1432 - Túkall á tímann

10Gamla myndin.
Gunnar Hallgrímsson og Kristinn Jón Kristjánsson.

Eiginlega líður mér ekkert vel nema mér líði illa. Það er auðvitað viss mótsögn í þessu, en þó er það satt. Ég er orðinn því svo vanur að mér líði illa að þá fyrst þegar mér fer að líða svolítið almennilega illa get ég farið að gera það sem mér sýnist og líða þar af leiðandi nokkuð vel. Auðvitað er þetta flókið en er lífið það ekki yfirleitt? Ekki er það ég sem bað um að verða til og mér dettur ekki í hug að halda að maður eigi einhvern RÉTT á því að láta sér líða vel.

Einu sinni þegar Mummi Bjarna kom í heimsókn höfðum við Ingibjörg (eða aðallega hún auðvitað) ákveðið að stríða honum duglega. Til þess notuðum við pólitík með lúalegasta hætti. Mummi greyið byrjaði með því að spyrja hvort við vildum vera með honum. Jú, það kom til greina ef hann segði okkur hvar hann stæði pólitískt. „Nasisti“ sagði Mummi hróðugur. Nú, við viljum ekkert hafa með svoleiðis fólk að gera. Við erum kommúnistar. „Já, en ég er sósíalisti“ sagði Mummi greyið með grátstafinn í kverkunum. „Nashyrningur og sósa. Hvurslags er þetta með þig, geturðu ekki ákveðið þig.“ Mummi var nú orðinn örvæntingarfullur og hótaði að kalla á pabba sinn, en við létum okkur ekki og skelltum á hann hurðinni.

Nú eru sósíalistar allt í einu orðnir nasistar og öfugt. Ekki hefðum við látið villa um fyrir okkur með þetta í gamla daga. Vissum líka lítið um útlendar nafngiftir. Nú láta sumir eins og nafngiftir segi eitthvað um stefnu flokka. Nafngiftir eru bara nafngiftir.

Svo héldum við stundum framboðsfundi eða fundi á alþingi og varð þá tíðrætt um landfestar fiskiskipaflotans, Hæring og ýmislegt annað sem við höfðum heyrt alvörustjórnmálamenn tala um. Já, það var bara gaman að lifa í þá daga. Maður þurfti ekki að taka ábyrgð á neinu. Gat látið eins og fífl og vissi að manni yrði alltaf bjargað. Ég fór að vinna snemma hjá Gísla á Elliheimilinu og fékk túkall á tímann. Ætli verkamannakaup hafi ekki verið svona 15 krónur þá. 

Þegar ég tala um Gísla á Elliheimilinu á ég að sjálfsögðu við Gísla Sigurbjörnsson. Annars var það Líney mamma hans Kidda Antons sem var ráðskona í eldhúsinu og réði flestu á Ási. Man að hún var lítt hrifin þegar ég gerði mér ferð úr grjóttínslunni til að segja henni að forsetinn ætti afmæli og það væri lögskipaður fánadagur. Já, besservisserahátturinn byrjaði snemma.

Annars man ég ekkert ofboðslega vel eftir mínum fyrstu árum. Kannski bruninn sem varð þegar ég var níu ára hafi haft meiri áhrif á mig en ég vildi vera láta. Allavega fékk ég enga áfallahjálp!!

Ég man lítið eftir að tónlist hafi skipt miklu máli í mínu ungdæmi. Man þó að seinni partinn á sjötta áratugnum reið mikil rokkalda yfir heiminn. Okkur snerti hún einkum á þann hátt að skyndilega varð skylda að allir klæddust svörtum gallabuxum (með hvítum saumum) og hvítri peysu. Aðskorinni og ermalangri. Þetta var látið eftir okkur og mikil var gleðin.

Það er margt sem ég minnist frá þessum árum. Fátt af því finnst mér merkilegt. Lífið í heildina var kannski það merkilegasta. Eiginlega var allt sem við gerðum bara undibúningur fyrir eitthvað stórkostlegt sem kom svo aldrei.

Í stjórnmálum trúðu menn því í alvöru að heimsstryjöld væri yfirvofandi. Við töldum okkur að sjálfsögðu vera réttu megin og vinninginn tryggðan, því liðið okkar væri mun sterkara. Ætluðum samt að vera svolítið göfuglynd við Rússagreyin.

Líklega eru stjórnarskrárdrögin sem stjórnlagaráðið mun í dag afhenda fulltrúa alþingis það mál sem mest verður rætt á næstunni. Ennþá hafa fáir þorað að lýsa því yfir að þeir séu á móti þessum drögum. Það gæti þó átt eftir að breytast. Stjórnmálaflokkarnir leita áreiðanlega að einhverju til að festa sig við. Það gæti tekist. Trúmál og ESB-mál eiga eflaust eftir að blandast í umræðuna og hún gæti orðið mikil. Þjóðaratkvæðagreiðsla er yfirvofandi.

Alþingismenn standa nú frammi fyrir því vandamáli að þeir geta varla krukkað mikið í stjórnarskrárdrögin því það treystir þeim enginn. Það besta sem þeir gætu gert er að senda frumvarpið beint í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá yrði fjör.

Að hóta málaferlum ef umfjöllum á bloggsíðum eða fjölmiðlum hugnast ekki viðkomandi er að komast í tísku. Heimdellingar hóta Jóhannesi Ragnarssyni í Ólafsvík málaferlum ef hann biður þá ekki afsökunar og tekur orð sín um þá aftur. Frægð Jóhannesar hefur aukist mjög við þessa misheppnuðu fyndni. Auðvitað mest vegna Heimdallarhótunarinnar.

IMG 6208Hátt hreykir heimskur sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég mun kjósa gegn stjórnarskrárfrumvarpinu ef það verður lagt fyrir þjóðina í þessari mynd.  Reyndar kláraði ég ekki að lesa frumvarpið þar sem 67. grein var það sem gerði út um mitt viðhorf.  Þar er verið að takmarka vald almennings frá því sem nú er.

Axel Þór Kolbeinsson, 29.7.2011 kl. 08:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eins og er held ég að vantraustið á alþingi valdi því að stjórnarskrárfrumvarpið yrði samþykkt. Satt að segja held ég að svo margt eigi eftir að gerast á næstunni að ómögulegt sé að taka ákvörðun núna.

Sæmundur Bjarnason, 29.7.2011 kl. 10:19

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sennilega mun óánægja með störf Alþingis hafa áhrif á skoðanir fólks, en ég vona að það verði upplýst umræða um kosti og galla þessa frumvarps og samanburður við núverandi stjórnarskrá áður en það kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu.

Axel Þór Kolbeinsson, 29.7.2011 kl. 10:41

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, samanburðurinn þarf að eiga sér stað. Ef stuðingsmenn og andstæðingar frumvarpsins eru álíka margir þar gæti andstaðan við núverandi kerfi ráðið úrslitum.

Sæmundur Bjarnason, 29.7.2011 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband