1428 - Er blogg bókmenntir?

006Gamla myndin.
Þetta er knattspyrnulið antisportista að Bifröst veturinn 1959-60, sýnist mér. Aftari röð frá vinstri: Sigurjón Bragason, Þórir Gunnarsson, Gunnar Hallgrímsson, Guðmundur Jóhannsson, Hermann Hansson og Gunnar Sigurðsson. Fremri röð frá vinstri: Jónas Jónasson, Gunnar Magnússon, Guðvarður Kjartansson, Jón Alfreðsson og Arngrímur Arngrímsson.

Færa má fyrir því nokkur rök að blogg sé á sinn hátt bókmenntir. Þeir bloggarar sem ég les einkum eru þannig. Ég geri mér þó grein fyrir að greinilega hugsa ekki allir bloggarar á þann hátt. Sumir virðast líta á sig sem einhverskonar fréttamenn. Éta það upp sem þeir hafa lesið og bæta síðan við einhverjum hugleiðingum frá eigin brjósti. Með því finnst mér bloggin verða að einhvers konar kommentum. Í eðli sínu má vel halda því fram að hefðbundin Moggablogg séu bara komment.

Auk þess að vera bókmenntagrein geta blogg sem best verið einskonar æfingavöllur fyrir hverskonar skrif. Lesendur geta vel orðið aukaatriði þegar svo er komið. Fésbókin hentar ágætlega sem samskiptavettvangur fyrir allskyns kaffibollaspjall. Mér finnst hún ekki veita blogginu neina sérstaka samkeppni. Bloggurum hefur fækkað mjög eftir að vinsældir fésbókarinnar fóru að aukast að marki. Sérstaklega held ég að þeim hafi fækkað sem eru síbloggandi eins og ég.

Þykist ég þá vera einskonar bókmenntalegur bloggpáfi? Ja, mér finnst miklu meira gaman að blogga en fésbókast. Mér finnst það (bloggið) skilja meira eftir en fésbókarstaglið. Af hverju er ég sífellt að bera þetta saman? Eru ekki þeir sem yfirgáfu bloggið fyrir fésbókina einmitt leitandi? Leitandi að því eina rétta samskiptaformi sem hlýtur að vera handan við hornið? Hins vegar hef ég og mínir líkar (kannski) staðnað og fest mig í því sem er úrelt og hallærislegt. (Bloggið).

En hvernig skyldi það þá vera sem allir eru að leita að? Vídeó send á netið með snertiskjám frá snjallsímanum þunna sem er orðinn besti vinur eigandans og stýrir honum í gegnum allar lífsins krísur, eða hvað? Já, tækjagleði fólks er orðin með ólíkindum. Það er eins og þeir sem lengst ganga haldi að hægt sé að redda öllu bara með því að kunna á réttu tólin.

Kannski er bloggið vel til þess fallið að miðla hugmyndum. Enn er þó haldið í stefnuna frá bloggaranum til lesandans. Nýjungarnar rugla þessa stefnu. Hin hefðbundna stefna bókmenntanna er í eina og aðeins eina átt. Bloggið hefur með athugasemdum sínum (og kannski fésbókin og aðrar nýjungar enn frekar) ruglað þessa stefnu. Af hverju á lesandinn að sitja á sér og vera bara þiggjandi? Hann er í mörgum tilfellum a.m.k. jafnvel til predikunar fallinn og hinn.

Varð andvaka í nótt. Setti þá m.a. eftirfarandi saman:

Það er fátt sem er eins og það á að vera.
Ferðalagið hófst þó með einu skrefi
og lýkur ekki fyrr en seint í kvöld.
Eldhjörtun sprungu á leiðinni til borgarinnar
og lentu á forugum þökunum.
Verða hughrifin eins
þegar ég les þetta næst?

Mér fannst þetta vera ljóð þá, en er ekki eins viss núna. Les stundum það sem aðrir kalla ljóð. Nútímaljóð, án ríms, stuðla og hrynjandi. Stundum ná þau einhverjum endurómi við mína hugsun. Það er þó ekkert sem hægt er að reiða sig á. Samt er það besta skilgreiningin á ljóði sem ég get fundið. 

Bloggið hentar vel fyrir bull sem þetta. Þá er maður laus við það og þarf ekki að burðast við að setja það á blað og koma fyrir í geymslu til að týna síðan þegar verst gegnir. Sama er að segja um myndir o.þ.h.. Best að koma því á netið til að losna við það úr sýsteminu. Sumir nota netið eins og nokkurs konar ruslafötu. Ég líka.

Einu sinni tók Jón á Þverá sig til og eyðilagði sévrann hans Ingólfs í Strympu með því að keyra yfir hann hvað eftir annað á jarðýtunni sinni. Hann bað samt um leyfi fyrst. Man að ég horfði hissa á þetta. Bíllinn var á planinu skammt frá Holti og þetta var Chevrolet sem núna þætti mjög flottur fornbíll. Ætli hann hafi ekki verið model 1952 eða eitthvað. 1958 kannski. Hann var samt ekki merkilegur á þessum tíma. Ekki gangfær og illseljanlegur og þegar Jón var búinn að ljúka sér af var hann bara svolítið þykk járnplata í vegarkantinum. Veit ekki hvað varð svo um hann.

Trúr þeirri kenningu minni að aldrei skuli geyma það sem á annað borð er hæft til þess að fara á bloggið er ég að hugsa um að láta fljóta hér með smá tilbúning sem ég var að ljúka við. Með þessu móti verður bloggið í lengra lagi en við því er ekkert að gera.

Þegar geimfararnir komu var enginn til að taka á móti þeim. Samt hafði verið búist við þeim. Þeir höfðu tilkynnt stjörnufræðingnum, sem bjó í þorpinu, að þeirra væri von. Hann hafði nú ekki alveg trúað þessari sögu en lét hana samt ganga. Merkilegast var kannski að enginn skyldi hlaupa með þetta í blöðin eða reyna að sannreyna söguna á nokkurn hátt.

Eins og aðrir hafði þorpspresturinn heyrt um þetta. Það var konan á bókasafninu sem sagði honum frá því. Sagan var svo ótrúleg að honum fannst ekki vert að eyðileggja grínið. Svo hann hafði ekki orð á neinu.

Sagan var svona:

Þegar verið var að skapa jörðina vildi ekki betur til en svo að sá sem fyrir því stóð gleymdi úrinu sínu sem var mikið dýrmæti og það uppgötvaðist ekki fyrr en löngu seinna þegar verið var að búa til tungl einhversstaðar í Andrómedu.

Þetta var jafnvel ekki það ótrúlegasta við söguna. Heldur miklu frekar hitt að sagt var að úrið væri undir tveggja metra þykku moldarlagi á miðjum akrinum hans Sveitta-Villa.

Og þetta var ekki einu sinni það ótrúlegasta við söguna. Frekar hitt að sagt var að geimverur myndu koma kvöldið eftir um elleftu-leytið til að sækja úrið. 

Svona var sagan og auðvitað trúði henni ekki nokkur maður. Samt sem áður höfðu margir auga á akrinum hans Sveitta-Villa kvöldið eftir.

Geimfararnir höfðu samt alveg meint þetta. Ástæðan fyrir því að þeir höfðu bara samband við stjörnufræðinginn var sú að þeir þóttust vissir um að hann mundi tékka á þessu öllu. Það gerði hann hinsvegar ekki, því hann trúði ekki sögunni.

Geimfararnir höfðu semsagt búist við að fjölmiðlar hefðu fjölmennt á staðinn og allskyns húllumhæ yrði í tilefni af komu þeirra. Það yrðu tekin viðtöl við þá og allskonar.

Þegar feðgarnir stukku útúr geimfarinu var hinsvegar ekki nokkra mannveru að sjá. Þorpspresturinn var að vísu á útkíkki í kirkjuturninum en það sá hann enginn.

„Manstu hvar þú skildir úrið eftir?“ spurði sá yngri.

„Já, ég held að það hafi verið þarna.“ sagði sá eldri og benti.

„Þá verðum við víst að ná í skóflurnar og grafa eftir því. Ekki virðast líkur á að íbúarnir hjálpi okkur mikið.“

Nú gat þorpsprestuinn ekki á sér setið lengur. Þetta voru greinilega utansveitarmenn, höfuðstórir og grænleitir. Birtan var samt ekki upp á marga fiska og hugsanlegt að þeir væru ekki eins grænir og þeir sýndust vera.

„Hæ, halló þarna. Á ég ekki að hjálpa ykkur?“ hrópaði pressi út um opinn glugga á kirkjuturninum.

„Nei, ætli það. Við verðum ekki lengi að þessu með nýju megaskóflunum okkar.“

Presturinn var ekki á því að láta þá sleppa svo billega og þaut niður tröppurnar í turningum og útá hlað. Þaðan var örstutt yfir á akurinn hans Sveitta-Villa en samt sem áður voru geimfararnir búnir að ná í úrið og moka ofan í holuna aftur þegar presturinn kom þjótandi.

Feðgarnir fóru þá aftur inn í geimfarið og flýttu sér í burtu.

Presturinn kom hins vegar ekki upp nokkru orði í lengri tíma, en flýtti sér svo inn í kirkju og hringdi í sjónvarpið. Vitanlega kannaðist svo enginn við neitt og presturinn varð að athlægi um allt land og að lokum var hann svipur kjóli og kalli af biskupnum stranga.

IMG 6162Gömul borhola í Hveragerði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð saga !

elina 25.7.2011 kl. 13:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Elina. Mér finnst það eiginlega líka.

Sæmundur Bjarnason, 25.7.2011 kl. 13:59

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú eru menn sem óðast að yfirgefa fésbókina og fara yfir á G-blettinn á Google. Eina bloggið sem vitsmunaverum er sæmandi er veðurblogg!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.7.2011 kl. 23:11

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er nú ekki vitsmunaverum sæmandi (ha, sæmandi?) að vera að fjargviðrast (veðurtengt) yfir G-blettinum.  

Sæmundur Bjarnason, 26.7.2011 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband