1427 - Noregur og rykmaurarnir

005Gamla myndin.
Á þessari Bifrastarmynd eru þeir kennararnir Hróar Björnsson og Hörður Haraldsson.

Noregur breyttist í gær. Tuttugasta og annan júlí tvöþúsundogellefu. Það sem gerðist áður var áður en hryðjuverkin komu til Noregs. Það sem nú er að byrja er tímabilið eftir að hryðjuverkin komu.

Það sem gerðist í Noregi í gær er eitt af þeim atvikum sem maður man lengi eftir. Ég var einn heima og lauk við að horfa á íslenska bíómynd af flakkaranum (segi ekki hvaða mynd) þegar klukkan var að verða þrjú. Þegar ég stöðvaði sýningu myndarinnar datt ég beint inn í beina útsendingu frá norska ríkissjónvarpinu. Ég gerði mér strax ferð að tölvunni og byrjaði að skoða frásagnir á netinu af þessum atburði. Því hefur lítið linnt síðan og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um atburðarásina.

Minnist þess samt hve undrandi ég varð þegar ég heyrði fyrst sagt frá Estonina-slysinu. Það var í september 1994 sem ferjan Estonia fórst á Eystrasalti og meira en 800 manns með henni. Mér er minnisstætt að þegar þulurinn í útvarpinu sagði snemma morguninn eftir að óttast væri að meira en 800 manns hefðu farist með ferjunni að ég trúði honum alls ekki og hélt að hann hlyti að hafa mismælt sig eitthvað. Slys á ferjum og farþegaskipum af þessari stærðargráðu ættu sér alls ekki stað í þessum heimshluta. Hugsanlega kannski í þriðja heiminum, en ekki hér næstum því við strendur Íslands. Jú, jú. Titanic fórst að vísu, en það var árið 1912. Andrea Doria og Stockholm lentu í árekstri og einhver fjöldi fórst, en það var fyrir ævalöngu síðan.

Að slys af þessari stærðargráðu hefði átt sér stað rétt hjá okkur var með öllu óhugsandi. Þulurinn hlaut að hafa mismælt sig. En þó „bara“ hefðu farist kannski áttatíu manns var þetta samt hræðilegt sjóslys. Seinna kom auðvitað í ljós að yfir 800 fórust með Estonia.

Þá er Eden ekki lengur til. Eden hjá Braga Einarssyni var auðvitað í útjaðri þorpsins þegar ég var að alast upp. Samt fórum við stundum þangað. Það var þó allavega nýjung að þurfa ekki að hanga allt kvöldið í Litla salnum á Hótelinu. Annars fórum við ekki oft niður í Eden. Vorum heldur ekkert sérlega velkomin þar og eyddum alls ekki miklu. Eiríkur og Sigga voru orðin vön okkur hugsa ég. Það sást líka vel frá Hótelinu hvort eitthvað var um að vera á Barnaskólatúninu.

Klámið og kirkjan interessar mig ekkert sérstaklega. En með leyfi að spyrja. Hvað eru sanngirnisbætur? Hvaða munur er á þeim og öðrum bótum? Eru það ekki skaðabætur? Ekki tjónabætur? Eru þær eitthvað sanngjarnari en aðra bætur? Spyr sá sem ekki veit. Og hver borgar þessar bætur? Ég og þú? Af hverju má ekki gera samkomulagið opinbert? Er ekki Kalli bara að lengja svolítið í hengingarólinni? Svo verður hann voða mystískur og heilagur á svipinn þegar hann er spurður að því hvort hann ætli að fara að hætta. Svarar bara í véfréttarstíl. Mér finnst skítalykt af þessu öllu. Ég verð að segja það. Og hvar er biskupsdóttirin? Af hverju er hún ekki með?

Fyrir nokkrum árum voru rykmaurar og rykmaurafræði allskonar mjög í tísku hér á Íslandi. Áreiðanlega muna fleiri en ég eftir þessum tíma. Rykmaurum var lýst nákvæmlega og stækkaðar myndir af þeim sýndar víða. Þessi óféti væru að vísu hættulítil en að finna í nær öllum rúmdýnum og sængurfatnaði allskonar. Lifðu á húðflögum af fólki og öllu mögulegu sem til félli. Ómögulegt væri að losna með öllu við þennan ófögnuð en halda mætti honum e.t.v. eitthvað í skefjum með ítrasta hreinlæti.

Ákveðið var að gera ítarlega og nákvæma könnun á útbreiðslu rykmaura á Íslendi. Ákveðið var einnig hvernig staðið skyldi að þessari rannsókn og nauðsynlegir starfsmenn ráðnir. Útreikningsaðferðir kannaðar og fljótlega hafist handa.

Ekki hefur frést mikið af rannsókninni en sögusagnir herma að tveir rykmaurar hafi fundist og sérfræðingar hafi talið eftir víðtækar athuganir að ekki væri hægt að draga nógu mikilvægar ályktanir af þessum tveimur vesalingum. Rannsóknin hafi því koðnað niður.

Einu sinni var töff að blogga. Nú er það bara hallærislegt. Töffheitin eru öll hjá fésbókinni. Finnst þeim að minnsta kosti sem hanga þar lon og don. Venjulegir farsímar með tökkum og þessháttar eru alls ekki töff lengur. Nú á bara að strjúka þá mjúklega og þá eiga þeir að gera flest sem manni dettur í hug. Þó ekki drekka bjór.

Einu sinni átti ég farsíma sem var svo gamaldags að hann var orðinn eins og þeir allra nýjustu. Þó var hann ekki með skjá. Þar skildi á milli. Sumum brá þegar ég dró hann upp og byrjaði að ýta á takkana.

IMG 6158Bláhver. Einu sinni var miklu meira vatn í honum og fjöldi af rörum sem dýft hafði verið í hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spurning hvort eitthvað hrökkvi í gang núna þegar þú nefnir rykmaura, að það komi út 200 milljón króna bók með stolnum myndum af rykmaurum ;)

DoctorE 24.7.2011 kl. 08:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, það er spurning. Kannski þú takir að þér að vera bæjarstjórinn Bastian. Þessar kómisku athugasemir þínar fá mann til að líta á málin í alveg nýju ljósi.

Sæmundur Bjarnason, 24.7.2011 kl. 08:45

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir þessa færslu Sæmi

Óskar Þorkelsson, 24.7.2011 kl. 09:56

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að rannsóknin á hinum gagnmerlu rykmaurum hafi ekki koðnað niður heldur einfaldlega leitt í ljós að þeir séu hverfandi hér á landi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2011 kl. 13:55

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vantaði þar viðfangið,
sem veröld setti í hættu.
Eftir sat þá auðvaldið
sem ógn var þeim sem mættu.

Sæmundur Bjarnason, 24.7.2011 kl. 14:28

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Haraldur. Ég mun reyna að lesa þetta ef ég finn tíma. En það er rosa-gaman að þykjast vera gáfaður hvort sem maður er það eða ekki.

Sæmundur Bjarnason, 25.7.2011 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband