1566 - Jólabækurnar og ýmislegt fleira

Scan79Gamla myndin.
Talið frá vinstri: Bjarni, Benni, Kristín Þóra og Bjarni Harðarson. Allir strákarnir eru í eins peysum. Ætli mamma hafi ekki prjónað þær. Myndin er eflaust tekin á Vegamótum.

Einu sinni las ég oft jólabækurnar í desember. Ekki núna. Þá var ég verslunarstjóri á Vegamótum á Snæfellsnesi og ásamt mörgu öðru seldum við jólabækurnar að sjálfsögðu þar. Ég stundaði það að lesa eitthvað af bókunum strax og þær komu út, en gætti þess að sjálfsögðu að sellófanpappírinn skemmdist ekki og að ekki sæist neitt á bókunum. Þessu varð ég vitanlega að hætta þegar ég flutti frá Vegamótum og sá ekkert eftir því. Bókasöfnin hef ég stundað grimmt undanfarin ár. Auðvitað er ekki hægt að fá jólabækurnar þar strax í desember en það gerir ekki mikið til. Helstu gjafabækurnar og þær sem mest eru auglýstar eru hvort eð er oft ómerkilegustu bækurnar. Núorðið eru bækur gefnar út allt árið og oft er það svo að útkoma merkustu bókanna fer alveg framhjá manni.

Hæfileikar stjórnmálamanna hér á Íslandi virðast helst miðast við frammistöðuna í hálftíma hálfvitanna svokallaða. A.m.k. hefur ræðumennska og orðhengilsháttur þeirra afgerandi áhrif á vinsældirnar. Þannig er þetta víða. T.d. er það augljóst að til að ná árangri sem leiðtogi í Bretlandi þarf að hafa hæfileika til að tala í fyrirsögnum og skammast með miklum hávaða. Litlu máli skiptir hvað sagt er. Ef ritstjórar helstu blaðanna þar finna í því sem leiðtogarnir segja bærilegt fyrirsagnarefni er deginum bjargað.

Ekki er skipulagið á Moggablogginu uppá marga fiska. Sá um daginn að einhver bloggvinur minn hafði læst blogginu sínu til að aðrir væru ekki að hnýsast í það. Slíkt er í hæsta máta skiljanlegt. Engin ástæða er til að láta alla vera að lesa það sem maður skrifar ef maður kærir sig ekki um það. En í upphafi bloggsins sem birtist til vinstri á stjórnborðinu var byrjunina á blogginu samt að finna. Þessu þyrfti að ráða bót á.

Sé að ég hef af einhverjum ástæðum dottið útaf vinalista Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar á Moggablogginu. Hann hefur líklega hent mér út (aldrei hendi ég neinum út) og eflaust hefur honum ekki fundist það vera að ástæðulausu. Oft hef ég leyft mér að gagnrýna hann og í mörgum efnum verið hjartanlega ósammála honum. Fór líka framá að vingast við hann í gegnum Fornleif en hann hefur ekki sinnt því. Veit ósköp vel að Jón Valur Jensson hefur hent mér útaf vinalista sínum hér á Moggablogginu en mér er alveg sama um það. Vilhjálmur Örn á það hinsvegar til að vera ansi hugmyndaríkur í vali sínu á bloggefni. Í hina röndina er hann samt öfgamaður mikill.

IMG 7479Hvað er þetta eiginlega?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skrifaði eitt sinn eina opnu í Moggann, fyrir nokkrum árum. Hún var meira að seigja myndskreytt. Fjallaði hún aðallega um uppáhalds norska kónginn minn, Ólaf kyrra.(Haralds harráða). Friðsemdar maður.  Þurfti vart að lyfta vopni öll sín stjórnar ár 1066 ti 1093. Hann hafði það að reglu að bjóða mönnum upp á einn öllara þegar kurr kom í mannskapinn.  Undirtónninn hjá þér á líkum nótum.

Ólafur Sveinsson 18.12.2011 kl. 23:39

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gallin hjá mér með Noregskonunganöfnin er að ég rugla þeim alltaf saman. T.d. eru alltof margir sem heita Ólafur. Ólafur Tryggvason (sem sagt var við: þar brast Noregur í hendi þér - var það ekki?) Ólafur helgi. Ólafur Haraldsson og Ólafur kyrri. Tveir þeir fyrri eru sami maðurinn, en hvað með Ólaf kyrra? Svo koma Magnúsarnir og Haraldarnir - stundum með föðurnafni og stundum með viðurnefni - ég er alveg ruglaður.

Sæmundur Bjarnason, 19.12.2011 kl. 01:42

3 identicon

Til athugunar.

1. Ólafur Tryggvason; Svoldur,Ormur langi og boginn brast hjá Einari.......................
2. Ólafur Haraldsson, helgi,digri,Stikklastaðir,skar tungur úr mönnum t.þ.a. kristna,Gerpla..
3. Ólafur kyrri,bóndi,Haraldsson, Haraldur harráði faðir hans á mót Haraldi Guðinasyni á Stanford Bridge 1066.
Svo koma Magnúsarnir,Hákonarnir,Sigurður og fleiri nöfn og ekki gleyma Sverri.
Sendi þér við tækifæri listann, á snerplu.

Ólafur Sveinsson 19.12.2011 kl. 09:12

4 identicon

Villi atvinnufórnarlamb.. hann er sko ekki í vandræðum með að finna ástæðu til að vera fórnarlamb.. karl greyið

DoctorE 19.12.2011 kl. 11:12

5 identicon

Eru þessir vinalistar á moggablogginu þá eins og Fb.-vinalistar? Ég hélt að þetta væru bara linkar í blogg sem þú læsir og hef öðru hvoru undrast hve mörg þau væru en talið mér trú um að þú værir bara svona duglegur blogglesandi :)

Harpa Hreinsdóttir 20.12.2011 kl. 09:49

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, nema á fésbókinni er núorðið hægt að skilgreina supervini og fá tilkynningu í hvert skipti sem þeir ræskja sig.

Sæmundur Bjarnason, 20.12.2011 kl. 16:19

7 identicon

Skil. Veit af svona fídusum á FB en nota þá einföldu leið að losa mig við vini sem ég hef ekkert með að gera og langar ekki að lesi mína statusa og umræðu á FB. Ætli fólk fari bráðum að skipta vinum sínum í "supervini" og "venjulega vini", jafnvel "takmarkaða vini" í kjötheimum?

Harpa Hreinsdóttir 20.12.2011 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband