Forsetaskriflið sem auglýsti útrásarskrílinn þindarlaust meðan þeir sem þar fóru fremstir í flokki þóttust vera snillingar á heimsmælikvarða. Þó ekki væri nema fyrir það eitt er augljóst að hans tími er liðinn. Óþarfi er að skammast sín fyrir að láta hefnigirnina ná tökum á sér í komandi forsetakosningum. Þjóðin hefur hingað til verið sæmilega heppin með forseta sína og þó rétt sé að víkja Ólafi til hliðar núna má vel muna að hann nýtti embættið nokkuð vel undir lokin og breytti því. Þóra Arnórsdóttir virðist ekki vera slæmur kostur í staðinn, en þó er hún að mestu óreynd. Það er ágætt og engin ástæða til að ætla annað en hún standi sig vel.

Nú er komið sumar og enn halda þingmenn áfram að rífast. Best væri að mínu áliti að læsa þá inni í Alþingishúsinu og hleypa þeim ekki út fyrr en í haust. Ef þeir verða ekki allir rifnir í tætlur þegar þangað er komið er kannski von að einhverjir væru nothæfir til undaneldis ef ekki vill betur

Kannski væri bara best að henda þessum hugleiðingum á Moggabloggið núna strax og vera þar með laus við þessar hættulegu hugsanir og snúa sér alfarið að hinu hættulega stillnocti.

IMG 8294Fjallakofinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú nefnir þarna stillnoct,ég notaði þetta í um 10,ár en ákvað fyrir 4,árum að hætta á þessu og það tókst,á einum mánuði og hvílíkur léttir.Skapbetri og allur léttari á andan,skora á þig að prufa. Oftast fær maður þetta lyf sem tímabundna lausn,en því miður að þá vilja sumir ánetjast sem og ég gerði,en tókst að komast útúr. Mataræði skiptir miklu máli gagnvart því að þurfa ekki að nota þetta svefnlyf.Minnka alla koffeindrykkju til dæmis og ekki borða eftir átta á kvöldin,sem dæmi.Og hreyfing (göngutúrar)kemur sterk inní einnig,það er hægt að losa sig við þennan viðbjóð sem Stillnoct er.

Númi 31.5.2012 kl. 09:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Stillnoct er eflaust varasamt. Át á kvöldin er það líklega líka. Hef meiri áhyggjur af því. Hef nefnilega oft besta lyst á kvöldin. Ætti sennilega að reyna að hætta því.

Sæmundur Bjarnason, 31.5.2012 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband