1459 - Tittlingur í píku

Mér finnst að sumu leyti eins og ég sé laus undan fargi vegna þess að ég er hættur að strekkja við að blogga á hverjum degi. Nú blogga ég bara þegar mér sýnist. Kannski sýnist mér ég þurfa að blogga ansi oft, en það verður þá bara að hafa það. Nú ætla ég að skrifa svolítið um örsögu sem ég gerði um daginn.

Fráfærur eru þannig skilgreindar í Wikipediu:

Fráfærur kallaðist það þegar ær og lömb voru aðskilin á vorin til þess að unnt væri að nytja mjólkina. Þær voru tíðkaðar á hverjum bæ á Íslandi um margar aldir.

Fært var frá í júnímánuði. Fyrst var svonefnd stekktíð, en þá voru lömbin enn með mæðrum sínum en sett í lambakró á stekknum á kvöldin og höfð þar um nóttina en ærnar gengu lausar á meðan og voru svo mjólkaðar að morgni, áður en lömbunum var hleypt út. Þetta var líka kallað að stía lömbin og stóð yfirleitt í um tvær vikur.

Þegar lömbin voru um það bil sex vikna voru þau svo rekin á fjall eða í haga fjarri ánum og látin sjá um sig sjálf en ærnar hafðar heima og mjólkaðar kvölds og morgna. Smalinn sat yfir þeim, að minnsta kosti á daginn. Ær sem fært hafði verið frá og voru mjólkaðar kölluðust kvíaaær. Stundum var setið yfir lömbunum fyrstu vikuna og voru þau þá oft höfð í hafti svo auðveldara væri að halda þeim saman. Sauðamjólkin var mikið notuð til skyrgerðar, ein sér eða blönduð kúamjólk, en einnig var gert úr henni smjör og ostar.

Fráfærur tíðkuðust fram á 20. öldina en lögðust víðast hvar af á árunum 1915-1940, meðal annars vegna mikillar verðhækkunar á lambakjöti á stríðsárunum fyrri, svo að það borgaði sig betur að láta lömbin njóta mjólkurinnar en mjólka ærnar.

Á heimasíðu leikskólans „Teigasel“ fann ég textann um Sigga, sem var úti. Hann er svona:

Siggi var úti
Norskt þjóðlag
Jónas Jónasson

Siggi var úti með ærnar í haga,
allar stukku þær suður í mó.
Smeykur um holtin var hann að vaga,
vissi hann að lágfóta dældirnar smó.
:,: Agg, gagg, gagg sagði tófan á grjóti. :,:
Gráleitum augunum trúi ég hún gjóti.
Greyið hann Siggi, hann þorir ekki heim.

Aumingja Siggi var hreint engin hetja,
hélt hann að lágfóta gerði sér mein,
inn undir bakkann sig vildi hann setja,
svo skreið hann lafhræddur upp undir stein.
:,: Agg, gagg, gagg sagði tófan á grjóti. :,:
Undi svo víða sá ómurinn ljóti
ærnar að stukku sem hundeltar heim.

Þá tók hann Siggi til fóta sem fljótast,
flaug hann sem vindur um urðir og stall.
Tófan var alein þar eftir að skjótast,
ólukku kindin hún þaut upp á fjall.
:,: Agg, gagg, gagg sagði tófan á grjóti. :,:
Trúi ég af augum hans tárperlur hrjóti,
titrandi er kom hann á kvíarnar heim.

Reyndar held ég að oftast sé bara fyrsta erindið sungið. Kannast ekkert við hin, en læt þau samt fljóta með.

Fyrir allmörgum árum kom út á dönsku bókaflokkur sem kallaður var Kærlighed. Í honum voru klámsögur eftir allnokkra rithöfunda. Flokkurinn hafði áður verið gefinn út í Svíþjóð. Ein sagan í þessum flokki fjallaði um Rauðhettu þar sem hún gekk fram og aftur um skóginn og tautaði fyrir munni sér: „Kuken í fittan, kuken í fittan.“

Þetta þrennt: fráfærurnar, söngurinn um hann Sigga og sagan úr Kærlighed varð mér innblástur að eftirfarandi örsögu:

„Tittlingur í píku, tittlingur í píku,“ sönglaði Siggi meðan hann vagaði um holtin. Samt var hann dálítið smeykur. Já, eiginlega alveg skíthræddur. Honum fannst talsverð huggun í því að söngla eitthvað meðan hann var svipaðist um eftir rolluskjátunum. Slæm þessi ansvítans þoka. Sönglið var róandi og hann reyndi að ímynda sér það sem hann sönglaði um. Það gekk fremur illa því allsstaðar gægðist tófan fram. Hún var áreiðanlega að hugsa um að næla sér í eina af rollunum sem Siggi átti að passa.

Siggi var nefnilega látinn vaka yfir ánum alla nóttina. Hann mátti ekki koma of fljótt með þær heim og auðvitað alls ekki týna þeim. Nú hafði hann sofnað á verðinum og skyndilega vaknaði hann við það að komin var hrollköld þoka yfir allt. Siggi hafði fengið að hafa með sér í hjásetuna dýrindis vekjaraklukku og nú sá hann að það var kominn tími til að fara að síga heimleiðis með rollurnar. En hann sá þær hvergi fyrir þokunni.

„Tittlingur í píku, tittlingur í píku, tittlingur í píku,“ sönglaði Siggi með þónokkurri tilfinningu. Þetta var það dónalegasta sem hann kunni og þessvegna sönglaði hann það. Kannski hélt hann að það hjálpaði sér til að hugsa um eitthvað annað en tófuna. Hann vissi nefnilega að tófan var að flækjast í dældunum og átti dálítið erfitt með að hugsa um annað.

Honum gekk illa að sjá tittling í píku fyrir sínum hugskotssjónum. Reyndi þó eins og hann gat. Tófan kom samt  alltaf blaðskellandi og gerði Sigga hræddan. Eða var þetta kannski refur. Skyldi refurinn nokkurn tíma ríða tófunni? Þetta beindi hugsunum Sigga alveg í nýja átt. En skyldi refurinn þá hafa tittling og tófan píku? Það fannst Sigga hálfhinsegin. Refurinn gæti kannski fest tittlinginn í tófunni einsog stundum kom fyrir hunda. Já, eiginlega var rebbi næstum alveg eins og hundur.

Skyldi tófan gjóta með augunum eða bara gjóta augunum í allar áttir? Þetta var atriði sem Siggi var allsekki klár á. Hann hafði heyrt talað um að gjóa augunum, en var hægt að gjóta þeim líka. Trúlegra var það nú, en að óbermið færi að gjóta, kasta eða með öðrum orðum að eignast afkvæmi með augunum. Annars var aldrei hægt að vita með vissu hverju svona óféti tæku uppá.  

Skyndilega heyrði hann gagg í tófu. Hann herti sig því sem mest hann mátti við sönglið, en það kom að litlu haldi. Hann gat ómögulega séð það fyrir sér sem hann sönglaði um en sá hinsvegar sífellt fyrir sér hungraða tófu sem reyndi að læðast að kindunum hans.

Væri ekki skást að fara bara heim? Nei, Siggi þorði ekki fyrir sitt litla líf að fara heim kindalaus. Það yrði gert svo mikið grín að honum að hann mundi aldrei bíða þess bætur. Krakkarnir í skólanum mundu hlæja sig alveg máttlaus þegar þau fréttu af þessu og yfir kaffibollunum mundu konurnar segja frá þessu í hálfum hljóðum og senda hvor annarri þýðingarmikil augnaráð.

„Tittlingur í píku, tittlingur í píku, tittlingur í píku.“ Sönglaði Siggi því með sífellt vaxandi tilfinningu. Hann herti sig sem mest hann mátti. Hljóp og hálfhrópaði orðin að lokum.

Skammaðist sín svo fyrir það, því hugsanlegt var að einhver heyrði til hans. Það væri nú jafnvel verra en að koma heim kindalaus. Tuldraði þetta þá lágt í barm sér og gætti þess vel að tala ekki of hátt.

En það var sama hvað hann hljóp hratt og hvernig hann tuldraði, ekki sá hann rollurnar. Þær höfðu áreiðanlega nýtt sér þokuna til að komast sem lengst í burtu.

Þegar Siggi var alveg að verða úrkula vonar um að finna kindurnar nokkuð, sá hann þær loksins og hóaði þeim saman í flýti.

Hann var hróðugur mjög þegar hann kom heim á kvíabólið nokkru seinna, því kindurnar voru allar og enga vantaði.

IMG 6421Bátur á Siglufirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Axel Jóhann Hallgrímsson, 26.8.2011 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband