1028 - Kosningar

Var á Akureyri um helgina. Það er bara eins og það sé komið hásumar. Svo ég lét bloggið eiga sig. Ekki stöfum á það eyðandi. Nóg annað við tímann að gera. 

Það verður spennandi að fylgjast með hlutum um næstu helgi. Kosningar fyrir þá sem það vilja og Júróvisjón fyrir hina. Talningin þar er oft spennandi en lögin ekki mikið fyrir lög að sjá. Skrautið og gauraganginn þó stundum horfandi á.

Þar að auki er búið á spá því að Katla ræski sig á laugardaginn svo margt getur gerst.

Aðalspurning kosninganna virðist ætla að verða hvort Jón Gnarr nái virkilega meirihluta í Reykjavík. Það yrði sannarlega saga til næsta bæjar. Kosningar annars staðar falla svolítið í skuggann fyrir því en eru þó víða ansi merkilegar og vel þess virði að fylgjast með.

Að skara framúr blundar í öllum. Vera fallegasti hesturinn í stóðinu, fegursta liljan á vellinum eða eiga sem flesta fésbókarvini. Í einhverju verður hver og einn að skara framúr og það er lítill vandi. Ef allt um þrýtur er hægt að vera betri en næsti maður í einhverju.

Frameftir öllum aldri (segi það kannski ekki - en alltof lengi samt) var ég haldinn þeirri firru að kvenfólk kærði sig ekki vitund um kynlíf. Þessu var á óbeinan hátt haldið að unglingum (og er kannski enn) af flestu fullorðnu fólki og skólakerfinu sem heild. Þetta hafði sín áhrif og kom kannski í veg fyrir að krakkar færu að stunda kynlíf of snemma. Núorðið finnst mér ekki skrýtið að svonalöguðu sé haldið að unglingum en á þeim tíma þegar maður þráði kynlífið hvað heitast (og sundlaði jafnvel við að hugsa um það) var þetta ákaflega skrýtið.

Páll Ásgeir Ásgeirsson er kominn í heilagt stríð við þá mótorhjólamenn sem stunda það að spilla íslenskri náttúru. Það undarlegasta við þetta alltsaman er að samtök mótorhjólamanna styðja sitt fólk jafnt í lögbrotum sem öðru. Þeir mótorhjólamenn sem hugsa líkt og Páll Ásgeir ættu að forðast félagsskap af því tagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband