1212 - Saumaðu fyrir sumrunginn svo hann ekki lembi

Eitthvað hefur verið rætt undanfarið um geldingar grísa og sýnist þar sitt hverjum. Það sem hér er sagt að ofan er þó um heimalning af kindakyni og mér hefur alltaf fundist að um hrútlamb sé að ræða og saumaskapurinn hafi átt að koma í staðinn fyrir geldingu. Þetta getur samt verið einhver misskilningur hjá mér. Sumrungur er ekkert síður gimbur finnst mér. Bara að dýrið sé fætt að sumrinu en ekki um vorið.

Kannski er þetta byrjun á vísu eða eitthvað þessháttar. Kom bara upp í hugann þegar geldingarumræðan hófst í sjónvarpinu. Áreiðanlega hef ég heyrt þetta áður þó Gúgli kannist ekkert við þetta orðalag. Vel er hægt að líta á þetta sem fyrripart og kannski ég hafi þetta bara fyrir rímþraut sem vantar botninn á. Það eru sennilega allmargir hagyrðingar sem líta hingað stundum.

Fyrir utan það sem trekkir hér og ég hef áður minnst á, má sennilega telja vísurnar. Margir Íslendingar (kannski einkum af eldri kynslóðinni) eru gefnir fyrir vísur. Setja slíkt gjarnan saman sjálfir þó sjaldan sé því flíkað. Ég er orðinn því allvanur að setja vísukorn í athugasemdirnar hjá mér (og jafnvel víðar) og er, þó ég segi sjálfur frá, oft furðu fljótur að gera vísurnar. Þetta er æfing eins og svo margt annað. Að ég skuli endast til að blogga svona daglega er líka æfing.

Enn nálgast stjórnlagaþingið og enginn bilbugur er á neinum. Þó blindir séu að kæra framkvæmdina held ég að þeir vilji fátt frekar en að kosningin fari snurðulaust fram og á réttum tíma. Skiljanlegt er að þeir vilji taka þátt í herlegheitunum.

Sagt er að búast megi við að uppundir sjö af hverjum tíu muni greiða atkvæði í kosningunum á laugardaginn. Minna má það líka helst ekki vera. Algert fíaskó væri það ef færri en 50 af hundraði létu svo lítið að mæta á kjörstað. Mér þykir líklegast að kjörsóknin nái 85 prósentum. Byggi það ekki á neinu öðru en eigin bjartsýni.

Ég er nokkurn vegin búinn að ákveða hvernig ég ráðstafa mínu atkvæði. Ef til vill fer ég einu sinni enn yfir röðina á þeim frambjóðendum sem ég hyggst styðja. Kosningarnar verða spennandi. Á því er enginn vafi. Mest hlakka ég til að vita hver kjörsóknin verður. Upplýsingar um það ættu að liggja fyrir strax og kjörfundi lýkur. Úrslitin verða síðan ekki ljós fyrr en síðar. Meðal annars geri ég ráð fyrir að safna þurfi saman atkvæðaseðlum af öllu landinu á einn stað.

Sumir segja að það taki því varla að kjósa því ekki sé annað að sjá en að frambjóðendur allir vilji það sama. Svo er alls ekki og þar að auki verða þeir örugglega flestir að svíkja eitthvað af því sem þeir lofa. Þó þeir ætli sér marga góða hluti er ekki víst að efndirnar verði á pari. Til þess eru margar ástæður.

Það er auðvitað rétt að það sem frambjóðendur segja í sjálfskynningum sínum í útvarpinu og í rituðu máli er ósköp keimlíkt hvað öðru. Menn virðast mestmegnis vilja það sama og eru með svipaðar áherslur og mærðin er mikil. Ég nota frekar þær (kannski mislukkuðu) skoðanir sem ég hef haft á frambjóðendum til þessa, en það sem þeir segja núna til hátíðabrigða. Þetta verður auðvitað til þess að þjóðþekkt fólk lendir frekar á mínum lista en aðrir. Við því er lítið að gera. Ég lít á veruna á stjórnlagaþingi sem endasprett í langhlaupi en ekki spretthlaup.

Ég blogga fremur lítið um Hrunið og þess aðskiljanlegu náttúrur. Mest er það vegna þess að ég hef lítið vit á fjármálum. Auðvitað er hægt að reyna að Gúgla í sig svolítið vit en mér finnst skemmtilegra að skrifa um ýmislegt annað og er fljótari að því. Fréttabergmál vil ég síst af öllu vera. Mínar ær og kýr eru auðvitað Fésbókin og Bloggið sjálft enda skrifa ég mest um þau fyrirbrigði. Pólitík er ómögulegt að forðast með öllu enda er hún að mörgu leyti lífið sjálft.

Og í lokin fróðleiksmoli sem í augum okkar Íslendinga er kannski lítill en ekki í augum annarra. Lal Bahadur Srivastava Shastri varð forsætisráðherra Indlands eftir að Nehru dó árið 1964. Hann fæddist árið 1904 og dó árið 1966 eftir að hafa verið forsætisráðherra í innan við tvö ár. Þó drakk hann daglega eitt glas af hlandi úr sjálfum sér. Dauða hans bar að erlendis (miðað við Indland) og er það nokkuð einstakt.

IMG 3823Hér er kalt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skrítnir drykkjusiðir hjá þessum Indverja. Er þetta algengt og hvað á þetta að þýða?

Guðmundur Bjarnason 26.11.2010 kl. 04:11

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ætli honum hafi verið byrlað rangt hland?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.11.2010 kl. 05:32

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Saumaðu fyrir sumrunginn
svo hann ekki lembi
Hætt er við að haustdrunginn
hærur engra kembi

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.11.2010 kl. 05:56

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Guðmundur, þetta er víst talið bráðhollt. Gott ef það er ekki stundað talsvert sumsstaðar. Mér er þetta minnisstætt og það kom fram í fréttum á sínum tíma.

Sæmundur Bjarnason, 26.11.2010 kl. 07:10

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, það kom einmitt fram einhvers staðar og er einmitt getið á Wikipediu að grunur er um að honum hafi verið byrlað eitur.

Vísan er fín, en eins og ég bjóst við er rímorðið í seinni ljóðlínunni ansi strembið og býður ekki upp á marga möguleika.

Sæmundur Bjarnason, 26.11.2010 kl. 07:14

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ayurveda kallast forn indversk læknisfræði. Hún mælir m.a. með inntöku þvags til að sporna við ákveðnum kvillum.

Vestrænar rannsóknir á þvagi á hafa sýnt að það inniheldur ákveðin efni sem geta verið heilsusamleg en samt hefur ekki tekist að sýna fram á að þvagdrykkja komi í veg fyrir eða lækni sjúkdóma.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 26.11.2010 kl. 18:07

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Datt einmitt í hug að við fengjum svar úr þessari átt. Takk fyrir upplýsingarnar Svanur Gísli.

Sæmundur Bjarnason, 26.11.2010 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband