1375 - Vísindi

smalliGamla myndin.
Þetta er Smalli eða Reynir Helgason. Myndin er greinilega tekin uppá Reykjum.

Í mér togast á vísindi og skáldskapur. Hvort er mikilvægara að telja stráin á litlum bletti eða líta yfir túnið allt? Hvort er þessi spurning heimspekileg eða sagnfræðileg? Hvort ber að leggja meiri áherslu á staðreyndir eða stíl? Það er hægt að segja frá öllu á margvíslegan hátt.

Vísindin segja mér að staðreyndir skipti öllu. Staðreyndir og upplýsingar eru orðnar svo yfirfljótandi og auðvelt og einfalt að nálgast þær flestar að framsetning þeirra, val og uppsetning skiptir a.m.k. eins miklu máli.

Eftir Hrun skrifa mun fleiri á netið en áður. Þeir orðljótustu fara að dragast aftur úr. Heiftin og hatrið verður leiðigjarnt til lengdar. Kaldhæðnin jafnvel líka.

Mikið er gert af því að draga ofurboggara, stjórnmálamenn og vefrit í dilka eftir því hvað er ekki sagt.
Semsagt þagað um. Þannig er búinn til strámaður sem svo er ráðist á.

Ég fréttablogga ekki mikið. Núorðið finnst mér allsekki að ég sé að missa af einhverju þó ég sjái ekki sjónvarpsfréttir. Þannig var það samt einu sinni. Nenni yfirleitt ekki heldur að lesa nein dagblöð og lít bara lauslega á netblöðin. Sennilega ber þetta vott um að ég sé að gamlast, en mér er bara alveg sama. Þetta er hvort eð er mestmegnis sami söngurinn. Það er að æra óstöðugan að reyna að fylgjast með þessu öllu saman.

Sigurjón tannlæknir á Húsavík æsir fólk upp. Það er ekkert sjálfsagt mál að tannlæknar starfi á allt annan hátt en aðrir læknar. Þetta mál þarf að leysa og hvorki bloggarar, blaðamenn né fésbókarskrifarar eru réttu aðilarnir til þess. Ef sjálfsagt er í nafni réttlætis og samhjálpar að þjóðfélagið taki þátt í lækniskostnaði á það ekkert síður að ná til munnholsins en annarra líkamshluta.

IMG 5545Undirgöng.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband