1368 - Heimsenda frestað

bjossi 2Gamla myndin.
Enn er það Bjössi. Nú er hann að smíða.

Nú er heimsendirinn víst byrjaður án þess að ég verði nokkuð var við hann. Bjóst heldur ekki við því. Hér í Kópavoginum virðist veðrið bara vera nokkuð gott. Þó kann að vera fremur kalt. Óttinn um að allt sé að fara til fjandans og nú séu síðustu forvöð til að gera eitthvað af viti til bjargar heiminum er alveg samstofna nútímalegum heimsendaspám. Nýjustu fréttir herma að þessum tiltekna heimsendi hafi verið frestað þangað til í haust. En heimurinn spjarar sig áreiðanlega.

Það er jafnvel hægt að fara að æfa sig í að gleyma Hruninu og kvótanum. Þegar næstu Alþingiskosningar verða haldnar mun sú gleymska koma vel í ljós og kristallast í fylgi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sjálfur mun ég að líkindum kjósa Samfylkinguna ef aðstæður verða líkar og nú. Það er þó undir því komið að þeim takist að finna forystumann sem ég get sætt mig við og ekki komi fram ný og álitleg framboð. Tími Jóhönnu verður áreiðanlega liðinn þá og Imba á ekki afturkvæmt.

Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var minnst á að við uppgröft á Landsspítalalóðinni hefði fundist patróna. Til nánari skýringar var svo sagt að „patróna" væri hluti af byssuskoti. Í orðabók menningarsjóðs er sagt að patróna sé það sama og skothylki. Báðar þessar skýringar finnst mér heldur klénar.

Ég skal því útskýra nánar hvað orðið þýðir fyrir mér. Í mínum huga þýðir orðið „patróna" skothylki sem búið er að nota. Þ.e.a.s. bæði skotið og púðrið er farið og hylkið sem eftir er nefnist patróna. Líklegt finnst mér að orðið sé einnig notað áður en púðrið og skotið eru sett í hylkið, en auðvitað fundum við krakkarnir aldrei slíkar „patrónur". Hylkin utanaf haglaskotum finnst mér einnig heita patrónur.

Það er erfitt að sjá í hendi sér hvaða atburðir eru heimssögulegir þegar þeir eiga sér stað. Ég held t.d. að mál Strauss-Khan eða hvað hann heitir hafi ekki heimssögulega þýðingu. Hefur samt hugsanlega þýðingu fyrir mögulegt endurkjör Sarkozy í Frakklandi.

Stríðið í Líbýu kann hinsvegar vel að hafa heimssögulega þýðingu ekki síður en atburðirnir í Túnis, Egyptalandi og víðar. Hafa má samt í huga að það var ekki bara Sarkozy sem endilega vildi ráðast á Gaddafi með látum heldur Cameroun hinn breski líka. Obama var tregur en lét þó undan að lokum. Rússar og Kínverjar létu plata sig en geta illa snúið málum sér í vil.

Mínar fyrstu fréttatengdu minningar eru frá Geysisslysinu á Vatnajökli. Ég man einkum eftir því vegna þess að við krakkarnir máttum ekki hafa hátt meðan fréttalestur stóð yfir því fullorðna fólkið vildi fylgjast með fréttum af slysinu og björguninni.

Erlendis frá virtust allar helstu fréttir snúast um Eisenhower Bandaríkjaforseta og Mossadek forsætisráðherra Írans. Mossadek var síðan hrakinn frá völdum og við tók Persakeisari. Fólkið í fréttunum þá var einkum Soraya keisaraynja í Persíu (Íran) sem ekki gat eignast barn og þar með erfingja og svo auðvitað kvikmyndastjörnur þess tíma.

Annars finnst mér mjög gaman að lesa sagnfræðilegar frásagnir frá miðbiki tuttugustu aldar. Núna er ég t.d. að lesa bókina „Píslarvottar nútímans" eftir Magnús Þorkel Bernharðsson. Sú bók fjallar um samspil trúar og stjórnmála í Írak og Íran og var gefin út árið 2005.

IMG 5510Þyrill í Hvalfirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hmm, bara Ísland sem er í greipum Gudda; Örugglega sjónvarpsstöðinni Omega að kenna, þeir eru jú að betla peninga núna og hóta hinu og þessu.. ekki þeir, heldur Guddi, að þeirra sögn.

doctore 22.5.2011 kl. 09:47

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, eigum við ekki bara að kalla þessa mynd "Í greipum Gudda." Mér líst vel á það.

Sæmundur Bjarnason, 22.5.2011 kl. 12:00

3 identicon

Gos á Íslandi = ennþá meiri átrúnaður á þessi heimsendaspá.

Bjarne Örn Hansen 22.5.2011 kl. 15:20

4 identicon

Geysir: Ég var staddur á bíósýningu í Ausrbæjarbíó, þegar sýningin var rofinn og þulur tilkynnti, að Geysir væri fundinn.  Hófust mikil gleðihróp.  Man þetta eins og hafi gerst í gær.

Ólafur Sveinsson 22.5.2011 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband