1461 - Bloggið mitt

Marga bloggfjöruna hef ég sopið um dagana. Ég er svosem enginn byrjandi í þessu þó ég hafi ekki byrjað fyrr en í árslok árið 2006 hér á Moggablogginu. Öll mín bloggskrif eru hér samankomin og vonandi verður þeim ekki fargað því afrit á ég af því fæstu sem þar er og hugsanlega er sumt sögulegt.

Sennilega hefur það verið um aldamótin eða skömmu fyrir þau sem ég fór fyrst að veita blogginu athygli. Samkvæmt fyrirsögn Salvarar Gissurardóttur hóf ég þá lítilsháttar bloggskrif á „pitas.com“, en hætti þeim mjög fljótlega meðal annars vegna þess að enginn vissi af þeim og las þau þar af leiðandi ekki.

Það var svo í desember 2006 sem ég hóf bloggskrif hér á Moggablogginu. Það hafði þá starfað í eitt til tvö ár eða svo og sannarlega breytt blogglandslaginu töluvert. Lára Hanna Einarsdóttir, gamall vinnufélagi minn af Stöð 2 byrjaði að blogga um líkt leyti eða nokkru seinna. Salvör Gissurardóttir, sem um það leyti var Moggabloggari, var líka fljót að veita blogginu frá mér eftirtekt og ég hef alltaf talið hana eina af fremstu bloggurum landsins. Eftir athugasemd frá Láru Hönnu til stjórnenda Moggabloggsins vorum við bæði gerð að stórhausum, en það er nokkurskonar úrvalsflokkur bloggara sem Moggabloggsstjórarnir veita greiðari aðgang að en öðrum bloggurum.

Ekki man ég gjörla hvenær ég byrjaði að blogga daglega en það er ekki alveg nýtilkomið. Upphaflega bloggaði ég bara öðru hvoru og þóttist góður ef 20 til 30 manns kíktu daglega á bloggið mitt eftir að ég var orðinn stórhaus. Áður voru þeir oftast mun færri. Um það leyti þurfti yfir 300 vikuheimsóknir til að komast á lista yfir 400 vinsælustu bloggarana.

Þegar ég var gerður að stórhaus (það var Brjánn Guðjónsson sem ég held að hafi fundið upp þetta orð) vænkaðist hagur minn stórlega og lesendum fjölgaði. Síðan hef ég verið um of upptekinn að því að fjölga daglegum gestum mínum þangað til alveg nú nýlega að ég ákvað að hætta þessu daglega bloggstandi.

Það var einhvers konar listi yfir öll íslensk blogg sem ég fylgdist með í upphafi. Man samt að í gegnum tíðina (dönskusletta) hef ég einkum lesið og dáðst að eftirfarandi bloggurum: Hörpu Hreinsdóttur, Salvöru Gissurardóttur, Stefáni Pálssyni, Ágústi Borgþóri Sverrissyni, Nönnu Rögnvaldardóttur, Dr. Gunna, Láru Hönnu Einarsdóttur, Erlingi Brynjólfssyni, Gísla Ásgeirssyni, Sigurði Þór Guðjónssyni, Önnu K. Kristjánsdóttur og Páli Ásgeiri Ásgeirssyni. Auðvitað hef ég líka oft lesið bloggin hjá Agli Helgasyni og Jónasi Kristjánssyni.

Alþingi kemur væntanlega saman áður en mjög langt um líður. Það sem ég er einna spenntastur fyrir í störfum þess er hvaða afgreiðslu stjórnarskártillagan frá stjórnlagaráði fær þar. Mál þetta er að byrja að koma fram í opinberri umræðu. Þór Saari segir að hugmyndin sé að ræða þetta í einn dag á alþingi og vísa málinu síðan til sérstakrar nefndar. Mín skoðun er sú að þjóðin eigi að fá tækifæri til að segja álit sitt á þessu máli áður en alþingi fer eitthvað að krukka í það. Þetta kemur samt eflaust í ljós fljótlega eftir að alþingi kemur saman.

Það er ekki hægt að fullyrða að stjórnarfarið batni eitthvað þó við fáum nýja stjórnarskrá, en það er hugsanlegt. Sú gamla er orðin ansi ófullkomin, mótsagnakennd og óskýr og það hefur alltaf staðið til að gera nýja. Ekki er nein von til þess að alþingi geti komið sér saman um stjórnarskrá svo best væri að það léti núverandi drög alveg í friði.

Valkvíði er erfið meinsemd. Hvort á ég heldur að fá mér kaffibolla eða fara á klósettið. Margs er að gæta við þessa erfiðu ákvörðun. Ein leið er augljós. Það er að gera hvorttveggja. En jafnvel þó sú flóttaleið sé notuð stendur eftir að ákveða hvort á að gera á undan. Jafnvel kemur til greina að gera hvorugt. Kannski yrði það auðveldast. Það er þó erfitt að fresta þessu með klósettferðina endalaust. Búast má við að þörfin fyrir hana fari að lokum að trufla mig við allt mögulegt. Er þá ekki augljóst að hún er mikilvægari? Jú kannski, en er alveg sjálfsagt að sinna því á undan sem nauðsynlegra er? Þetta þarfnast nákvæmrar íhugunar.

IMG 6430Siglufjarðarfjall í sólskini.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þó hratt hafi fjarað undan Moggablogginu undanfarið og fjölmargir góðir pennar horfið á braut og eftir sitji tiltölulega einsleitur hópur hægrisinnaðra bloggara, með góðum undantekningum þó, verður það ekki frá Mogga blogginu tekið að það býður ennþá upp á lang besta bloggumhverfið.

Það hefur eitthvað breyst, frá því sem var, hverjir verða "stórhausar". Þangað upp fer engin núna, að því best verður séð, nema sverja ritstjóra Moggans og hans slekti öllu fulla hollustu með ítrekuðum skrifum um þeirra ágæti.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 29.8.2011 kl. 00:17

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ef þið eruð að meina stærri myndirnar þarna fyrir ofan, þá segi ég fyrir mig að aldrei hefur verið talað við mig um hvort ég vill vera þar, og aldrei hef ég talað mikið fallega um ráðamenn hér.  En ef til vill er ég bara svona helvíti góð

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.8.2011 kl. 10:08

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þetta er fróðlegt með stórhausana. Kannski væri réttast að skrifa sérstakt stórhausablogg. Sumir hafa orðið stórhausar strax og jafnvel án þess að vita það. Sumir hafa orðið stórhausar með öðru móti. Einum man ég eftir sem var sviptur stórhausatitlinum og mjög óánægður með það. Kvartaði á sinu bloggi og var settur þangað aftur. Það var Villi í Köben, ef ég man rétt. Það er áreiðanlega margt fróðlegt sem hefur gerst í sambandi við þá. Veit ekki hvort Axel Jóhann hefur alveg rétt fyrir sér um svardagana, en gaman væri að fá að vita meira um það.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2011 kl. 11:04

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einhver gæti prófað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.8.2011 kl. 11:08

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég er alltaf að reyna!! Tala eins illa um Moggabloggsguðina og ég þori. Ekki vil ég samt láta loka á mig. Fengi þó einhversstaðar inni, vona ég ef svo færi. Kannski hjá Doktore. Hann var rekinn héðan með skít og skömm.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2011 kl. 12:35

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þá einfaldlega stenst ekki fullyrðing Axels, það er ljóst. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.8.2011 kl. 13:04

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það getur verið að hún standist núna, þó hún hafi augljóslega ekki gert það áður fyrr.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2011 kl. 14:45

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ef til vill.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.8.2011 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband