1658 - Stjórnmálapælingar o.fl.

005Gamla myndin.
Við aðaldyrnar á Bifröst.

Nei, ég er ekki hættur að blogga. Bara farinn að minnka það mikið. Þó ég nenni þessu varla eru samt alltaf einhverjir sem lesa þetta. Segir Moggateljarinn a.m.k. og ég trúi honum alveg. Annars er farið að vora svo mikið að það er fremur klént að sitja tímunum saman ótilneyddur við tölvuræksnið. Ég er nefnilega oft talsvert lengi að semja það sem ég skrifa, þó ég vilji ekki viðurkenna það.

Á margan hátt eru stjórnmálaátök harðari núna en verið hefur. Athyglisverðast við viðbrögð Geirs Haarde við dómnum yfir sér eru orð hans um að hér áður fyrr hafi allt verið svo gott. Þá voru allir vinir og þá var hægt að möndla hlutina og gera það sem manni sýndist. Þá voru semsagt allir spillingarvinir. Erum við ekki að reyna að búa til nýtt Ísland? Þurfum við á mönnum af sauðahúsi Geirs að halda? Er ekki ráð að skipta valdastéttinni út eins og hún leggur sig? Dómurinn er áfellisdómur yfir stjórnsýslunni allri en ekki Geir einum. Allir létu á sínum tíma eins og skýrsla rannsóknarnefndarinnar væri voða fínt plagg, en svo var ekkert gert með hana. Er ekki best að hætta þessu bölvuðu pexi?

Margt bendir til þess að kjósendur muni kjósa til hægri í næstu alþingiskosningum. Eflaust stafar það mest af vonbrigðum með þá ríkisstjórn sem nú situr. Atburðir síðustu daga benda þó til þess að óhreinsaður Sjálfstæðisflokkur sé ekki góður kostur. Af skiljanlegum ástæðum eru kjósendur ekki spenntir fyrir Framsóknarflokknum. Hvað eiga kjósendur þá að gera ef þeir eru óánægðir með sitjandi ríkisstjórn. Kannski er öruggast að sitja bara heima. Kjörsókn er hvort eð er síminnkandi. Nýju framboðin er talsvert vogunarspil að kjósa. Enginn veit með vissu hvernig þróunin verður þar. Fjórflokkurinn er á flestan hátt öruggari. Hvernig stjórnarslitin ber að getur skipt gríðarlegu máli. Núverandi stjórnarflokkar gætu sem hægast rétt nokkuð úr kútnum.

Úrslit forsetakosninganna í júnílok geta einnig ráðið talsverðu. Keppnin þar virðist einkum ætla að verða milli Þóru Arnórsdóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar. Stjórnmál geta vel skipt máli þar. Þóra og Ólafur og reyndar Ari Trausti Guðmundsson einnig virðast (eða hafa einhverntíma verið) öll vera talsvert vinstrisinnuð. Kannski Herdís sé fulltrúi hægri aflanna. Nú, eða Ástþór. Ekki veit ég það. Þetta á allt eftir að koma betur í ljós. Alls ekki er öruggt að ÓRG með alla sína reynslu og nýuppgötvaða hægri hlið verði forseti áfram. Margt bendir til að forsetakosningarnar í sumar verði skemmtilegar og spennandi. Gera má ráð fyrir að sveiflan þar verði ekki með sama hætti og í næstu alþingiskosningum.

Já, það getur verið gaman að spá í stjórnmálin en það skilur samt ansi lítið eftir. Nú er ég semsagt að hugsa um að senda þetta út í eterinn og losna á þann hátt við það.

IMG 8225Nú er ég svo aldeilis hissa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Íslenski hænsnastofninn er fallegur og þegar hann lifir í frjálsu umhverfi þá dafnar hann og nýtur lífsins.

Ég var að lesa pistilinn þinn hér fyrir ofan og varð hugsi yfir honum.

Þú talar um að stjórnarflokkarnir (vinstri flokkarnir) nái að styrkja stöðu sína. Er það góður kostur eftir þetta stjórnartímabil? 

Líklegast verður mikill hægri sveifla.

Með það í huga þá vona ég að aðilar máls hvar sem þeir standa í stjórnmálalandslaginu, reyni að vinna landi og þjóð eins heilt og mögulegt er. Það væri besta gjöfin sem stjórnmálastéttin gæti gefið þjóðinni.

Þannig gætu núverandi stjórnarflokkar bætt fyrir mistök sín í þessari stjórnarsetu og fyrrverandi ráðamenn myndu þá bæta fyrir þau mistök sem voru á þeirra könnu.

Er þetta ekki góð framtíðarsýn?

Tökum íslenska hænsnastofninn til fyrirmyndar með upplag og erfðir. Sá stofn er að okkar áliti til mikillar fyrirmyndar í samanburði við önnur kyn.

Gerum íslenska þjóðarstofninn að sambærilegri fyrirmynd meðal þjóða.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 29.4.2012 kl. 14:17

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Sigurður. Ég er sammála þér með þetta. Finnst samt of margir halda að hægri stefna sé bara að fylgja Sjálfstæðisflokknum eða Framsókn í blindni. Auk þess er hægri og vinstri oft bara eins og hver og einn ákveður í það og það skiptið.

Sæmundur Bjarnason, 29.4.2012 kl. 14:45

3 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Alveg sammála þér Sæmundur. Þessi hugtök sem slík eru næstum án merkingar. Ég er t.d. jafnaðarmaður, miðjumaður, frjálslyndur maður og finn snertingu við allar stjórnmálahreyfingar að einhverju leyti. Maður reynir þó að finna sér farveg þar sem skoðanir manns klingja meira en annars staðar.

Það sem ég vil kalla eftir er samræða og samvinna með þeirri löngun að komast að niðurstöðu sem flestir geta samþykkt. Það hlýtur að vera affarasælast að sem flestir haldi ró sinni og finnist þeir vera með í samfélaginu. Að sem flestir lifi mannsæmandi lífi. 

Það skilar okkur heilbrigðara þjóðfélagi.

Ég kalla aftir samvinnu og hófstilltum samræðum meðal landsmanna um það sem til heilla horfir.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 29.4.2012 kl. 15:27

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Stjórnarskrárráðið komst að sameiginlegri niðurstöðu og þrátt fyrir andstöðu margra pólitíkusa virðist þjóðin vilja fylgja þeirri stefnu. Í Icesave-málinu virðist þjóðin hafa sameinast. Þó rétt sé að halda viðræðum við ESB áfram enn um sinn er líklegt að andstaða við ESB sé nokkuð almenn. Næstu þingkosningar munu þá einkum snúast um það mál því engin von er til að viðræðunum ljúki fyrir þær.

Sæmundur Bjarnason, 29.4.2012 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband