1090 - Smágreinar og myndir

Morgunblaðið er alltaf að reyna að selja netaðgang að blaðinu. Það held ég að sé misheppnuð leið. Aðrir vefmiðlar íslenskir taka sér þá oft til fyrirmyndar en sjá fljótlega að sú leið er dauðadæmd. Mbl.is og blog.is eru þó ennþá ókeypis og þegar Mogginn fer að heimta gjald fyrir þau forréttindi að fá að blogga hjá þeim er ég hættur. Eina alvarlega samkeppnin við mbl.is er eyjan.is. Þar er líka allt ókeypis (að ég held) og það er það sem netverjar vilja. Meðan ekki er búið að finna einfalda og auðvelda leið til að flytja peninga eða ígildi þeirra milli aðila á netinu heldur dæmið áfram að líta svona út og engin ástæða til annars.

Björgólfur Þór Björgólfsson og Jón Ásgeir Jóhannesson vinna nú að því hörðum höndum að aðskilja sjálfa sig frá öðrum útrásarvíkingum. Ég trúi ekki eitt andartak á sakleysi þeirra. Í mínum augum eru þeir fráleitt minna sekir en aðrir útrásarvíkingar þó þeir hafi fólk í vinnu við að reyna að telja fólki trú um sakleysi sitt. Agli Helgasyni virðist sérlega uppsigað við Björgólf og Moggamönnum við Jón Ásgeir. Mér er eiginlega alveg sama.

Magma-málið gæti riðið ríkisstjórninni að fullu. Finnst einkennilegt að þessi umræða skuli fara á sérstakt flug núna. Hélt að búið væri að taka hana. Lít svo á að í þessari umræðu allri saman sé í raun sameinuð umræðan um hitaréttindi, vatnsréttindi og fiskinn í sjónum. Semsagt almenn umræða um eignarhald á auðlindum landsins. Þegar útlendingafóbía og ESB-aðild blandast svo inn í þetta verður umræðan ansi áköf.

Vel má gera að gamni sínu í bloggi. Halda fram einhverri bölvaðri vitleysu og reyna svo að verja hana í athugasemdum. Þá er sniðugast að láta eins og maður hafi skrifað allt í fúlustu alvöru. Mér finnst samt umdeilanlegt að búa hluti algerlega til á baggalútískan hátt innanum alvarleg mál. Hvernig á fólk að átta sig á svoleiðis löguðu?

Og nokkrar ljósmyndir í lokin. Allar eru þær teknar um daginn í skóginum við Rauðavatn.

rau34Hvað er þetta eiginlega?

rau41„Finni hann laufblað fölnað eitt."

rau42Blóm.

rau19Sveppir.

rau20Sveppur.

rau2Steinn á grasi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta á efstu myndinni, það er gat
þó er eitthvað að baki, en hvað?
Vissi eg ei það og við lestur sat
uns vitraðist mér að svona er það.

K.S. 25.7.2010 kl. 01:06

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

K.S. sá þar kolsvart gat
komið vera í stálið.
Vissi gjörla og við það sat.
Vandaðist þá málið.

Sæmundur Bjarnason, 25.7.2010 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband