1674 - Alþingi og ÓRG

030Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Á leið í útivist. Hugsanlega er það Árni Reynisson sem er fánaberi þarna og á eftir honum gætu verið Birgir Marínósson, Arngrímur Arngrímsson og Jón Eðvald Alfreðsson. Annars eru menn heldur kuldalegir þarna.

Oft er ég nokkuð ánægður með það sem ég set á bloggið mitt. Enda er það eins gott. Nokkrum sinnum hef ég samt verið hundóánægður með það. Sem betur fer hafa lesendur orðið fáir í þau skipti. Á margan hátt er ég nokkuð ánægður með það sem ég var að enda við að setja þangað núna.

Sem betur fer hef ég lítið lent í því að kommentakerfið mitt hafi verið tekið yfir af einhverjum sem þykir óskaplega gaman að rífast. Það hef ég þó séð hjá öðrum í einhverjum mæli. Hugsanlega hefur það samt minnkað í seinni tíð. Kannski eru rifrildisseggirnir allir farnir á fésbókina. Þar geta menn rifist eins og rófulausir hundar án þess að nokkur taki eftir því. Sumir vilja líka umfram allt lesa slík skrif og gera það líklega og eru því hættir að hanga á blogginu.

Því vil ég spyrja:

1.      Er bloggið að hreinsast?

2.      Er hættulegt að vera með vinstrisinnaðar skoðanir hér á sjálfu Moggablogginu?

3.      Er bloggrúnturinn að breytast hjá mörgum?

4.      Hvernig er best að fylgjast með þeim sem maður vill þó fylgjast með?

5.      Er best að nota fésbókina til að fylgjast með ættingum og skyldmennum?

Kannski eru þessar spurningar litaðar af því sem mér sjálfum finnst. Við því er lítið að gera. Kannski velti ég þessum málum alltof mikið fyrir mér og e.t.v. er bara best að haga sér eins og manni dettur í hug í það og það skiptið.

Það er fyrst og fremst asnaskapur hjá þingmönnum að láta svona í sambandi við málþófið. Meðan svona er látið hrynur valdið frá þinginu, þessari gömlu og virðulegu stofnun. Það eru fyrst og frems stjórnvöld (mismunandi heimsk) og forsetaembættið sem tína upp molana sem þingið kastar frá sér. Jóhönnu og Steingrími hefur mistekist með öllu að gera sig gildandi. Þau virðast enn halda að valdið sé hjá þinginu. Svo er bara alls ekki. Vald fjölmiðla og kjaftæðisins á netinu er allt of mikið. Alþingi þarf að endurreisa. Forseti þingsins og formenn stjórnmálaflokkanna geta það, en vilja ekki. Getur verið að þau hafi einhverja hagsmuni af niðurlægingu þess? Eða skilja þau alls ekki eðli málsins?

Ég verð að álíta Ólaf Ragnar Grímsson vera fulltrúa gamla tímans í komandi forsetakosningum. Er gamli tíminn verri en sá nýji? Ekki endilega, en með því að hleypa ekki því nýja að er verið að tryggja stöðnun. Flokkspólitík ræður alls ekki öllu í forsetakosningum. Heldur ekki hvað búið er að gerast undanfarin ár. Horfa skal fram á veginn og ímynda sér að hlutirnir fari batnandi. Breytingarnar sem ÓRG er búinn að gera á forsetaembættinu fara ekkert, en hann gæti þvælst fyrir ef hann vill stjórna öllu.

Sagt er að giftir karlar lifi lengur en þeir ógiftu. Þessu get ég vel trúað. En hvað með giftar konur? Getur verið að þær lifi líka lengur? Mínar rannsóknir benda til að ungt fólk lifi lengur en það sem gamalt er. Samt má reikna með að það drepist á endanum. Frásagnir af öllum þessum rannsóknum þreyta mig. Aldrei fær maður að vita allt sem máli skiptir. Nýjasta forsetakosningakönnunin skilst mér t.d. að hafi verið þeim annmarka háð að aðeins fólk á aldrinum 18 – 67 ára var spurt. Hvers eigum við gamlingjarnir að gjalda?

Einu sinni á sjöunda áratugnum fórum við Hvergerðingarnir til Hafnarfjarðar til að keppa í fótbolta. Ég var í makinu í fyrri hálfleik. Eftir hann var staðan 8:0 Hafnfirðingum í vil. Þá var Sigurjón Skúlason settur í markið fyrir mig. Leikurinn tapaðist samt 14:0. Það þykir víst ekkert mikið, nú til dags. Samt er þetta áreiðanlega stærsta tap sem ég hef tekið þátt í.

IMG 0086Eins og fjólubláir draumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta með hjúskaparstöðu og lífslíkur er dálítið lífseigt. Ég hef oft séð því haldið fram að giftir karlmenn lifi að meðaltali lengur en ógiftir og að giftar konur lifi að meðaltali færri ár en ógiftar. Algengt er að fólk haldi því svo fram að ástæðan fyrir þessu sé að konur hugsi svo vel um karlana sína (sendi þá til læknis og svoleiðis) og þess vegna lifi giftir karlar lengur. En allt þetta stress við að hugsa um manninn sinn veldur því að giftar konur lifa skemur. Alveg skothelt, er það ekki?

En þetta er ekki svona einfalt. Til dæmis þarf að huga að því að eftir því sem fólk lifir lengur, þeim mun fleiri ár hefur það til þess að finna maka og gifta þig. Fólk sem deyr ungt hefur því færri ár til þess að rugla saman reytum sínum en það sem lifir lengur. Á maður kannski að vera búinn að gifta sig fyrir einhvern sérstakan aldur? Er það kannski ekki alveg að marka ef einhver giftir sig eftir 40 ára? Ætti viðmiðið vera hærra, t.d. 67 ára? Mjög margir telja að við þann áfanga sé fólk alls ekkert tölfræðilega áhugavert lengur. Mér skilst reyndar að fólk megi gifta sig allt frá því það er sjálfráða og þar til það deyr, svo lengi sem það finni einhvern sem vill giftast því. 

Þetta með að giftar konur lifi að meðaltali skemur en ógiftar held ég að komi nú ekki alltaf fram í rannsóknum og gæti verið menningartengt eða tilkomið vegna aðferðarfræðilegra krúsídúlna. Eins og við vitum þá hafa rauðhærðar konur sem eru hærri en 180 cm. marktækt hærri laun en ljóshærðar og dökkhærðar hvort sem þær eru hærri eða lægri en 180 cm. Auk þess hafa þær hærri laun en rauðhærðar konur lægri en 180 cm. VR sýndi einmitt fram á þetta í könnun sem þeir gerðu eitt sinn. Það eru t.d. ekki margir sem verða meira en 100 ára og þá er auðvelt að finna einhverja fylgni og telja (ranglega) að um orsakasambans sé að ræða. Hvað eru t.d. margar konur á Íslandi hærri en 180 cm. og rauðhærðar? Þær eru sennilega ekki margar og því þarf kannski bara eina slíka sem hefur mjög góð laun og að aðrar þeirra séu með meðallaun til þess að fá það út að rauðhærðar konur hærri en 180 cm. hafi hæstu laun kvenna.

Hafdís Rósa 19.5.2012 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband